Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hver var Nobunaga Oda og hvaða hlutverki gegndi hann við sameiningu Japans?

Ólafur Sólimann

Nobunaga Oda (1534-1582) var einn af valdamestu lénsherrum (daimyo) í Japan á sextándu öld. Það tímabil hefur verið nefnt sengoku-öldin (戦国時代) í japanskri sögu. Hugtakið daimyo hefur gjarnan verið þýtt sem barón á íslensku en hér verður notast við orðið lénsherra sem er meira lýsandi.

Sengoku-öldin einkenndist af blóðugum átökum borgarastyrjaldar. Nobunaga bar aðeins titilinn lénsherra en var þó valdameiri en bæði keisarinn og sjóguninn, sem var yfirmaður hersins. Ævi hans var undirlögð af bardögum og átökum við aðra valdamenn ríkisins. Flest öllum átökunum lauk með sigri Nobunaga en farsæld hans á bardagavellinum hjálpaði honum að leggja grunninn að sameiningu Japans undir eina stjórn. Sérviska hans og ráðsnilld hefur gert Nobunaga að einni þekktustu persónu japanskrar sögu.

Æskuárin

Nobunaga fæddist 23. júní árið 1534 í Nagoya-kastala. Hann var fyrsti sonur foreldra sinna og þar með arftaki Oda-ættarinnar. Faðir hans hét Nobuhide og móðir hans Tsuchida Gozen. Aðeins tveggja ára að aldri var Nobunaga gerður að stjórnanda Nagoya-kastalans og fljótlega fór fólk að hafa orð á undarlegri hegðun hans. Það sem sætti mestri furðu var að hann lék sér stundum við önnur börn án þess að huga sérstaklega að stöðu sinni í samfélaginu. Sérstakur áhugi hans á skotvopnum varð til þess að hann fékk viðurnefnið Owari no Outsuke (尾張の大うつけ) eða „flónið af Owari-héraði“. Á þessum tíma voru skotvopn álitin villimannsleg enda þótti þau skorta þá siðfágun og glæsileika sem einkenndu sverðfimi samúræjastéttarinnar.

Nobunaga Oda varð lénsherra eftir andlát föður síns árið 1551, þá aðeins 17 ára. Sagan segir að Nobunaga hafi verið með alls kyns ólæti við jarðarför föður síns og meðal annars kastað reykelsum að altarinu. Uppeldisfaðir og lærimeistari Nobunaga fann fyrir svo mikilli skömm eftir þetta að hann framdi seppuku (sjálfsmorð). Skyndilegt brottfall lærimeistarans hefur eflaust verið talsvert áfall fyrir Nobunaga sem lét byggja hof til heiðurs honum.


Mynd af Nobunaga Oda frá 16. öld.

Þrátt fyrir að Nobunaga væri erfingi að lénsherratitli föður síns, landi og eignum, þá skiptist Oda-ættin í ólíkar fylkingar sem allar höfðu augastað á stól ættföðurins. Andstæðingar Nobunaga fylktu sér ýmist að baki bróður hans, Nobuyuki, eða föðurbróður hans, Nobutomo. Nobunaga bar þó sigur úr býtum. Fyrst myrti hann frænda sinn Nobutomo og tók yfir Kiyoshi-kastala og gerði að höfuðsetri sínu næstu tíu árin. Bræðurnir Nobunaga og Nobuyuki tókust síðan á í bardaganum við Inó þar sem Nobunaga fór einnig með sigur af hólmi. Að beiðni móður þeirra hlífði Nobunaga lífi bróður síns. Skömmu seinna komst Nobunaga að því að Nobuyuki var að undirbúa aðra uppreisn. Nobunaga gerði sér þá upp veikindi og lét kalla á bróður sinn. Þegar hann kom stakk Nobunaga bróður sinn til bana. Árið 1559 hafði Nobunaga barið niður alla andstöðu innan Oda-ættarinnar og fest sig í sessi sem lénsherra.

