
Málmarnir gull (Au), silfur (Ag) og kopar (Cu) finnast einkum í fellingamyndunum, til dæmis Andes- og Klettafjöllum á vesturjaðri Ameríku, í Úralfjöllum, á Cornwall í Englandi og Harz-fjöllum í Þýskalandi (Harz-fellingin) og svo framvegis, auk fornra og rofinna fellingamyndana, til dæmis í Kanada og Ástralíu. Oftast tengjast þessar myndanir graníthleifum í jörðinni þannig að meðan hleifarnir voru að kólna og kristallast safnaðist vatn og ýmis efni, meðal annars þessir málmar, í síðustu bráðina og mynduðu loks æðar í granítinu og í grannberginu í kring. Að auki olli hið kólnandi granít hringstreymi grunnvatns um bergið sem leysti út málma úr berginu meðan vatnið var að hitna og felldi þá út annars staðar þegar það kólnaði. Ýmislegt er núorðið vitað um þau ferli sem að verki eru við samsöfnun þessara tiltölulega sjaldgæfu efna í nemanlegt form, en um gullið var lengstum sagt að það “finnist þar sem það finnst,” nefnilega að ekkert nema heppni gæti leiðbeint gullleitarmönnum. Gull finnst eingöngu sem málmur, en hin efnin tvö, silfur og kopar, einkum í ýmsum samböndum, oftast sem súlfíð. Algengasta koparsteindin er eirkís (FeCuS2) en silfur myndar til dæmis argentít (Ag2S). Hlunkar af koparmálmi hafa fundist í basalti, til dæmis í Færeyjum og Kanada, og er talið að jarðhitalausnir hafi safnað málminum saman. Sömuleiðis finnst silfurmálmur stundum í jarðhitaæðum í bergi.

Hér á landi hafa verið gerð nokkur tilhlaup til gullleitar – frægast er Vatnsmýrar-gullæðið árin 1905-1910 sem sennilega byggðist á svikum eða misskilningi. Og ekki sést enn fyrir endann á tilraunum til gullvinnslu í Miðdal í Mosfellssveit og síðar einnig á næstu jörð, Þormóðsdal, en það svæði hefur jafnan virst vera vænlegasti gullstaður á landinu. Þær tilraunir hófust 1907 að undirlagi bóndans í Miðdal, Einars H. Guðmundssonar, og að þeim komu meðal annarra merktarmenn eins og Einar Benediktsson skáld, Tryggvi Gunnarsson bankastjóri og Sveinn Björnsson, síðar forseti. Kvarsæðin við Miðdal er sennilega alltof lítil að rúmmáli til að gullvinnsla borgi sig, og sama á við um koparvinnslu í Svínhólanámu í Lóni þar sem nokkuð er af eirkís í æðum ásamt öðrum málmsteindum, og talið hafa myndast úr kvikuvessum. Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Eru vinnanlegir málmar eða önnur verðmæti í leðjunni í vatni Jöklu? Myndir: