Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Arthur Schopenhauer fæddist 22. febrúar árið 1788 í borginni Danzig sem nú heitir Gdańsk í Póllandi. Faðir hans var nokkuð stöndugur verslunarmaður sem leist ekkert á blikuna þegar borgin féll undir prússnesk yfirráð árið 1793. Flutti hann því með fjölskyldu sína til Hamborgar en þar var einna mest frjálsræði í þýskum borgum á þessum tíma. Faðirinn féll frá þegar Arthur var enn unglingur að aldri og tók móðir hans, sem var mikil bókmenntakona, því við stjórn heimilisins. Hún var ákaflega vel tengd og hafði Schopenhauer því aðgang að mönnum eins og Johann Wolfgang von Goethe (1749–1832) og fleiri stjórstjörnum í menningarlífi þess tíma. Nýtti hann sér það óspart. Frjálslyndi og lífsgleði móður hans virðist þó hafa farið illa í hann sem ungan mann og því var samband hans við móður sína ákaflega flókið og hafði áhrif á hugmyndir hans um konur alla ævi.
Schopenhauer sem ungur maður.
Schopenhauer nam læknisfræði við háskólann í Göttingen en varð fyrir svo miklum áhrifum af lestri heimspekilegra verka að hann færði sig yfir til Berlínar til þess að hlusta á fyrirlestra Johanns Gottlieb Fichte (1762–1814) og Friedrichs Schleiermacher (1768–1834). Doktorsritgerð hans, Um hinn fjórfalda grundvöll lögmáls hinnar fullnægjandi ástæðu (Über die vierfache Wurzel des Satzes vom zureichenden Grunde) var gefin út árið 1813. Þremur árum síðar gaf hann út stutt verk um litaskynjun (Über das Sehn und die Farben). Þegar Schopenhauer var um þrítugt kom svo út hans helsta verk Heimurinn sem vilji og hugmynd (Die Welt als Wille und Vorstellung). Í þessu verki birtast allar mikilvægustu hugmyndir hans sem hann átti eftir að standa við það sem eftir var ævinnar.
Verkið vakti takmarkaða athygli fyrst í stað en dugði þó til að tryggja honum stöðu við Berlínarháskóla. Hann reyndi þar að gera sem mest úr muninum á sinni heimspeki og heimspeki Georgs Wilhelm Friedrich Hegel (1770–1831) sem þá var talinn mestur þýskra heimspekinga. Dugðu sú opinbera afstaða til að tryggja almennar óvinsældir fyrirlestra Schopenhauers. Árið 1844 gaf hann Heiminn út í nýrri útgáfu sem hann hafði lengt umtalsvert og vakti bókin nú meiri athygli en fyrr þótt hún hafi gert lítið til að tryggja stöðu hans í þýsku heimspekisamfélagi. Það var því ekki fyrr en hann gaf út safn ritgerða og margs konar spakmæla, Parerga und Paralipomena, árið 1851 sem heimspeki hans varð kunn og fyrri verk hans voru dregin fram að nýju. Þegar hann lést árið 1860 má segja að hann hafi verið orðinn einn kunnasti heimspekingur sinnar kynslóðar.
Heimspeki Schopenhauers byggir á einni grundvallarhugmynd. Hún er sú að maðurinn þekki innsta eðli veruleikans í gegnum þrár sínar og vilja til lífs. Í raun og veru er þetta eðli slíkur lífsvilji (þ. Wille zum Leben) sem stjórnar öllu í heiminum. Og hann taldi að þessi vilji væri stefnulaus í þeim skilningi að viljinn leitaðist ekki við að bæta heiminn eða láta hann þróast í eina átt öðrum fremur. Við erum öll stefnulaust rekald í þeim skilningi. Sjálfið stendur á mörkum þess að vera sjálfstæður hlutur og hluti af eðli heimsins. Hlutverk þess er að gera okkur kleift að flokka saman margs konar reynslu og gefa okkur um leið einu innsýnina inn í heiminn eins og hann er í raun og veru. Við blekkjum okkur sjálf til að greina heiminn í einstök sjálf. Hver einstaklingur er viðfang viljans en ekki uppspretta hans.