Lénsherrann

Nobunaga lét sér ekki nægja að takast á við ættmenni sín á þessum fyrstu árum sem lénsherra. Á sama tíma sýndi hann fádæma kænsku og innsýn í stjórnmál með því að ná valdi yfir shugo (nk. yfirmaður) lénsherranna í nágrenninu. Ákveðni og kraftur Nobunaga vakti reiði og afbrýðisemi margra annarra ættarhöfðingja. Hernaðarlegir yfirburðir Nobunaga komu svo í ljós í orrustunni við Okehazama. Í þeirri orrustu vann Nobunaga sigur á Yoshitomo Imagawa með um 1800 manna herliði en samkvæmt sögunni samanstóð herlið Imagawa-ættarinnar af tuttugu og fimm þúsund manns.

Nobunaga kom upp búðum á orrustuvellinum og fyllti þær af strábrúðum og fánum svo það liti út fyrir að hermenn hans biðu átekta. Á meðan undirbúningurinn stóð yfir í herbúðum Imagawa-ættarinnar réðst Nobunaga á þá aftan frá og kom þeim algerlega í opna skjöldu. Bent hefur verið á að hernaðarlegir yfirburðir Nobunaga hafi stafað af breyttri efnahagsstjórn sem byggði á auknu verslunar- og viðskiptafrelsi. Þannig tókst Nobunaga til dæmis að sjá fyrir nægum birgðum fyrir hermenn sína. Úrslit orrustunnar við Okehazama ollu því að Imagawa-ættin missti nær öll völd sín í landinu. Oda-ættbálkurinn frá Owari ætlaði greinilega að láta til sín taka í innanríkismálum Japans þar sem Nobunaga fór fremstur í flokki.

Djöflakóngurinn

Ítök Nobunaga Oda jukust til muna eftir að hann gerði bandalag við Motoyasu Matsudaira (síðar þekktur sem Ieyasu Tokugawa) þrátt fyrir að ættirnar hefðu lengi eldað saman grátt silfur. Hann gifti systur sína inn í Asai-ættina í norðri og styrkti þar með stöðu sína í kringum höfuðborgina Kyoto. Eftir að hafa sigrað Sato-ættina og lagt undir sig Inabayma-kastala árið 1567 settist Nobunaga að í kastalanum með hirð sína. Hann endurskírði kastalann og þorpið í kring, Gifu, og bjó til nýtt innsigli fyrir sjálfan sig sem á stóð Tenka Fubu (天下布武) sem mætti útleggja sem 'himneskur hermáttur á jörðu'. Þar með hafði Nobunaga opinberað ætlun sína um að sameina allt Japan undir sinni stjórn.

Ári síðar leitaði Yoshiaki Ashikaga til Nobunaga eftir hernaðarlegri aðstoð við að ná völdum á Ashikaga-sjóguna-þinginu. Nobunaga greip tækifærið og réðst með fullum hermætti inn í Kyoto og gerði Yoshiaki að sjógun landsins. Nobunaga var boðinn titillinn kanrei, sem er nokkurs konar ráðgjafi sjógunsins, en hann afþakkaði þar sem hann vildi frekar minnka völd sjógunsins og stjórna á bak við tjöldin. Í kjölfarið reiddist sjóguninn og hófst handa við að safna liði gegn Nobunaga. Margir lénsherrar og héraðshöfðingjar réðust gegn Nobunaga og Oda-ættinni en með aðstoð Ieayasu Tokugawa (áður Motoyasu Matsudaira) tókst Nobunaga að halda stöðu sinni sem valdamesti maður Japans og binda enda á Ashikaga-sjóguna-stjórnina.

