Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hvað er gull og hvers vegna fellur ekkert á það?

Emelía Eiríksdóttir

Gull er málmur og frumefni númer 79 í lotukerfinu. Það hefur efnatáknið Au sem er skammstöfun á latneska heiti þess aurum. Litur gulls er gul-appelsínugulur og er einkennandi fyrir málminn enda flestir aðrir málmar gráir eða silfurlitir/hvítir.

Hreint gull er mjúkt og því auðmótanlegt/hamranlegt (e. malleable) en einnig þanþolið (e. ductile) sem gerir það að verkum að auðvelt er að fletja það út í þynnur og draga út í víra. Gull hefur verið vinsæll málmur í skartgripi í hundruðir ára, meðal annars vegna sérstæðs litar og hve lengi það helst gljáandi. Hreint gull hentar hins vegar ekki vel í skartgripi vegna mýktar og því eru gullskartgripir yfirleitt gullmálmblendi af einhverju tagi. Hver íblöndunefnin eru fer eftir þeim eiginleikum sem sóst er eftir eins og slitþoli, hörku og útliti. Algengt er að nota kopar til að fá rauðagull og palladium eða nikkel til að fá hvítagull. Einnig þekkjast græn, blá og fjólublá gullmálmblendi sem fást með því að blanda silfri, járni, áli og fleiri málmum við gullið.

Gull hefur verið vinsæll málmur í skartgripi í hundruðir ára. Hreint gull hentar hins vegar ekki vel í skartgripi vegna mýktar og því eru gullskartgripir yfirleitt gullmálmblendi af einhverju tagi.

Gull er afar óhvarfgjarn málmur. Það fellur ekki á hreint gull því það hvarfast ekki við neitt í andrúmsloftinu og dökknar því ekki með tíð og tíma eins og flestir aðrir málmar. Hins vegar getur fallið á gullskartgripi því hinir málmarnir í málmblendinu geta hvarfast við súrefni, brennisteinsefni eða raka í andrúmsloftinu. Hversu hratt og mikið fellur á gullmálmblendið fer eftir hlutfalli gulls í blöndunni og gerð hinna málmanna sem í henni eru. Því minna sem er af gulli í málmblendinu því meira er af öðrum málmum sem geta hvarfast við efni í andrúmsloftinu og myndað litaða húð á gullmálmblendinu.

Þegar frumefni hvarfast við súrefni tölum við um að frumefnið oxist. Frumefnið missir rafeind í efnahvarfinu en það er háð gerð frumefnisins hversu hratt oxunin gengur fyrir sig. Frumefni hafa nefnilega mismunandi rafdrægni en það er mælikvarði á tilhneigingu frumeindar á að draga til sín rafeindir úr efnatengi. Því lægri sem rafdrægni frumefnisins er því auðveldar á það með að taka þátt í oxunarhvörfum með súrefni (eða öðrum oxunarmiðlum). Súrefni hefur næst hæstu rafdrægni allra frumefna og tekur því við rafeindum frá öðrum frumefnum en gefur sjálft almennt ekki frá sér rafeindir í efnahvörfum. Gull hefur hæstu rafdrægni allra málma og er rafdrægni þess það há að það gefur ekki súrefni rafeind sína til að mynda efnatengi við það. Hreint gull hvarfast því ekki við súrefni og þar sem ekkert annað efni í andrúmsloftinu er heldur fært um að hvarfast við hreint gull þá fellur ekki á það.

Gull er oft notað í rafeindabúnað vegna þess hversu óhvarfgjarnt það er og hversu vel það leiðir rafmagn.

Heimildir og mynd:


Aðrar spurningar um gull sem hér er svarað:
  • Úr hverju er gull?
  • Hvaða málmblöndur eru í misjöfnum litum gulls?

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

14.10.2022

Spyrjandi

Dóra Elísa Einarsdóttir, Halldór Björn Kristinsson, Guðrún Halldórsdóttir, Birna Sig.

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað er gull og hvers vegna fellur ekkert á það?“ Vísindavefurinn, 14. október 2022. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71480.

