
Reikistjarnan Venus er nær sólu en jörðin og styrkur varmageislunar sólarinnar er rúmlega 2600 W/m2 efst í lofthjúpi Venusar. En ólíkt jörðinni er Venus skýjum hulin og skýin endurvarpa um 80% sólgeislunarinnar. Einungis tæplega 530 W/m2 (um 9 ljósaperur) verða eftir til að hita Venus sem er ríflega helmingur þess sem fer í að hita upp jörðina. Ef varminn frá sólinni réði yfirborðshita ætti jörðin að vera heitari en Venus. Staðreyndin er samt sú að yfirborðshiti á jörðinni er um 15°C en rúmlega 400°C á Venusi! Það getur því ekki verið rétt að varmageislunin ein sér ráði yfirborðshitanum. Munurinn á jörðinni og Venusi liggur í því að á Venusi eru að verki firna öflug gróðurhúsaáhrif. Þau hækka yfirborðshitann þar um tæplega 450°C. Sams konar áhrif eru miklu veikari í lofthjúpi jarðar, þar bæta gróðurhúsaáhrif einungis 33°C við meðalhitann. Mikilvægi þessa er samt óumdeilt. Án gróðurhúsaáhrifanna væri -18°C hiti á yfirborði jarðar og ólíklegt að líf hefði kviknað hér. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju? eftir Halldór Björnsson
- Hvað veldur gróðurhúsaáhrifum? eftir Jón Má Halldórsson
- Hve mikið er af koltvísýringi kringum jörðina? eftir Tómas Jóhannesson
- Hver yrðu áhrif sólarljóssins á jörðina ef ekki væri raki í andrúmsloftinu sem dreifir og endurkastar því? eftir Harald Ólafsson
- Af hverju bráðna jöklarnir ekki hraðar? eftir ÞV
- CSA.com. Sótt 10.2.2010.
Þetta svar birtist áður á vef Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðufúslegu leyfi. Upphaflega hljómaði spurningin svona:
Hvað er það sem ræður hitastiginu á plánetunum í sólkerfinu?