Í orrustunni við Nagashino árið 1575 uppgötvaði Nobunaga hernaðarráð sem átti eftir að veita honum yfirburði í mörgum átökum. Gallinn við að nota skotvopn í bardaga var hversu langan tíma það tók að hlaða þau upp á nýtt. Nobunaga leysti þetta með því að raða skotliðinu upp í þrjár raðir þar sem ein röð hermanna skaut, á meðan hinar tvær beygðu sig niður og hlóðu rifflana. Andstæðingar Nobunaga Oda og Ieayasu Tokugawa áttu fá svör við þessari skyndilegu og öflugu innkomu skotvopna á vígvöllinn.

Árið 1582 var Nobunaga búinn að tryggja völd sín í Kyoto og á Kanto-sléttunni. Árangur hans hafði hins vegar kostað marga lífið. Nobunaga var orðinn þekktur fyrir að sýna litla samúð með andstæðingum sínum og hlífa fáum. Sá sem áður hafði verið nefndur „flónið af Owari“ varð nú þekktur sem Ma - O (魔王) eða „djöflakóngurinn“. Viðurnefnið fékk hann í kjölfar herferðar sinnar gegn búddamunkum Enrayaku-klaustursins á hinu helga Hei-fjalli í Kyoto. Klaustrið var álitið menningarlegt tákn á þessum tímum en Nobunaga lét sér fátt um finnast og brenndi það til grunna ásamt því að fyrirskipa líflát á 3-4 þúsund mönnum, konum og börnum. Jesúítinn Luis Frois lýsti Nobunaga sem trúlausum einræðisherra en Frois naut sérlegrar góðvildar við hirð Nobunaga, enda leit japanski lénsherrann svo á að kristin trú væru tækifæri til að losa sig við afskiptasama búddamunka.


Gröf Nobunaga Oda á Kōya-fjalli.

Á orrustuvellinum gaf Nobunaga engin grið og eru til margar grimmdarsögur af aðförum Oda-hersins á vígvellinum. Styrkur Nobunaga lá hins vegar í þessari meintu grimmd og hefur verið bent á að hugsanlega sé mikið af þessum sögum uppspuni kominn frá Nobunaga sjálfum til að fylla óvini sína af ótta. Einnig á hann að hafa notað grimmdina til að aga samúræja úr yfirbuguðu herliði til hlýðni. Það gerði hann með því að segja þeim að traustir samúræjar fengju að ganga í lið hans en óhollir yrðu að fremja sepukku eða yrði grimmilega refsað.

Hvað sem því líður þá hefur orðstír Nobunaga í seinni tíð verið meira í átt við fágaðan og yfirvegaðan samúræja frekar en harðstjóra. Bent hefur verið á að Nobunaga hafi ætlað að ná völdum yfir Japan með því að verða viðurkenndur sem menningarlegur valdhafi (文 ‘bun’) jafnt sem hernaðarlegur (武 ‘bu’). Á hann meðal annars að hafa notað japönsku teathöfnina sem menningarlegt vopn í þessum tilgangi.

Seinni tíma frásagnir af persónu hans lýsa fágun frekar en grimmd eða harðneskju, eins og til dæmis í kowaka-leikritinu Atsumori þar sem Nobunaga dansar fyrir hermenn sína áður en þeir ráðast til atlögu gegn Imagawa-hernum, en atriðið er bein tilvísun í eina af frægustu fornsögum Japans, Sagan um Heike (平家物語, ‘Heike monogatari). Í þjóðsögum er Nobunaga einnig lýst sem auðmjúkum manni líðandi stundar sem hafi meðal annars útbúið hrísgrjónin fyrir hermenn sína í orrustunni við Okehazama.

Ferill Nobunaga náði hápunkti árið 1582, eftir að hann hafði lagt flesta andstæðinga sína af velli og var að undirbúa árás í Shikoku-eyjuna. Sama ár var hann svikinn af herforingja sínum Mitsuhide Akechi sem kom Nobunaga að óvörum í Honno-ji-klaustrinu og neyddi hann til að fremja seppuku. Ellefu dögum síðar var Mitsuhide Akechi myrtur í orrustunni við Yamazaki af Hashiba Hideyoshi.

