Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi?

Þröstur Eysteinsson

Fjórar grenitegundir hafa verið gróðursettar í umtalsverðu magni á Íslandi: Sitkagreni (Picea sitchensis), rauðgreni (Picea abies), blágreni (Picea engelmannii) og hvítgreni (Picea glauca). Auk þeirra hefur allmikið verið gróðursett af blendingi sitkagrenis og hvítgrenis, svokölluðum sitkabastarði (Picea x lutzii). Allar þessar tegundir hafa þroskað fræ hér á landi en í mismiklu magni. Sitkagreni þroskar oftast fræ, í miklu magni um það bil einu sinni á áratug. Rauðgreni og sitkabastarður þroska sjaldnar fræ og fremur sjaldgæft er að blágreni og hvítgreni blómstri og þroski fræ.

Tíðni sjálfsáningar fylgir tíðni fræmyndunar. Sjálfsáð sitkagreni hefur fundist á nokkrum stöðum á landinu en rauðgreni og sitkabastarður finnast óvíða sjálfsáð og ekki er vitað til þess að sjálfsáð blágreni eða hvítgreni hafi fundist hérlendis enn sem komið er. Þrjár ástæður eru einkum fyrir því að ekki er meira um sjálfsáningu grenis á Íslandi en raun ber vitni: Aldur trjánna, svöl sumur og takmörkuð dreifigeta fræja.



Langalgengast er að grenitré á Íslandi hafi verið gróðursett.

Aldur trjánna

Flestar grenitegundir eru langlífar og hafa langt æskuskeið áður en trén byrja að blómstra og bera fræ. Oft hefst blómgun og fræmyndun ekki fyrr en trén eru 30-40 ára gömul og hámarks fræmyndun næst ekki fyrr en trén ná 80-100 ára aldri. Þótt til séu örfá rauðgreni- og blágrenitré sem orðin eru hundrað ára gömul og nokkur sitkagrenitré komin yfir sjötugt, þá er næstum allt greni hér á landi innan við sextugt og mest talsvert yngra en það. Stór hluti grenis á Íslandi er því tiltölulega nýlega orðinn kynþroska og því eðlilegt að það hafi ekki sáð sér mikið fram að þessu. Sjálfsáning á væntanlega eftir að aukast á komandi áratugum, sérstaklega hjá sitkagreni.

Svöl sumur

Blómmyndun hjá barrtrjám er háð hita sumarsins á undan blómgun. Hversu mikinn hita þarf til að örva blómgun fer eftir aðlögun viðkomandi tegundar að veðurfari í heimkynnum sínum. Sitkagreni er aðlagað sumarsvölu, hafrænu loftslagi eins og á Íslandi og þarf því ekki mjög háan sumarhita til að blómgun þess örvist. Rauðgreni, hvítgreni og blágreni eru hins vegar meginlandstegundir sem þurfa hærri sumarhita til að örva blómgun. Í flestum árum er of svalt á Íslandi á sumrin til að örva teljandi blómgun á þeim tegundum. Þá skiptir sumarhiti einnig máli varðandi fræþroska. Ef blómgunarsumarið er stutt og/eða svalt verður fræið illa þroskað, spírunarþróttur verður lítill og ólíklegt að ungplönturnar lifi.

Dreifigeta fræja

Fræ grenitegunda eru vængjuð en tiltölulega þung miðað við stærð vængsins. Þau berast því ekki langar leiðir með vindi og flest falla til jarðar skammt frá móðurtrénu. Sjálfsáning er háð því að heppileg fræset séu til staðar nálægt móðurtrjánum. Fræin þurfa að komast í snertingu við mold eða annað álíka rakt undirlag til að spíra. Of mikið gras eða mosi kemur í veg fyrir að fræin nái að komast að moldinni og þau spíra þá ekki. Mest er sjálfsáning í vegaköntum, beðum eða öðrum stöðum þar sem fræin komast í snertingu við mold.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:Mynd

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi og ef ekki, af hverju ekki?

Höfundur

Þröstur Eysteinsson

skógræktarstjóri

Útgáfudagur

1.10.2010

Spyrjandi

Gylfi Aðalsteinsson, Gunnar Þór Grétarsson, f. 1994

Tilvísun

Þröstur Eysteinsson. „Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 1. október 2010, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=28071.

