Í bók um risaeðlur DK Guide to Dinosaurs: A thrilling journey through prehistoric times eftir David Lambert er því haldið fram að fuglar hafi þróast frá eðlungum (Saurischia) en ekki frá fleglum (Ornithischia) eins og mér var kennt í framhaldskóla. Er það rétt? Ef svo er hver er þá skýringin (þar sem fleglar hafa nú sömu byggingu á mjaðmagrind og fuglar)?Löngum hefur verið talið að fuglar væru þróaðir frá svonefndum boleðlum (Thecodontia), en þær voru uppi á Perm- og Tríastímabilum og dóu út fyrir um það bil 208 milljónum ára. Einnig var þá talið að báðir ættbálkar risaeðla, eðlungar (Saurischia) og fleglar (Ornithischia), ættu uppruna sinn að rekja til boleðla. Því var álitið að fuglar og risaeðlur ættu sameiginlegan uppruna hjá boleðlum (lesa má um boleðlur í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig varð fyrsta risaeðlan til?). Hins vegar hafa sífellt fundist fleiri leifar þessara dýra og nú er svo komið að flestir fræðimenn telja að fuglar séu frekar þróaðir frá risaeðlum og þá helst þrítáungum (Theropoda), en það er elsti hópur eðlunga. Sá hópur þrítáunga sem flestir fræðimenn líta til í dag þegar reynt er að rekja uppruna fugla hefur verið nefndur stinnhalar (Tetanurae). Fagurkjálki (Compsognathus) eða þvengeðla, eins og hún er oftast nefnd á íslensku, er einnig talinn þróaður frá þessum hópi þrítáunga (sjá svar Jóns Más Halldórssonar um þvengeðlu). Þvengeðla er af svipuðum aldri og öglir (Archaeopteryx), sem er einna best þekktur frumfugla. Það sem öglir hefur fram yfir þessar eðlur er fyrst og fremst fiðrið, en för eftir fjaðrir bæði á búk og rófu hafa fundist með öðrum leifum öglisins. Í hauskúpugerð, tönnum og beinagrind eru dýrin öll mjög lík. Öglir hefur vart getað flogið, heldur aðeins svifið, enda var enginn kjölur (carina) á brjóstbeininu. Slíkur kjölur er áberandi hjá fleygum nútímafuglum og er hald fyrir sterka vöðva út í vængina. Bein öglisins voru ekki nærri því eins hol að innan eins og bein fleygra nútímafugla þannig að dýrið hefur verið þyngra fyrir vikið, en talið var að hann hafi verið um 25 cm á hæð þegar hann stóð uppréttur. Í lendarbyggingu er öglir eins konar millistig milli skriðdýra annars vegar og flegla og fugla hins vegar. Hjá öllum skriðdýrum, nema fleglum, snýr lífbeinið (pubis) fram, en þjóbeinið (ischium) aftur eins og hjá eðlungum. Hjá fleglum og núlifandi fuglum liggja þessi bein saman og snúa aftur í dýrið, en efsti hluti lífbeinsins er oft langur og snýr fram (praepubis), sjá skýringarmynd. Hjá ögli snýr lífbeinið að vísu aftur, en það lá ekki upp við þjóbeinið. Flestir fræðimenn líta á þessa lendargerð sem „skriðdýrslend“ (saurischian), sem er að vísu að breytast í „fuglslend“ (ornithischian), en sú breyting er ekki að fullu um garð gengin. Því telja flestir fræðimenn nú á dögum að hjá fuglum og fleglum hafi átt sér stað samhliða (parallel) þróun í lendaruppbyggingu frekar en að fuglar séu þróaðir frá fleglum, en hjá þeim má sjá fleiri fuglseinkenni eins og til dæmis goggmyndun í kjálkum og rýrnun og fækkun tanna.
Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum?
Útgáfudagur
4.11.2002
Spyrjandi
Friðrik Örn Bjarnason
Tilvísun
Leifur A. Símonarson. „Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum?“ Vísindavefurinn, 4. nóvember 2002, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2831.
Leifur A. Símonarson. (2002, 4. nóvember). Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2831
Leifur A. Símonarson. „Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum?“ Vísindavefurinn. 4. nóv. 2002. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2831>.