Sameining Japans

Sagan segir að Hideyoshi Toyotomi (áður Hashiba), sá sem náði hefndum fyrir Nobunaga, hafi byrjað sem skósveinn en síðar orðið hershöfðingi. Bóndasonurinn sem varð að hershöfðingja hélt svo starfi Nobunaga áfram og sameinaði allt Japan árið 1590 með aðstoð Ieyasu Tokugawa. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa verið dyggir fylgjendur Nobunaga og stefnu hans um sameinað Japan.

Eftir dauða Nobunaga steig Hideyoshi Toyotomi upp til valda og eru þau tímamót öllu jafnan talin marka upphafið af Azuchi-Momoyama-tímabilinu (1574-1600) í japanskri sögu. Því tímabili lauk þegar Toyotomi lést og Ieyasu tók við og hófst þá Tokugawa tímabilið. Þessir þrír félagar eru taldir eiga heiðurinn af því að sameina allt Japan undir einni stjórn. Eitt frægasta orðatiltæki Japans er á þessa leið: „Oda lamdi saman hrísgrjónaköku landans, Hideyoshi verkaði hana og Ieyasu settist niður og snæddi hana.“

Í frásögnum af bardögum og hernaðarátökum Nobunaga fer ekki leynt að hann hefur verið grimmilegur harðstjóri sem brást illa við hvers kyns mótlæti og hefur viðurnefni hans, djöflakóngur, eflaust verið réttlætanlegt á þessum tíma. Í því samhengi má ekki gleyma því að Nobunaga fæddist og ólst upp í borgarstyrjöld þar sem skortur á augljósum leiðtogum og yfirvaldi gerði stríðsherrum kleift að ríða um héruð og drepa mann og annan. Þrátt fyrir að hann gerði það á grimmilegan hátt þá batt Nobunaga enda á eitt blóðugasta tímabilið í japanskri sögu fram að seinni heimsstyrjöld. Á þeim tíma sem hann var við völd afrekaði hann meðal annars að afnema stéttarkerfi sem hafði verið við lýði í þúsund ár frá Heian- og Nara-tímabilinu, minnkaði afskipti ríkisvalds af verslun og lagði grunninn að friðartímum næstu 300 ár og sameinuðu Japan. Nobunaga er því gjarnan minnst með virðingu og jafnvel þakklæti í japönskum sögum og menningu.

Að lokum má minnast á að ein af aðalpersónum í kvikmyndinni Kagemusha eftir leikstjórann Akira Kurosawa er byggð á ævi Nobunaga.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Akira, I. (1990). The Cambridge History of Japan. (S. Gay, Trans.). Í K. Yamamura (ritstj.), Medieval Japan (3. bindi). Cambridge - New York - Melbourne: Cambridge University Press.
  • Ikegami, E. (1995). The Taming of the Samurai, London, England: Harvard University Press.
  • Kitagawa, Joseph M. (1987). On Understanding Japanese Religion. Princeton University Press.
  • Lu, David J. (1997). A Documentary History. (2. útg). M .E. Sharpe.
  • Matsunosuke, N. (1997). Edo Culture: Daily Life and Diversions in Urban Japan, 1600-1868 (þýð. G. Groemer). B.N.A.: University of Hawaii Press.
  • Oishi, S. (1990). The Bakuhan System. Í C. N. a. S. Oishi (ritstj.), Tokugawa Japan. Tokyo, Japan: University of Tokyo Press.
  • Sansom, G. (1961). A History of Japan. London: The Cresset Press.
  • Totman, C. (ritstj.). (2000). A History of Japan. B.N.A.: Blackwell Publishers.
  • Totman, C. (1993). Early Modern Japan. Berkeley - Los Angeles - London: University of California Press.
  • Yamamura, K. (ritstj.). (1990). The Cambridge history of Japan. (3. bindi). Cambridge - New York - Melbourne: Cambridge University Press.
  • Varley, H. P. (1997). Cultural Life of the Warrior Elite in the Fourteenth Century. Í J. P. Mass (ritstj.), The Origins of Japan's Medieval World (bls. 192-208). Stanford, California: Stanford University Press.
  • W. T. De Bary, Y. K. Dykstra. (2001). Soures of Japanese Tradition: From Earliest Times Through the Sixteenth Century. B.N.A.: Culumbia University Press.

