Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:45 • sest 23:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:29 • Sest 23:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 14:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma?

Trausti Jónsson

Í þessum texta er eingöngu fjallað um mælingar á mönnuðum veðurstöðvum. Sjálfvirkum mælingum fjölgar nú ört og er úrvinnsla þeirra hafin. Hærri gildi en nefnd eru hér að neðan hafa ekki fundist enn, en þar sem mælum er nú að fjölga í fjalllendi má búast við því að met af ýmsu tagi fari að bætast við. Sérstaklega verða upplýsingar um úrkomuákefð betri en verið hefur.

Kvísker 9. til 10. janúar 2002

Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi kom úr mælinum á Kvískerjum í Öræfum að morgni 10. janúar 2002. Úrkomusólarhringur er mældur frá kl 9 að morgni til kl 9 að morgni næsta dag. Þarna mældist úrkoman vera 293,2 mm en það jafngildir því að 293 lítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands þennan sólarhring. Meðan á þessu stóð var eindregin suðvestanátt ríkjandi á svæðinu, en stöðin er undir austurhlíðum Öræfajökuls. Úrkoman féll því á svæði sem að minnsta kosti var að hluta til í skjóli við fjallið. Þetta er ólíkt eldri metum þegar vindur stóð af suðaustri.

Vindmælingar á Fagurhólsmýri við suðurenda Öræfajökuls sýna að meðalvindhraði var um 13 m/s í upphafi úrkomudægursins (eftir kl. 9 þann 9. janúar). Um kl. 15 fór vindur að vaxa og um kl. 19 var hann kominn upp í tæpa 20 m/s. Aðra hluta mælingatímans var vindhraði nærri 16 m/s.Myndin sýnir gróflega úrkomuákefð metsólarhringinn 9. til 10. janúar 2002. Síðdegis fer hún upp fyrir 20 mm/klst, en er lengst af í kringum 13 til 15 mm/klst.

Næsthæstu gildin

Þann 1. október 1979 mældist 242,7 mm úrkoma á Kvískerjum. Litlu minni úrkoma mældist að morgni 28. febrúar 1968, 233,9 mm á Vagnsstöðum í Suðursveit og 228,4 mm á Kvískerjum. Úrfellið 1979 var tiltölulega takmarkað við suðaustanvert landið og má geta þess að morguninn þegar metið féll á Kvískerjum mældust aðeins 14,8 mm í Skaftafelli. Hins vegar mældust 103,9 mm á Fagurhólsmýri sem er óvenjumikið á þeirri stöð (þó ekki það mesta). Á Vagnsstöðum í Suðursveit mældust 116,2 mm.

Úrfellið sem kom 1968 náði hins vegar alveg vestur á land, snjór var á jörðu og asahláka. Óvenjulegir vatnavextir urðu því sunnanlands, Ölfusá flæddi yfir bakka sína og í hús á Selfossi, mikil flóð voru í Borgarfirði og Gvendarbrunnar við Reykjavík menguðust af yfirborðsvatni. Þá mældist sólarhringsúrkoman á Hveravöllum 142,8 mm og er það langmesta úrkoma sem mælst hefur þar. Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í Reykjavík var hins vegagr 5. mars 1931, 56,7 mm.

Eldra met

Aðeins í örfá skipti hefur úrkoma mælst yfir 200 mm á sólarhring hér á landi. Fyrir 1968 var metið 215,8 mm úrkoma. Það var sett í Vík í Mýrdal á annan dag jóla 1926. Úrkomumagn sólarhrings er ætíð miðað við athugun kl. 9 að morgni. Svo vildi hins vegar til í Vík að það byrjaði að rigna kl. hálf tólf (að þáverandi ísl. miðtíma) að kvöldi 25. desember. Um morguninn voru 122,5 mm komnir í mælinn. Áfram rigndi linnulítið og kl. hálf tólf að kvöldi 26. desember, eða sólarhring eftir að úrfellið hófst, mældi veðurathugunarmaðurinn úrkomuna aftur og höfðu þá 93,3 mm bæst við morgunathugun. Þetta met er því ekki alveg sambærilegt við önnur sem ætíð eru fengin með mælingunni frá kl. 9 til 9. Stöðin í Vík hóf mælingar árið 1925. Mikil skriðuföll urðu í þessu úrfelli og lá meðal annars við að manntjón yrði þegar skriða féll á tvo bæi að Steinum undir Eyjafjöllum.

