Hvað er það sem gerist þegar fellur á góðmálma, og hvað er það sem gerist þegar við fægjum þá?Ástæðan fyrir því að það fellur á málmhluti er að þeir hvarfast við efni í andrúmsloftinu — og í sumum tilfellum við efni í heita vatninu eða jafnvel mat. Við þetta myndast efnasamband á yfirborði málmsins. Ef þetta gerist í töluverðum mæli breytir yfirborð málmsins um lit, verður yfirleitt dekkra, þótt ljós yfirborð þekkist einnig fyrir vissa málma. Oft ver þetta nýja yfirborð málminn sem undir er, eins og spanskgræna á kopar, áloxíð á áli og silfursúlfíð á silfri. Stundum eyðileggst þó yfirborð málmsins og málmurinn sem undir er heldur áfram að hvarfast, eins og í tilviki járns þegar ryð myndast. Í sumum tilfellum er súrefni sökudólgurinn en önnur efni í andrúmsloftinu, til dæmis vatn, koltvíoxíð eða brennisteinsvetni, geta einnig verið ástæðan og fer það eftir gerð málmsins hvaða hvörf eiga sér stað. Þegar talað er um að fægja málma er vanalega átt við að fægiefni eða fægikrem er borið á málminn og hann svo nuddaður með tusku, mjúkum svampi eða bómull þar til yfirborðið verður glansandi. Fægiefnin eiga það sameiginlegt að innihalda lítil korn sem sverfa yfirborð málmsins þegar efnunum er nuddað við það. Dökk eða lituð húð málmsins er þannig fjarlægð smám saman. Einnig innihalda mörg fægikrem efni sem virka sértækt á húð mismunandi málma og hjálpa til við að eyða lituðu húðinni. Varast skal að nudda yfirborð málma með efnum sem geta rispað þá og til dæmis tannkremi eða matarsóda því þau innihalda of stór korn fyrir þetta verk.

Ástæðan fyrir því að það fellur á málmhluti er að þeir hvarfast við efni í andrúmsloftinu og efnasamband myndast á yfirborði málmsins.
- Hreinsun á gulli og silfri. Leiðbeiningastöð heimilanna. https://leidbeiningastod.is/leidbeiningar-og-rad/item/hreinsun-a-gulli-og-silfri
- Silver Polish Abrasion Ratings. Jeffrey Herman - Silver Restoration & Conservation. https://hermansilver.com/silver-polish-abrasion-ratings.htm
- The Care of Silver. Jeffrey Herman - Silver Restoration & Conservation. https://hermansilver.com/care.htm
- Góð ráð til fægja silfrið fyrir jólin. Hringbraut. https://www.hringbraut.is/frettir-pistlar/god-rad-til-faegja-silfrid-fyrir-jolin/
- Yfirlitsmynd: Pixnio. https://pixnio.com/media/fork-silver-silverware-spoon-cutlery
- Silar. (2022, 13. febrúar). 02022 1065 Saxon Era in Poland, 18th-century silver tableware from the collections of Wawel Royal Castle.jpg. Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:02022_1065_Saxon_Era_in_Poland,_18th-century_silver_tableware_from_the_collections_of_Wawel_Royal_Castle.jpg