Mynd:

Höfundur

B.A. í íslensku og ritstjóri Ling Ling

Útgáfudagur

11.3.2009

Spyrjandi

Charlone Valeriano, f. 1992

Tilvísun

Ólafur Sólimann. „Hver var Nobunaga Oda og hvaða hlutverki gegndi hann við sameiningu Japans?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2009. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=29836.

Ólafur Sólimann. (2009, 11. mars). Hver var Nobunaga Oda og hvaða hlutverki gegndi hann við sameiningu Japans? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=29836

Ólafur Sólimann. „Hver var Nobunaga Oda og hvaða hlutverki gegndi hann við sameiningu Japans?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2009. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=29836>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Nobunaga Oda og hvaða hlutverki gegndi hann við sameiningu Japans?
Nobunaga Oda (1534-1582) var einn af valdamestu lénsherrum (daimyo) í Japan á sextándu öld. Það tímabil hefur verið nefnt sengoku-öldin (戦国時代) í japanskri sögu. Hugtakið daimyo hefur gjarnan verið þýtt sem barón á íslensku en hér verður notast við orðið lénsherra sem er meira lýsandi.

Sengoku-öldin einkenndist af blóðugum átökum borgarastyrjaldar. Nobunaga bar aðeins titilinn lénsherra en var þó valdameiri en bæði keisarinn og sjóguninn, sem var yfirmaður hersins. Ævi hans var undirlögð af bardögum og átökum við aðra valdamenn ríkisins. Flest öllum átökunum lauk með sigri Nobunaga en farsæld hans á bardagavellinum hjálpaði honum að leggja grunninn að sameiningu Japans undir eina stjórn. Sérviska hans og ráðsnilld hefur gert Nobunaga að einni þekktustu persónu japanskrar sögu.

Æskuárin

Nobunaga fæddist 23. júní árið 1534 í Nagoya-kastala. Hann var fyrsti sonur foreldra sinna og þar með arftaki Oda-ættarinnar. Faðir hans hét Nobuhide og móðir hans Tsuchida Gozen. Aðeins tveggja ára að aldri var Nobunaga gerður að stjórnanda Nagoya-kastalans og fljótlega fór fólk að hafa orð á undarlegri hegðun hans. Það sem sætti mestri furðu var að hann lék sér stundum við önnur börn án þess að huga sérstaklega að stöðu sinni í samfélaginu. Sérstakur áhugi hans á skotvopnum varð til þess að hann fékk viðurnefnið Owari no Outsuke (尾張の大うつけ) eða „flónið af Owari-héraði“. Á þessum tíma voru skotvopn álitin villimannsleg enda þótti þau skorta þá siðfágun og glæsileika sem einkenndu sverðfimi samúræjastéttarinnar.

Nobunaga Oda varð lénsherra eftir andlát föður síns árið 1551, þá aðeins 17 ára. Sagan segir að Nobunaga hafi verið með alls kyns ólæti við jarðarför föður síns og meðal annars kastað reykelsum að altarinu. Uppeldisfaðir og lærimeistari Nobunaga fann fyrir svo mikilli skömm eftir þetta að hann framdi seppuku (sjálfsmorð). Skyndilegt brottfall lærimeistarans hefur eflaust verið talsvert áfall fyrir Nobunaga sem lét byggja hof til heiðurs honum.


Mynd af Nobunaga Oda frá 16. öld.