Emelía Eiríksdóttir. (2022, 14. október). Hvað er gull og hvers vegna fellur ekkert á það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71480

Emelía Eiríksdóttir. „Hvað er gull og hvers vegna fellur ekkert á það?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2022. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71480>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er gull og hvers vegna fellur ekkert á það?
Gull er málmur og frumefni númer 79 í lotukerfinu. Það hefur efnatáknið Au sem er skammstöfun á latneska heiti þess aurum. Litur gulls er gul-appelsínugulur og er einkennandi fyrir málminn enda flestir aðrir málmar gráir eða silfurlitir/hvítir.

Hreint gull er mjúkt og því auðmótanlegt/hamranlegt (e. malleable) en einnig þanþolið (e. ductile) sem gerir það að verkum að auðvelt er að fletja það út í þynnur og draga út í víra. Gull hefur verið vinsæll málmur í skartgripi í hundruðir ára, meðal annars vegna sérstæðs litar og hve lengi það helst gljáandi. Hreint gull hentar hins vegar ekki vel í skartgripi vegna mýktar og því eru gullskartgripir yfirleitt gullmálmblendi af einhverju tagi. Hver íblöndunefnin eru fer eftir þeim eiginleikum sem sóst er eftir eins og slitþoli, hörku og útliti. Algengt er að nota kopar til að fá rauðagull og palladium eða nikkel til að fá hvítagull. Einnig þekkjast græn, blá og fjólublá gullmálmblendi sem fást með því að blanda silfri, járni, áli og fleiri málmum við gullið.

Gull hefur verið vinsæll málmur í skartgripi í hundruðir ára. Hreint gull hentar hins vegar ekki vel í skartgripi vegna mýktar og því eru gullskartgripir yfirleitt gullmálmblendi af einhverju tagi.

Gull er afar óhvarfgjarn málmur. Það fellur ekki á hreint gull því það hvarfast ekki við neitt í andrúmsloftinu og dökknar því ekki með tíð og tíma eins og flestir aðrir málmar. Hins vegar getur fallið á gullskartgripi því hinir málmarnir í málmblendinu geta hvarfast við súrefni, brennisteinsefni eða raka í andrúmsloftinu. Hversu hratt og mikið fellur á gullmálmblendið fer eftir hlutfalli gulls í blöndunni og gerð hinna málmanna sem í henni eru. Því minna sem er af gulli í málmblendinu því meira er af öðrum málmum sem geta hvarfast við efni í andrúmsloftinu og myndað litaða húð á gullmálmblendinu.

Þegar frumefni hvarfast við súrefni tölum við um að frumefnið oxist. Frumefnið missir rafeind í efnahvarfinu en það er háð gerð frumefnisins hversu hratt oxunin gengur fyrir sig. Frumefni hafa nefnilega mismunandi rafdrægni en það er mælikvarði á tilhneigingu frumeindar á að draga til sín rafeindir úr efnatengi. Því lægri sem rafdrægni frumefnisins er því auðveldar á það með að taka þátt í oxunarhvörfum með súrefni (eða öðrum oxunarmiðlum). Súrefni hefur næst hæstu rafdrægni allra frumefna og tekur því við rafeindum frá öðrum frumefnum en gefur sjálft almennt ekki frá sér rafeindir í efnahvörfum. Gull hefur hæstu rafdrægni allra málma og er rafdrægni þess það há að það gefur ekki súrefni rafeind sína til að mynda efnatengi við það. Hreint gull hvarfast því ekki við súrefni og þar sem ekkert annað efni í andrúmsloftinu er heldur fært um að hvarfast við hreint gull þá fellur ekki á það.

Gull er oft notað í rafeindabúnað vegna þess hversu óhvarfgjarnt það er og hversu vel það leiðir rafmagn.

Heimildir og mynd:


Aðrar spurningar um gull sem hér er svarað:
  • Úr hverju er gull?
  • Hvaða málmblöndur eru í misjöfnum litum gulls?
...