Mesta mánaðarúrkoma

Haustið 2002 voru fádæma rigningar á Austurlandi. Þá mældist mesta mánaðarúrkoma á landinu á Kollaleiru í Reyðarfirði í október, eða 971,5 mm. Í sama mánuði mældist mánaðarúrkoman á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 907,7 mm. Í janúar árið 2002, þegar sólarhringsmetið var sett, mældist úrkoman í Kvískerjum 905,3 mm. Mánaðarúrkoma hefur 11 sinnum mælst meiri en 700 mm á mönnuðum veðurstöðvum, þar af sex sinnum í Kvískerjum. Mesta úrkoma í einum mánuði í Reykjavík er 259,7 mm, það mældist í nóvember árið 1993.

Óvissa úrkomumælinga

Margt er það sem gerir úrkomumælingar óvissar. Hér skulum við láta alla þá óvissu liggja milli hluta að öðru leyti en því að á árunum 1948 til 1964 voru svonefndar vindhlífar settar á íslenska úrkomumæla. Áhrif þeirra eru einkum talin koma fram í því að snjókoma skili sér ívið betur í mæli með hlíf en án hennar. Flest bendir þó til þess að allmikil úrkoma, bæði í föstu formi og fljótandi, sleppi framhjá mælunum. Þessi vindhlífauppsetning gerir það að verkum að mælingar fyrir og eftir hlíf eru ef til vill ekki alveg sambærilegar. Höfum það í huga.

Síritandi og sjálfvirkir mælar

Síritandi úrkomumælar voru þar til nýlega mjög fáir á landinu og upplýsingar um úrkomuákefð eru þess vegna frekar af skornum skammti. Fjölmargir mælar skrá nú uppsafnaða úrkomu á 10 mínútna fresti allt árið um kring, þannig að á næstu árum mun vitneskja okkar um þennan þátt veðurfarsins aukast til muna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:


Þessi grein birtist fyrst á vefsetri Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðfúslegu leyfi í örlítið styttri útgáfu.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

7.5.2008

Spyrjandi

Soffía Gunnarsdóttir

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2008, sótt 16. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29756.

Trausti Jónsson. (2008, 7. maí). Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29756

Trausti Jónsson. „Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2008. Vefsíða. 16. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29756>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar á landinu hefur komið mest úrkoma?
Í þessum texta er eingöngu fjallað um mælingar á mönnuðum veðurstöðvum. Sjálfvirkum mælingum fjölgar nú ört og er úrvinnsla þeirra hafin. Hærri gildi en nefnd eru hér að neðan hafa ekki fundist enn, en þar sem mælum er nú að fjölga í fjalllendi má búast við því að met af ýmsu tagi fari að bætast við. Sérstaklega verða upplýsingar um úrkomuákefð betri en verið hefur.

Kvísker 9. til 10. janúar 2002

Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi kom úr mælinum á Kvískerjum í Öræfum að morgni 10. janúar 2002. Úrkomusólarhringur er mældur frá kl 9 að morgni til kl 9 að morgni næsta dag. Þarna mældist úrkoman vera 293,2 mm en það jafngildir því að 293 lítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands þennan sólarhring. Meðan á þessu stóð var eindregin suðvestanátt ríkjandi á svæðinu, en stöðin er undir austurhlíðum Öræfajökuls. Úrkoman féll því á svæði sem að minnsta kosti var að hluta til í skjóli við fjallið. Þetta er ólíkt eldri metum þegar vindur stóð af suðaustri.

Vindmælingar á Fagurhólsmýri við suðurenda Öræfajökuls sýna að meðalvindhraði var um 13 m/s í upphafi úrkomudægursins (eftir kl. 9 þann 9. janúar). Um kl. 15 fór vindur að vaxa og um kl. 19 var hann kominn upp í tæpa 20 m/s. Aðra hluta mælingatímans var vindhraði nærri 16 m/s.Myndin sýnir gróflega úrkomuákefð metsólarhringinn 9. til 10. janúar 2002. Síðdegis fer hún upp fyrir 20 mm/klst, en er lengst af í kringum 13 til 15 mm/klst.