Þrátt fyrir að Nobunaga væri erfingi að lénsherratitli föður síns, landi og eignum, þá skiptist Oda-ættin í ólíkar fylkingar sem allar höfðu augastað á stól ættföðurins. Andstæðingar Nobunaga fylktu sér ýmist að baki bróður hans, Nobuyuki, eða föðurbróður hans, Nobutomo. Nobunaga bar þó sigur úr býtum. Fyrst myrti hann frænda sinn Nobutomo og tók yfir Kiyoshi-kastala og gerði að höfuðsetri sínu næstu tíu árin. Bræðurnir Nobunaga og Nobuyuki tókust síðan á í bardaganum við Inó þar sem Nobunaga fór einnig með sigur af hólmi. Að beiðni móður þeirra hlífði Nobunaga lífi bróður síns. Skömmu seinna komst Nobunaga að því að Nobuyuki var að undirbúa aðra uppreisn. Nobunaga gerði sér þá upp veikindi og lét kalla á bróður sinn. Þegar hann kom stakk Nobunaga bróður sinn til bana. Árið 1559 hafði Nobunaga barið niður alla andstöðu innan Oda-ættarinnar og fest sig í sessi sem lénsherra.

Lénsherrann

Nobunaga lét sér ekki nægja að takast á við ættmenni sín á þessum fyrstu árum sem lénsherra. Á sama tíma sýndi hann fádæma kænsku og innsýn í stjórnmál með því að ná valdi yfir shugo (nk. yfirmaður) lénsherranna í nágrenninu. Ákveðni og kraftur Nobunaga vakti reiði og afbrýðisemi margra annarra ættarhöfðingja. Hernaðarlegir yfirburðir Nobunaga komu svo í ljós í orrustunni við Okehazama. Í þeirri orrustu vann Nobunaga sigur á Yoshitomo Imagawa með um 1800 manna herliði en samkvæmt sögunni samanstóð herlið Imagawa-ættarinnar af tuttugu og fimm þúsund manns.

Nobunaga kom upp búðum á orrustuvellinum og fyllti þær af strábrúðum og fánum svo það liti út fyrir að hermenn hans biðu átekta. Á meðan undirbúningurinn stóð yfir í herbúðum Imagawa-ættarinnar réðst Nobunaga á þá aftan frá og kom þeim algerlega í opna skjöldu. Bent hefur verið á að hernaðarlegir yfirburðir Nobunaga hafi stafað af breyttri efnahagsstjórn sem byggði á auknu verslunar- og viðskiptafrelsi. Þannig tókst Nobunaga til dæmis að sjá fyrir nægum birgðum fyrir hermenn sína. Úrslit orrustunnar við Okehazama ollu því að Imagawa-ættin missti nær öll völd sín í landinu. Oda-ættbálkurinn frá Owari ætlaði greinilega að láta til sín taka í innanríkismálum Japans þar sem Nobunaga fór fremstur í flokki.

Djöflakóngurinn

Ítök Nobunaga Oda jukust til muna eftir að hann gerði bandalag við Motoyasu Matsudaira (síðar þekktur sem Ieyasu Tokugawa) þrátt fyrir að ættirnar hefðu lengi eldað saman grátt silfur. Hann gifti systur sína inn í Asai-ættina í norðri og styrkti þar með stöðu sína í kringum höfuðborgina Kyoto. Eftir að hafa sigrað Sato-ættina og lagt undir sig Inabayma-kastala árið 1567 settist Nobunaga að í kastalanum með hirð sína. Hann endurskírði kastalann og þorpið í kring, Gifu, og bjó til nýtt innsigli fyrir sjálfan sig sem á stóð Tenka Fubu (天下布武) sem mætti útleggja sem 'himneskur hermáttur á jörðu'. Þar með hafði Nobunaga opinberað ætlun sína um að sameina allt Japan undir sinni stjórn.

