Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Fyrir hverja og hvaða fjármagn gildir sú ákvörðun, þegar Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um vexti?

Gylfi Magnússon

Seðlabanki Íslands framfylgir stefnu sinni í peningamálum einkum með því að hafa áhrif á vexti á því sem kallað er peningamarkaður. Nú skiptir mestu máli hvaða ávöxtunarkröfu bankinn gerir í svokölluðum endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir, það er banka og sparisjóði. Með endurhverfum viðskiptum er átt við að bankinn kaupir tiltekin verðbréf af lánastofnunum en um leið er gerður samningur um að bankinn selji sömu stofnunum sömu bréf aftur nokkru síðar, þannig að kaupin ganga til baka eftir tiltekinn tíma.

Í raun er þetta mjög svipað og þegar veitt eru lán gegn handveði í tilteknum eignum, sá sem tekur lánið leggur fram veð í upphafi og fær það svo til baka þegar hann endurgreiðir lánið. Þau verðbréf sem Seðlabankinn tekur gild í endurhverfum viðskiptum þurfa að vera ríkistryggð. Krefjist Seðlabankinn hárra vaxta í þessum viðskiptum, þá sjá lánastofnanir sér síður hag í því að taka lán með þessum hætti, þá hafa þær minna fé til að lána öðrum og þar með hækka vextir almennt. Ef Seðlabankinn hins vegar krefst lágra vaxta í endurhverfum viðskiptum er hann í raun að bjóða lánastofnunum hagstæð lánskjör og þá geta þær lánað öðrum við hagstæðari kjör en ella og þar með lækka vextir almennt.

Seðlabankinn býður einnig lánastofnunum upp á svokölluð daglán, þau eru, eins og nafnið gefur til kynna, lán til eins dags í einu. Til að geta tekið þau þurfa lánastofnanir að leggja fram veð, sambærileg þeim sem nýtt eru í endurhverfum viðskiptum. Vextir á þessum daglánum mynda þak (efri mörk) fyrir daglánavexti á millibankamarkaði, þar sem lánastofnanir lána hver annarri fé frá degi til dags. Með því er átt við að daglánavextir á millibankamarkaði ættu undir eðlilegum kringumstæðum aldrei að verða hærri en daglánavextir sem þessum stofnunum bjóðast hjá Seðlabankanum.

Auk þess geta lánastofnanir átt fé á reikningum í Seðlabankanum og vextir á þeim reikningum mynda gólf (neðri mörk) fyrir daglánavexti á millibankamarkaði, það er engin lánastofnun ætti að sjá sér hag í að veita annarri daglán með lægri vöxtum en þessum.

Seðlabanki Íslands.

Þá leggur Seðlabankinn svokallaða bindiskyldu á innlánsstofnanir. Með því er átt við að þær verða að leggja inn á reikninga í Seðlabankanum fé í ákveðnu hlutfalli við það fé sem aðrir leggja inn hjá þeim. Þetta fé er bundið í Seðlabankanum og því er þetta nafn notað, bindiskylda. Nú þurfa innlánstofnanir að leggja fé inn í Seðlabankanum sem samsvarar 1,5% af innlánum sem eru bundin til lengri tíma en eins árs og 4% af þeim innlánum sem eru bundin til skemmri tíma en eins árs. Auk þess leggur Seðlabankinn á svokallaða lausafjárskyldu. Með því er átt við að innlánsstofnanir þurfa að eiga handbært fé í sjóði sem er reiknað út samkvæmt ákveðnum reglum, meðal annars með hliðsjón af innlánum. Bæði bindi- og lausafjárskylda draga úr möguleikum innlánsstofnana á því að endurlána fé sem lagt er á reikninga hjá þeim. Reglum um bindiskyldu (eða lausafjárskyldu) er sjaldan breytt og hlutföllin sem miðað er við eru oftast óbreytt árum saman. Þeim er því til dæmis yfirleitt ekki breytt til að ná fram tilteknum skammtímamarkmiðum í peningamálum. Það kann að vera ein skýring á lítilli umræðu um þessi stýritæki Seðlabankans að breytingar á þeim eru sjaldgæfar.