Næsthæstu gildin

Þann 1. október 1979 mældist 242,7 mm úrkoma á Kvískerjum. Litlu minni úrkoma mældist að morgni 28. febrúar 1968, 233,9 mm á Vagnsstöðum í Suðursveit og 228,4 mm á Kvískerjum. Úrfellið 1979 var tiltölulega takmarkað við suðaustanvert landið og má geta þess að morguninn þegar metið féll á Kvískerjum mældust aðeins 14,8 mm í Skaftafelli. Hins vegar mældust 103,9 mm á Fagurhólsmýri sem er óvenjumikið á þeirri stöð (þó ekki það mesta). Á Vagnsstöðum í Suðursveit mældust 116,2 mm.

Úrfellið sem kom 1968 náði hins vegar alveg vestur á land, snjór var á jörðu og asahláka. Óvenjulegir vatnavextir urðu því sunnanlands, Ölfusá flæddi yfir bakka sína og í hús á Selfossi, mikil flóð voru í Borgarfirði og Gvendarbrunnar við Reykjavík menguðust af yfirborðsvatni. Þá mældist sólarhringsúrkoman á Hveravöllum 142,8 mm og er það langmesta úrkoma sem mælst hefur þar. Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í Reykjavík var hins vegagr 5. mars 1931, 56,7 mm.

Eldra met

Aðeins í örfá skipti hefur úrkoma mælst yfir 200 mm á sólarhring hér á landi. Fyrir 1968 var metið 215,8 mm úrkoma. Það var sett í Vík í Mýrdal á annan dag jóla 1926. Úrkomumagn sólarhrings er ætíð miðað við athugun kl. 9 að morgni. Svo vildi hins vegar til í Vík að það byrjaði að rigna kl. hálf tólf (að þáverandi ísl. miðtíma) að kvöldi 25. desember. Um morguninn voru 122,5 mm komnir í mælinn. Áfram rigndi linnulítið og kl. hálf tólf að kvöldi 26. desember, eða sólarhring eftir að úrfellið hófst, mældi veðurathugunarmaðurinn úrkomuna aftur og höfðu þá 93,3 mm bæst við morgunathugun. Þetta met er því ekki alveg sambærilegt við önnur sem ætíð eru fengin með mælingunni frá kl. 9 til 9. Stöðin í Vík hóf mælingar árið 1925. Mikil skriðuföll urðu í þessu úrfelli og lá meðal annars við að manntjón yrði þegar skriða féll á tvo bæi að Steinum undir Eyjafjöllum.

Mesta mánaðarúrkoma

Haustið 2002 voru fádæma rigningar á Austurlandi. Þá mældist mesta mánaðarúrkoma á landinu á Kollaleiru í Reyðarfirði í október, eða 971,5 mm. Í sama mánuði mældist mánaðarúrkoman á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 907,7 mm. Í janúar árið 2002, þegar sólarhringsmetið var sett, mældist úrkoman í Kvískerjum 905,3 mm. Mánaðarúrkoma hefur 11 sinnum mælst meiri en 700 mm á mönnuðum veðurstöðvum, þar af sex sinnum í Kvískerjum. Mesta úrkoma í einum mánuði í Reykjavík er 259,7 mm, það mældist í nóvember árið 1993.

Óvissa úrkomumælinga

Margt er það sem gerir úrkomumælingar óvissar. Hér skulum við láta alla þá óvissu liggja milli hluta að öðru leyti en því að á árunum 1948 til 1964 voru svonefndar vindhlífar settar á íslenska úrkomumæla. Áhrif þeirra eru einkum talin koma fram í því að snjókoma skili sér ívið betur í mæli með hlíf en án hennar. Flest bendir þó til þess að allmikil úrkoma, bæði í föstu formi og fljótandi, sleppi framhjá mælunum. Þessi vindhlífauppsetning gerir það að verkum að mælingar fyrir og eftir hlíf eru ef til vill ekki alveg sambærilegar. Höfum það í huga.

Síritandi og sjálfvirkir mælar

Síritandi úrkomumælar voru þar til nýlega mjög fáir á landinu og upplýsingar um úrkomuákefð eru þess vegna frekar af skornum skammti. Fjölmargir mælar skrá nú uppsafnaða úrkomu á 10 mínútna fresti allt árið um kring, þannig að á næstu árum mun vitneskja okkar um þennan þátt veðurfarsins aukast til muna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:


Þessi grein birtist fyrst á vefsetri Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðfúslegu leyfi í örlítið styttri útgáfu....