


Hið sama gildir ef við sendum ljós inn í grannan glerþráð (mynd 3). Ljósið endurkastast að fullu af skilfleti glers og lofts, svo framarlega sem innfallshorn geislans er alltaf stærra en markhornið. Sé ljósleiðarinn til dæmis sveigður of mikið getur ljósið hins vegar sloppið út. Þegar um miðja 19. öld hafði verið sýnt fram á að ljós gæti á þennan hátt ferðast inni í mjórri vatnsbunu eða í bognum glerstaut. Meira en hundrað ár liðu þó þar til ljósleiðarar urðu nægilega góðir til að leiða ljós langar vegalengdir.


Nútíma ljósleiðari (mynd 4) samanstendur af kjarna og klæðningu, oftast úr gleri. Alspeglunin á sér stað á skilum þessara tveggja efna og klæðningin hefur því örlítið lægri brotstuðul en kjarninn. Með þessum hætti má verja speglunaryfirborðið fyrir umhverfinu. Þessi tvískipti glerþráður, sem er eilítið breiðari en mannshár, er síðan styrktur og varinn með plastklæðningu. Til að senda ljós langar vegalengdir þarf glerið í ljósleiðaranum einnig að vera mjög hreint. Óhreinindi í glerinu geta gleypt í sig eða tvístrað ljósinu sem ferðast eftir ljósleiðaranum. Ísog og tvístrun eru háð bylgjulengd ljóssins og í flestum tilfellum er það innrautt ljós með bylgjulengd á bilinu 1300-1600 nm sem ferðast lengst og er það því oftast notað til að senda upplýsingar gegnum ljósleiðara. Ljósleiðarar eru oft lagðir margir saman í sæstreng til að flytja mikið magn af gögnum milli landa og heimsálfa. Um 90% af talsíma-, farsíma- og Internetumferð milli landa fer í dag um ljósleiðara – aðeins 10% eru enn flutt með hjálp gervihnatta, mest í vanþróaðri löndum og til einangraðra staða. Afkastamestu sæstrengir flytja 1000-3000 Gb/s. CANTAT-3 sæstrengurinn til Íslands, sem tengdur var árið 1994, hefur 2.5 Gb/s flutningsgetu til Evrópu og annað eins til Bandaríkjanna. Á fyrri hluta árs 2002 notuðu Íslendingar aðeins um 15% af þessari flutningsgetu á háannatíma. Fyrirhugað er að tengja nýjan sæstreng (FARICE) milli Íslands, Færeyja og Skotlands í lok árs 2003, fáist nægileg fjármögnun til verkefnisins. Flutningsgeta strengsins verður um 1200 Gb/s en áætlaður kostnaður (í júní 2001) við að leggja hann er um 6-7 milljarðar króna.