Ári síðar leitaði Yoshiaki Ashikaga til Nobunaga eftir hernaðarlegri aðstoð við að ná völdum á Ashikaga-sjóguna-þinginu. Nobunaga greip tækifærið og réðst með fullum hermætti inn í Kyoto og gerði Yoshiaki að sjógun landsins. Nobunaga var boðinn titillinn kanrei, sem er nokkurs konar ráðgjafi sjógunsins, en hann afþakkaði þar sem hann vildi frekar minnka völd sjógunsins og stjórna á bak við tjöldin. Í kjölfarið reiddist sjóguninn og hófst handa við að safna liði gegn Nobunaga. Margir lénsherrar og héraðshöfðingjar réðust gegn Nobunaga og Oda-ættinni en með aðstoð Ieayasu Tokugawa (áður Motoyasu Matsudaira) tókst Nobunaga að halda stöðu sinni sem valdamesti maður Japans og binda enda á Ashikaga-sjóguna-stjórnina.

Í orrustunni við Nagashino árið 1575 uppgötvaði Nobunaga hernaðarráð sem átti eftir að veita honum yfirburði í mörgum átökum. Gallinn við að nota skotvopn í bardaga var hversu langan tíma það tók að hlaða þau upp á nýtt. Nobunaga leysti þetta með því að raða skotliðinu upp í þrjár raðir þar sem ein röð hermanna skaut, á meðan hinar tvær beygðu sig niður og hlóðu rifflana. Andstæðingar Nobunaga Oda og Ieayasu Tokugawa áttu fá svör við þessari skyndilegu og öflugu innkomu skotvopna á vígvöllinn.

Árið 1582 var Nobunaga búinn að tryggja völd sín í Kyoto og á Kanto-sléttunni. Árangur hans hafði hins vegar kostað marga lífið. Nobunaga var orðinn þekktur fyrir að sýna litla samúð með andstæðingum sínum og hlífa fáum. Sá sem áður hafði verið nefndur „flónið af Owari“ varð nú þekktur sem Ma - O (魔王) eða „djöflakóngurinn“. Viðurnefnið fékk hann í kjölfar herferðar sinnar gegn búddamunkum Enrayaku-klaustursins á hinu helga Hei-fjalli í Kyoto. Klaustrið var álitið menningarlegt tákn á þessum tímum en Nobunaga lét sér fátt um finnast og brenndi það til grunna ásamt því að fyrirskipa líflát á 3-4 þúsund mönnum, konum og börnum. Jesúítinn Luis Frois lýsti Nobunaga sem trúlausum einræðisherra en Frois naut sérlegrar góðvildar við hirð Nobunaga, enda leit japanski lénsherrann svo á að kristin trú væru tækifæri til að losa sig við afskiptasama búddamunka.


Gröf Nobunaga Oda á Kōya-fjalli.

Á orrustuvellinum gaf Nobunaga engin grið og eru til margar grimmdarsögur af aðförum Oda-hersins á vígvellinum. Styrkur Nobunaga lá hins vegar í þessari meintu grimmd og hefur verið bent á að hugsanlega sé mikið af þessum sögum uppspuni kominn frá Nobunaga sjálfum til að fylla óvini sína af ótta. Einnig á hann að hafa notað grimmdina til að aga samúræja úr yfirbuguðu herliði til hlýðni. Það gerði hann með því að segja þeim að traustir samúræjar fengju að ganga í lið hans en óhollir yrðu að fremja sepukku eða yrði grimmilega refsað.

Hvað sem því líður þá hefur orðstír Nobunaga í seinni tíð verið meira í átt við fágaðan og yfirvegaðan samúræja frekar en harðstjóra. Bent hefur verið á að Nobunaga hafi ætlað að ná völdum yfir Japan með því að verða viðurkenndur sem menningarlegur valdhafi (文 ‘bun’) jafnt sem hernaðarlegur (武 ‘bu’). Á hann meðal annars að hafa notað japönsku teathöfnina sem menningarlegt vopn í þessum tilgangi.