Vextir í viðskiptum Seðlabanka við innlánsstofnanir hafa með beinum eða óbeinum hætti áhrif á vexti í viðskiptum þessara lánastofnana við hvora aðra og við aðra viðskiptavini sína. Vextir Seðlabankans hafa því áhrif á vexti um allt hagkerfið og þar eð vextir hafa ýmis áhrif á hegðan bæði einstaklinga og fyrirtækja er hægt að nota vexti Seðlabankans til að hafa ýmiss konar áhrif á gang efnahagsmála almennt.

Séu vextir Seðlabanka háir ýtir það undir háa vexti annars staðar. Það veldur því meðal annars að fyrirtæki og einstaklingar sjá sér síður hag í að taka lán til að standa undir fjárfestingum eða öðrum kaupum á vöru og þjónustu. Það dregur úr eftirspurn í þjóðfélaginu og hefur almennt áhrif í þá átt að hægja á hjólum efnahagslífsins. Séu vextir Seðlabanka hins vegar lágir og vegna þess vextir almennt lágir sjá ýmsir sér hag í því að taka lán sem þeir síðan nota til kaupa ýmislegt. Þar með eykst spurn eftir vörum og þjónustu og hjól efnahagslífsins fara að snúast hraðar.

Vegna þess að vextir Seðlabanka geta með þessum hætti haft áhrif á spurn eftir vörum og þjónustu í samfélaginu er hægt að nota þá til þess til dæmis að reyna að hafa hemil á verðbólgu. Þannig hefur vaxtahækkun þau áhrif að draga úr eftirspurn. Það þýðir minni tilhneigingu hjá fyrirtækjum, launþegum og öðrum til að hækka verð og vinnur því gegn verðbólgu.

Nú er það yfirlýst markmið Seðlabanka Íslands að vinna einkum gegn verðbólgu með vaxtaákvörðunum sínum. Það þýðir meðal annars að ef ástæða þykir til að ætla að verðbólga sé að aukast umfram þau mörk sem bankinn stefnir að, þá hækkar bankinn vexti og öfugt ef talið er að verðbólga verði innan þeirra marka.

Vextir Seðlabanka hafa einnig ýmis önnur áhrif, sérstaklega á gjaldeyrismarkaði og þar með á gengi. Ef vextir eru háir í einu landi (eða einu gjaldmiðilsvæði, það er í mörgum löndum sem nota sama gjaldmiðil) þá sjá fjárfestar sér að öðru jöfnu frekar en ella hag í að fjárfesta í eignum, til dæmis skuldabréfum, sem eru gefin út í þeim gjaldmiðli og sjá sér síður hag í að taka lán í sama gjaldmiðli. Það þýðir að margir vilja kaupa þennan tiltekna gjaldmiðil í staðinn fyrir aðra gjaldmiðla. Þar með ætti að öðru jöfnu verð á þessum gjaldmiðli að hækka, það er gengi hans ætti að styrkjast.

Seðlabanki getur því líka beitt vöxtum til að stýra gengi gjaldmiðils, vilji bankinn hækka gengið, hækkar hann vexti en vilji bankinn lækka gengið, lækkar hann vexti. Til skamms tíma beitti Seðlabanki Íslands vöxtum einkum til að halda gengi íslensku krónunnar stöðugu en nú einbeitir bankinn sér sem fyrr segir einkum að stöðugu verðlagi. Stundum grípur Seðlabankinn beint inn í gjaldeyrismarkaði og kaupir eða selur krónur í staðinn fyrir erlenda gjaldmiðla, ýmist til að reyna að hækka eða lækka gengi krónunnar. Bankinn getur líka gripið beint inn í markaði með ríkisverðbréf hérlendis með því að kaupa eða selja slík bréf.

Verðlag og gengi tengjast raunar með ýmsum hætti. Ef gengi íslensku krónunnar fellur þá hækkar meðal annars verð á innfluttum vörum og þar með verðlag almennt í landinu. Lágt gengi krónunnar ýtir líka undir útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar, umsvif þeirra hafa tilhneigingu til að aukast og það getur verið verðbólguhvetjandi.

