Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er allegóría?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Einfaldasta útskýringin á allegóríu er sú að með henni sé eitt sagt en annað meint. Gríska hugtakið allegoria felur í sér orðin allos sem merkir annað og agoreuein sem þýðir að tala opinberlega. Í allegóríu er þess vegna að minnsta kosti tvenns konar merking: hin bókstaflega og hin allegóríska.

Upphaf allegórískrar túlkunar má rekja til heimspekilegra útskýringa á textum skáldanna Hómers og Hesíódosar á 5. og 6. öld f. Krist. Þar eru goðsögur skáldanna útlagðar á vísinda- eða siðfræðilegan hátt. Það voru aðallega svonefndir sófistar sem stunduðu þessa túlkunaraðferð, en í þeirra meðförum var hún nátengd orðsifjafræði þar sem reynt er að ráða í merkingu út frá uppruna og skyldleika orða. Platón hafnaði allegórískri túlkun á bókmenntum en stóuspekingar tóku þessa túlkunaraðferð upp á sína arma.

Í frumkristni varð til svonefnd týpólógísk túlkunaraðferð en hún tengist allgegórískri túlkun. Týpólógísk túlkun felst í því að að atburðir og persónur í Gamla testamentinu eru taldir forboði atburða í Nýja testamentinu. Samkvæmt þessari túlkunaraðferð er Jónas í hvalnum fyrirmynd upprisu Jesú Krists.

Kristnir menn vöruðu þó við að allegórísk túlkun gæti gengið út í öfgar og nauðsynlegt væri að huga að bókstaflegum skilningi orðanna, til dæmis myndu menn rísa upp frá dauðum á efsta degi í bókstaflegum skilningi en ekki allegórískum. Og um paradís segir heilagur Ágústínus að þótt hægt sé að túlka ýmislegt varðandi hana á andlega hátt kemur það alls ekki í veg fyrir að paradís hafi í raun og veru verið til. Ágústínus leggur áherslu á að allegórísk túlkun megi ekki útiloka bókstaflegan skilning Biblíunnar.

Miðaldir eru blómaskeið allegórískra verka, oft á formi svonefndra leiðslubókmennta, en þar segir frá því sem bar fyrir höfunda í leiðslu eða draumsýn. Þekktasta dæmið um þess háttar texta er Hinn guðdómlegi gleðileikur eftir ítalska skáldið Dante en hann lét þess getið að Gleðileikinn væri hægt að lesa á fjóra vegu: bókstaflega, allegórískt, siðferðislega og andlega.

Á tímum rómantíkurinnar í Englandi féll allegórían í ónáð, ekki síst fyrir tilstuðlan enska skáldsins Samuels Taylor Coleridge sem greindi á milli allegóríu og tákns. Samkvæmt skilningi Coleridges fólst varla annað í allegórískum lestri en einföld vélræn túlkun en tákn voru hins vegar margræð og höfðu nærri því sjálfstætt líf. Fordómar hafa lengi fylgt allegóríunni. Á 16. öld sagðist siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther beinlínis hata allegóríur en það virðist hafa verið eins konar ástar/haturssamband því Lúther skrifaði einnig að allegórían væri líkt og:
yndisleg skækja sem gælir við menn á þann hátt að það er ómögulegt annað en að elska hana.
Á síðustu áratugum 20. aldarinnar varð þó aftur vakning í allegórískri túlkun, fyrst og fremst vegna þess að farið var að líta á hana sem eina túlkunarleið af mörgum hugsanlegum en ekki sem einu leiðina til að túlka ákveðna texta. Með þeirri áherslu er í raun tekið undir orð Ágústínusar um að allegórískur lestur megi ekki útiloka bókstaflegan skilning.

Heimildir
  • Árni Sigurjónsson, Bókmenntakenningar fyrri alda, Heimskringla, Reykjavík, 1991.
  • Jon Whitman (ritstj.), Interpretation and Allegory: Antiquity to the Modern Period, Brill, Leiden, 2000.