Það eina sem maður getur gert í þessu ástandi er að leitast við að verða ekki of sjálfhverfur. Slíkt ástand er hægt að forðast með því að gleyma sér um stund, til dæmis með því að njóta lista og heimspeki. Heimspekileg ástundun getur hjálpað okkur til að skilja veruleikann, tónlist kennir að hlusta eftir erfiðleikum og þjáningu og gera sér grein fyrir að maður er ekki eyland. Með því að vera ómeðvituð um stund um langanir okkar getum við jafnvel hugsað um aðra. En Schopenhauer var ekki bjartsýnn á að við gætum komist í það ástand að lífshvötin væri ekki yfirþyrmandi drifkraftur. Reyndar er hann þekktur fyrir að telja bjartsýni vera nokkurs konar háð í ljósi allra þeirra þjáninga sem heimurinn er fullur af. Schopenhauer var sjálfur gallagripur og hafa margir lýst honum sem sjálfhverfum nautnasegg. Hann bjó við margs konar kvíðaraskanir og gat haft furðulegar hugmyndir um veruleikann. Skoðanir hans á kvenfólki eru til dæmis alræmdar og oft hafðar til marks um skoðanir karlkyns heimspekinga á hinu kyninu.
Schopenhauer árið 1845.
Schopenhauer lét sér fátt um finnast þegar hann var gagnrýndur fyrir skoðanir sínar og hegðun. Hann taldi lífshlaup sitt falla vel að því hvernig heimurinn er í raun og veru. Heimurinn er blindur, siðlaus og lætur auðvitað ekki að neinni stjórn. Skynsemi mannsins er algjörlega varnarlaus gagnvart veruleikanum. Viljinn til lífs er í raun eina náttúrulögmálið sem skiptir máli. Kynhvötin drífur okkur áfram fremur en nokkuð annað. Bölhyggjan sem fylgir heimspeki Schopenhauers er svo stæk að maður spyr sig hvers vegna við ættum að hafa fyrir því að taka virkan þátt í lífinu. Samkvæmt honum er það alltaf dæmi um sjálfsblekkingu þegar við teljum okkur hafa bætt heiminn. Í raun og veru höfum við einfaldlega skapað nýjan farveg fyrir sama lífsviljann sem engu eirir. Þjáningin er því ekki einhvers konar slæmur fylgifiskur tilverunnar. Hún er tilveran.
Það er algengur misskilningur að Schopenhauer sé óskiljanlegur heimspekingur sem hafi reynt að fela heimspeki sína á bak við orðskrúð og öfugmæli. Hið rétta er að heimspeki hans er mun læsilegri en heimspeki margra samtímamanna hans. Og áhrifin eftir hans dag voru í samræmi við það. Heimspekingar, fræðimenn, listamenn og rithöfundar eins og Friedrich Wilhelm Nietzsche (1844–1900), Sigmund Freud (1856–1939), Richard Wagner (1813–1883) og Thomas Mann (1875–1955) sóttu til að mynda allir innblástur í hugmyndir Schopenhauers. Tvennt í hugmyndum hans hafði mest áhrif eftir hans dag. Í fyrsta lagi var heimsmynd hans í samkeppni við heimsmynd lífvana efnisagna sem flestir fræðimenn héldu fram á nítjándu öld. Mörgum fannst hugmynd hans um viljann sem virkt afl í allri tilveru okkar einfaldlega meira aðlaðandi. Í öðru lagi spurðu margir sig eftir lestur verka hans hversu uppbyggileg sú aldagamla hugmynd sé að maðurinn sé góð vera í eðli sínu. Bölhyggja Schopenhauers var í raun vörn gegn því að lífið komi aftan að manni og hafa margir talið það vera skynsamlega afstöðu.
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Hvað getið þið sagt mér um Arthur Schopenhauer og hver eru hans helstu verk?“ Vísindavefurinn, 10. desember 2012, sótt 7. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27829.
Henry Alexander Henrysson. (2012, 10. desember). Hvað getið þið sagt mér um Arthur Schopenhauer og hver eru hans helstu verk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27829
Henry Alexander Henrysson. „Hvað getið þið sagt mér um Arthur Schopenhauer og hver eru hans helstu verk?“ Vísindavefurinn. 10. des. 2012. Vefsíða. 7. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27829>.