Hægt er að flytja fjármagn á milli landa mjög auðveldlega, bæði geta Íslendingar til dæmis tekið erlend lán og keypt erlendar eignir eða selt útlendingum innlendar eignir. Þetta skiptir talsverðu fyrir áhrif stýritækja Seðlabankans á hagkerfið. Háir vextir á Íslandi hafa minni áhrif í þá átt að hægja á hagkerfinu ef Íslendingar geta tekið erlend lán þegar þeim finnast vextir á innlendum lánum of háir. Það er raunar hluti af skýringunni á því að vextir hafa áhrif á gengi eins og vikið var að áður. Þetta kemur þó ekki alveg í veg fyrir að háir vextir hérlendis hægi á hagkerfinu, meðal annars vegna þess að erlend lán hafa frá sjónarhóli lántakenda ýmsa aðra eiginleika en innlend. Þannig fylgir erlendum lánum til dæmis gengisáhætta, sá sem tekur erlent lán til að eignast innlendar eignir getur verið í vondum málum ef gengi innlenda gjaldmiðilsins fellur. Þá eiga einstaklingar og smáfyrirtæki yfirleitt óhægara um vik að taka erlend lán en stærri fyrirtæki eða ríkissjóður.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Um leið er svarað:
  • Hvernig er ákvörðunum Seðlabanka Íslands um bindiskyldu og lausafjárskyldu háttað í dag og hvers vegna er engin umræða um þau hagstjórnartæki?
  • Í dag eru fjármagnsflutningar frjálsir. Hvers vegna hafa vaxtaákvarðanir seðlabanka (almennt) áhrif ef við getum tekið lán hvar sem er?
  • Gæti ég fengið útskýringu á stýrivöxtum Seðlabankans?

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.7.2002

Spyrjandi

Ólafur Haukur Johnson,
Jökull Steinarsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Fyrir hverja og hvaða fjármagn gildir sú ákvörðun, þegar Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um vexti?“ Vísindavefurinn, 4. júlí 2002, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2563.

Gylfi Magnússon. (2002, 4. júlí). Fyrir hverja og hvaða fjármagn gildir sú ákvörðun, þegar Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um vexti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2563

Gylfi Magnússon. „Fyrir hverja og hvaða fjármagn gildir sú ákvörðun, þegar Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um vexti?“ Vísindavefurinn. 4. júl. 2002. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2563>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Fyrir hverja og hvaða fjármagn gildir sú ákvörðun, þegar Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um vexti?
Seðlabanki Íslands framfylgir stefnu sinni í peningamálum einkum með því að hafa áhrif á vexti á því sem kallað er peningamarkaður. Nú skiptir mestu máli hvaða ávöxtunarkröfu bankinn gerir í svokölluðum endurhverfum viðskiptum við lánastofnanir, það er banka og sparisjóði. Með endurhverfum viðskiptum er átt við að bankinn kaupir tiltekin verðbréf af lánastofnunum en um leið er gerður samningur um að bankinn selji sömu stofnunum sömu bréf aftur nokkru síðar, þannig að kaupin ganga til baka eftir tiltekinn tíma.

Í raun er þetta mjög svipað og þegar veitt eru lán gegn handveði í tilteknum eignum, sá sem tekur lánið leggur fram veð í upphafi og fær það svo til baka þegar hann endurgreiðir lánið. Þau verðbréf sem Seðlabankinn tekur gild í endurhverfum viðskiptum þurfa að vera ríkistryggð. Krefjist Seðlabankinn hárra vaxta í þessum viðskiptum, þá sjá lánastofnanir sér síður hag í því að taka lán með þessum hætti, þá hafa þær minna fé til að lána öðrum og þar með hækka vextir almennt. Ef Seðlabankinn hins vegar krefst lágra vaxta í endurhverfum viðskiptum er hann í raun að bjóða lánastofnunum hagstæð lánskjör og þá geta þær lánað öðrum við hagstæðari kjör en ella og þar með lækka vextir almennt.