Þröstur Eysteinsson. (2010, 1. október). Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=28071

Þröstur Eysteinsson. „Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2010. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=28071>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi?
Fjórar grenitegundir hafa verið gróðursettar í umtalsverðu magni á Íslandi: Sitkagreni (Picea sitchensis), rauðgreni (Picea abies), blágreni (Picea engelmannii) og hvítgreni (Picea glauca). Auk þeirra hefur allmikið verið gróðursett af blendingi sitkagrenis og hvítgrenis, svokölluðum sitkabastarði (Picea x lutzii). Allar þessar tegundir hafa þroskað fræ hér á landi en í mismiklu magni. Sitkagreni þroskar oftast fræ, í miklu magni um það bil einu sinni á áratug. Rauðgreni og sitkabastarður þroska sjaldnar fræ og fremur sjaldgæft er að blágreni og hvítgreni blómstri og þroski fræ.

Tíðni sjálfsáningar fylgir tíðni fræmyndunar. Sjálfsáð sitkagreni hefur fundist á nokkrum stöðum á landinu en rauðgreni og sitkabastarður finnast óvíða sjálfsáð og ekki er vitað til þess að sjálfsáð blágreni eða hvítgreni hafi fundist hérlendis enn sem komið er. Þrjár ástæður eru einkum fyrir því að ekki er meira um sjálfsáningu grenis á Íslandi en raun ber vitni: Aldur trjánna, svöl sumur og takmörkuð dreifigeta fræja.



Langalgengast er að grenitré á Íslandi hafi verið gróðursett.

Aldur trjánna

Flestar grenitegundir eru langlífar og hafa langt æskuskeið áður en trén byrja að blómstra og bera fræ. Oft hefst blómgun og fræmyndun ekki fyrr en trén eru 30-40 ára gömul og hámarks fræmyndun næst ekki fyrr en trén ná 80-100 ára aldri. Þótt til séu örfá rauðgreni- og blágrenitré sem orðin eru hundrað ára gömul og nokkur sitkagrenitré komin yfir sjötugt, þá er næstum allt greni hér á landi innan við sextugt og mest talsvert yngra en það. Stór hluti grenis á Íslandi er því tiltölulega nýlega orðinn kynþroska og því eðlilegt að það hafi ekki sáð sér mikið fram að þessu. Sjálfsáning á væntanlega eftir að aukast á komandi áratugum, sérstaklega hjá sitkagreni.

Svöl sumur

Blómmyndun hjá barrtrjám er háð hita sumarsins á undan blómgun. Hversu mikinn hita þarf til að örva blómgun fer eftir aðlögun viðkomandi tegundar að veðurfari í heimkynnum sínum. Sitkagreni er aðlagað sumarsvölu, hafrænu loftslagi eins og á Íslandi og þarf því ekki mjög háan sumarhita til að blómgun þess örvist. Rauðgreni, hvítgreni og blágreni eru hins vegar meginlandstegundir sem þurfa hærri sumarhita til að örva blómgun. Í flestum árum er of svalt á Íslandi á sumrin til að örva teljandi blómgun á þeim tegundum. Þá skiptir sumarhiti einnig máli varðandi fræþroska. Ef blómgunarsumarið er stutt og/eða svalt verður fræið illa þroskað, spírunarþróttur verður lítill og ólíklegt að ungplönturnar lifi.

Dreifigeta fræja

Fræ grenitegunda eru vængjuð en tiltölulega þung miðað við stærð vængsins. Þau berast því ekki langar leiðir með vindi og flest falla til jarðar skammt frá móðurtrénu. Sjálfsáning er háð því að heppileg fræset séu til staðar nálægt móðurtrjánum. Fræin þurfa að komast í snertingu við mold eða annað álíka rakt undirlag til að spíra. Of mikið gras eða mosi kemur í veg fyrir að fræin nái að komast að moldinni og þau spíra þá ekki. Mest er sjálfsáning í vegaköntum, beðum eða öðrum stöðum þar sem fræin komast í snertingu við mold.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:Mynd

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Fjölga grenitré sér með sjálfsáningu á Íslandi og ef ekki, af hverju ekki?
...