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

25.6.2002

Spyrjandi

Sandra Þorsteinsdóttir, f. 1985

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er allegóría?“ Vísindavefurinn, 25. júní 2002, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2526.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 25. júní). Hvað er allegóría? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2526

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað er allegóría?“ Vísindavefurinn. 25. jún. 2002. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2526>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er allegóría?
Einfaldasta útskýringin á allegóríu er sú að með henni sé eitt sagt en annað meint. Gríska hugtakið allegoria felur í sér orðin allos sem merkir annað og agoreuein sem þýðir að tala opinberlega. Í allegóríu er þess vegna að minnsta kosti tvenns konar merking: hin bókstaflega og hin allegóríska.

Upphaf allegórískrar túlkunar má rekja til heimspekilegra útskýringa á textum skáldanna Hómers og Hesíódosar á 5. og 6. öld f. Krist. Þar eru goðsögur skáldanna útlagðar á vísinda- eða siðfræðilegan hátt. Það voru aðallega svonefndir sófistar sem stunduðu þessa túlkunaraðferð, en í þeirra meðförum var hún nátengd orðsifjafræði þar sem reynt er að ráða í merkingu út frá uppruna og skyldleika orða. Platón hafnaði allegórískri túlkun á bókmenntum en stóuspekingar tóku þessa túlkunaraðferð upp á sína arma.

Í frumkristni varð til svonefnd týpólógísk túlkunaraðferð en hún tengist allgegórískri túlkun. Týpólógísk túlkun felst í því að að atburðir og persónur í Gamla testamentinu eru taldir forboði atburða í Nýja testamentinu. Samkvæmt þessari túlkunaraðferð er Jónas í hvalnum fyrirmynd upprisu Jesú Krists.

Kristnir menn vöruðu þó við að allegórísk túlkun gæti gengið út í öfgar og nauðsynlegt væri að huga að bókstaflegum skilningi orðanna, til dæmis myndu menn rísa upp frá dauðum á efsta degi í bókstaflegum skilningi en ekki allegórískum. Og um paradís segir heilagur Ágústínus að þótt hægt sé að túlka ýmislegt varðandi hana á andlega hátt kemur það alls ekki í veg fyrir að paradís hafi í raun og veru verið til. Ágústínus leggur áherslu á að allegórísk túlkun megi ekki útiloka bókstaflegan skilning Biblíunnar.

Miðaldir eru blómaskeið allegórískra verka, oft á formi svonefndra leiðslubókmennta, en þar segir frá því sem bar fyrir höfunda í leiðslu eða draumsýn. Þekktasta dæmið um þess háttar texta er Hinn guðdómlegi gleðileikur eftir ítalska skáldið Dante en hann lét þess getið að Gleðileikinn væri hægt að lesa á fjóra vegu: bókstaflega, allegórískt, siðferðislega og andlega.

Á tímum rómantíkurinnar í Englandi féll allegórían í ónáð, ekki síst fyrir tilstuðlan enska skáldsins Samuels Taylor Coleridge sem greindi á milli allegóríu og tákns. Samkvæmt skilningi Coleridges fólst varla annað í allegórískum lestri en einföld vélræn túlkun en tákn voru hins vegar margræð og höfðu nærri því sjálfstætt líf. Fordómar hafa lengi fylgt allegóríunni. Á 16. öld sagðist siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther beinlínis hata allegóríur en það virðist hafa verið eins konar ástar/haturssamband því Lúther skrifaði einnig að allegórían væri líkt og:
yndisleg skækja sem gælir við menn á þann hátt að það er ómögulegt annað en að elska hana.
Á síðustu áratugum 20. aldarinnar varð þó aftur vakning í allegórískri túlkun, fyrst og fremst vegna þess að farið var að líta á hana sem eina túlkunarleið af mörgum hugsanlegum en ekki sem einu leiðina til að túlka ákveðna texta. Með þeirri áherslu er í raun tekið undir orð Ágústínusar um að allegórískur lestur megi ekki útiloka bókstaflegan skilning.

Heimildir
  • Árni Sigurjónsson, Bókmenntakenningar fyrri alda, Heimskringla, Reykjavík, 1991.
  • Jon Whitman (ritstj.), Interpretation and Allegory: Antiquity to the Modern Period, Brill, Leiden, 2000.

...