Seðlabankinn býður einnig lánastofnunum upp á svokölluð daglán, þau eru, eins og nafnið gefur til kynna, lán til eins dags í einu. Til að geta tekið þau þurfa lánastofnanir að leggja fram veð, sambærileg þeim sem nýtt eru í endurhverfum viðskiptum. Vextir á þessum daglánum mynda þak (efri mörk) fyrir daglánavexti á millibankamarkaði, þar sem lánastofnanir lána hver annarri fé frá degi til dags. Með því er átt við að daglánavextir á millibankamarkaði ættu undir eðlilegum kringumstæðum aldrei að verða hærri en daglánavextir sem þessum stofnunum bjóðast hjá Seðlabankanum.

Auk þess geta lánastofnanir átt fé á reikningum í Seðlabankanum og vextir á þeim reikningum mynda gólf (neðri mörk) fyrir daglánavexti á millibankamarkaði, það er engin lánastofnun ætti að sjá sér hag í að veita annarri daglán með lægri vöxtum en þessum.

Seðlabanki Íslands.

Þá leggur Seðlabankinn svokallaða bindiskyldu á innlánsstofnanir. Með því er átt við að þær verða að leggja inn á reikninga í Seðlabankanum fé í ákveðnu hlutfalli við það fé sem aðrir leggja inn hjá þeim. Þetta fé er bundið í Seðlabankanum og því er þetta nafn notað, bindiskylda. Nú þurfa innlánstofnanir að leggja fé inn í Seðlabankanum sem samsvarar 1,5% af innlánum sem eru bundin til lengri tíma en eins árs og 4% af þeim innlánum sem eru bundin til skemmri tíma en eins árs. Auk þess leggur Seðlabankinn á svokallaða lausafjárskyldu. Með því er átt við að innlánsstofnanir þurfa að eiga handbært fé í sjóði sem er reiknað út samkvæmt ákveðnum reglum, meðal annars með hliðsjón af innlánum. Bæði bindi- og lausafjárskylda draga úr möguleikum innlánsstofnana á því að endurlána fé sem lagt er á reikninga hjá þeim. Reglum um bindiskyldu (eða lausafjárskyldu) er sjaldan breytt og hlutföllin sem miðað er við eru oftast óbreytt árum saman. Þeim er því til dæmis yfirleitt ekki breytt til að ná fram tilteknum skammtímamarkmiðum í peningamálum. Það kann að vera ein skýring á lítilli umræðu um þessi stýritæki Seðlabankans að breytingar á þeim eru sjaldgæfar.

Vextir í viðskiptum Seðlabanka við innlánsstofnanir hafa með beinum eða óbeinum hætti áhrif á vexti í viðskiptum þessara lánastofnana við hvora aðra og við aðra viðskiptavini sína. Vextir Seðlabankans hafa því áhrif á vexti um allt hagkerfið og þar eð vextir hafa ýmis áhrif á hegðan bæði einstaklinga og fyrirtækja er hægt að nota vexti Seðlabankans til að hafa ýmiss konar áhrif á gang efnahagsmála almennt.

Séu vextir Seðlabanka háir ýtir það undir háa vexti annars staðar. Það veldur því meðal annars að fyrirtæki og einstaklingar sjá sér síður hag í að taka lán til að standa undir fjárfestingum eða öðrum kaupum á vöru og þjónustu. Það dregur úr eftirspurn í þjóðfélaginu og hefur almennt áhrif í þá átt að hægja á hjólum efnahagslífsins. Séu vextir Seðlabanka hins vegar lágir og vegna þess vextir almennt lágir sjá ýmsir sér hag í því að taka lán sem þeir síðan nota til kaupa ýmislegt. Þar með eykst spurn eftir vörum og þjónustu og hjól efnahagslífsins fara að snúast hraðar.

Vegna þess að vextir Seðlabanka geta með þessum hætti haft áhrif á spurn eftir vörum og þjónustu í samfélaginu er hægt að nota þá til þess til dæmis að reyna að hafa hemil á verðbólgu. Þannig hefur vaxtahækkun þau áhrif að draga úr eftirspurn. Það þýðir minni tilhneigingu hjá fyrirtækjum, launþegum og öðrum til að hækka verð og vinnur því gegn verðbólgu.

Nú er það yfirlýst markmið Seðlabanka Íslands að vinna einkum gegn verðbólgu með vaxtaákvörðunum sínum. Það þýðir meðal annars að ef ástæða þykir til að ætla að verðbólga sé að aukast umfram þau mörk sem bankinn stefnir að, þá hækkar bankinn vexti og öfugt ef talið er að verðbólga verði innan þeirra marka.

Vextir Seðlabanka hafa einnig ýmis önnur áhrif, sérstaklega á gjaldeyrismarkaði og þar með á gengi. Ef vextir eru háir í einu landi (eða einu gjaldmiðilsvæði, það er í mörgum löndum sem nota sama gjaldmiðil) þá sjá fjárfestar sér að öðru jöfnu frekar en ella hag í að fjárfesta í eignum, til dæmis skuldabréfum, sem eru gefin út í þeim gjaldmiðli og sjá sér síður hag í að taka lán í sama gjaldmiðli. Það þýðir að margir vilja kaupa þennan tiltekna gjaldmiðil í staðinn fyrir aðra gjaldmiðla. Þar með ætti að öðru jöfnu verð á þessum gjaldmiðli að hækka, það er gengi hans ætti að styrkjast.

Seðlabanki getur því líka beitt vöxtum til að stýra gengi gjaldmiðils, vilji bankinn hækka gengið, hækkar hann vexti en vilji bankinn lækka gengið, lækkar hann vexti. Til skamms tíma beitti Seðlabanki Íslands vöxtum einkum til að halda gengi íslensku krónunnar stöðugu en nú einbeitir bankinn sér sem fyrr segir einkum að stöðugu verðlagi. Stundum grípur Seðlabankinn beint inn í gjaldeyrismarkaði og kaupir eða selur krónur í staðinn fyrir erlenda gjaldmiðla, ýmist til að reyna að hækka eða lækka gengi krónunnar. Bankinn getur líka gripið beint inn í markaði með ríkisverðbréf hérlendis með því að kaupa eða selja slík bréf.

Verðlag og gengi tengjast raunar með ýmsum hætti. Ef gengi íslensku krónunnar fellur þá hækkar meðal annars verð á innfluttum vörum og þar með verðlag almennt í landinu. Lágt gengi krónunnar ýtir líka undir útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar, umsvif þeirra hafa tilhneigingu til að aukast og það getur verið verðbólguhvetjandi.

Hægt er að flytja fjármagn á milli landa mjög auðveldlega, bæði geta Íslendingar til dæmis tekið erlend lán og keypt erlendar eignir eða selt útlendingum innlendar eignir. Þetta skiptir talsverðu fyrir áhrif stýritækja Seðlabankans á hagkerfið. Háir vextir á Íslandi hafa minni áhrif í þá átt að hægja á hagkerfinu ef Íslendingar geta tekið erlend lán þegar þeim finnast vextir á innlendum lánum of háir. Það er raunar hluti af skýringunni á því að vextir hafa áhrif á gengi eins og vikið var að áður. Þetta kemur þó ekki alveg í veg fyrir að háir vextir hérlendis hægi á hagkerfinu, meðal annars vegna þess að erlend lán hafa frá sjónarhóli lántakenda ýmsa aðra eiginleika en innlend. Þannig fylgir erlendum lánum til dæmis gengisáhætta, sá sem tekur erlent lán til að eignast innlendar eignir getur verið í vondum málum ef gengi innlenda gjaldmiðilsins fellur. Þá eiga einstaklingar og smáfyrirtæki yfirleitt óhægara um vik að taka erlend lán en stærri fyrirtæki eða ríkissjóður.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Um leið er svarað:
  • Hvernig er ákvörðunum Seðlabanka Íslands um bindiskyldu og lausafjárskyldu háttað í dag og hvers vegna er engin umræða um þau hagstjórnartæki?
  • Í dag eru fjármagnsflutningar frjálsir. Hvers vegna hafa vaxtaákvarðanir seðlabanka (almennt) áhrif ef við getum tekið lán hvar sem er?
  • Gæti ég fengið útskýringu á stýrivöxtum Seðlabankans?
...