Seinni tíma frásagnir af persónu hans lýsa fágun frekar en grimmd eða harðneskju, eins og til dæmis í kowaka-leikritinu Atsumori þar sem Nobunaga dansar fyrir hermenn sína áður en þeir ráðast til atlögu gegn Imagawa-hernum, en atriðið er bein tilvísun í eina af frægustu fornsögum Japans, Sagan um Heike (平家物語, ‘Heike monogatari). Í þjóðsögum er Nobunaga einnig lýst sem auðmjúkum manni líðandi stundar sem hafi meðal annars útbúið hrísgrjónin fyrir hermenn sína í orrustunni við Okehazama.

Ferill Nobunaga náði hápunkti árið 1582, eftir að hann hafði lagt flesta andstæðinga sína af velli og var að undirbúa árás í Shikoku-eyjuna. Sama ár var hann svikinn af herforingja sínum Mitsuhide Akechi sem kom Nobunaga að óvörum í Honno-ji-klaustrinu og neyddi hann til að fremja seppuku. Ellefu dögum síðar var Mitsuhide Akechi myrtur í orrustunni við Yamazaki af Hashiba Hideyoshi.

Sameining Japans

Sagan segir að Hideyoshi Toyotomi (áður Hashiba), sá sem náði hefndum fyrir Nobunaga, hafi byrjað sem skósveinn en síðar orðið hershöfðingi. Bóndasonurinn sem varð að hershöfðingja hélt svo starfi Nobunaga áfram og sameinaði allt Japan árið 1590 með aðstoð Ieyasu Tokugawa. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa verið dyggir fylgjendur Nobunaga og stefnu hans um sameinað Japan.

Eftir dauða Nobunaga steig Hideyoshi Toyotomi upp til valda og eru þau tímamót öllu jafnan talin marka upphafið af Azuchi-Momoyama-tímabilinu (1574-1600) í japanskri sögu. Því tímabili lauk þegar Toyotomi lést og Ieyasu tók við og hófst þá Tokugawa tímabilið. Þessir þrír félagar eru taldir eiga heiðurinn af því að sameina allt Japan undir einni stjórn. Eitt frægasta orðatiltæki Japans er á þessa leið: „Oda lamdi saman hrísgrjónaköku landans, Hideyoshi verkaði hana og Ieyasu settist niður og snæddi hana.“

Í frásögnum af bardögum og hernaðarátökum Nobunaga fer ekki leynt að hann hefur verið grimmilegur harðstjóri sem brást illa við hvers kyns mótlæti og hefur viðurnefni hans, djöflakóngur, eflaust verið réttlætanlegt á þessum tíma. Í því samhengi má ekki gleyma því að Nobunaga fæddist og ólst upp í borgarstyrjöld þar sem skortur á augljósum leiðtogum og yfirvaldi gerði stríðsherrum kleift að ríða um héruð og drepa mann og annan. Þrátt fyrir að hann gerði það á grimmilegan hátt þá batt Nobunaga enda á eitt blóðugasta tímabilið í japanskri sögu fram að seinni heimsstyrjöld. Á þeim tíma sem hann var við völd afrekaði hann meðal annars að afnema stéttarkerfi sem hafði verið við lýði í þúsund ár frá Heian- og Nara-tímabilinu, minnkaði afskipti ríkisvalds af verslun og lagði grunninn að friðartímum næstu 300 ár og sameinuðu Japan. Nobunaga er því gjarnan minnst með virðingu og jafnvel þakklæti í japönskum sögum og menningu.

Að lokum má minnast á að ein af aðalpersónum í kvikmyndinni Kagemusha eftir leikstjórann Akira Kurosawa er byggð á ævi Nobunaga.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Akira, I. (1990). The Cambridge History of Japan. (S. Gay, Trans.). Í K. Yamamura (ritstj.), Medieval Japan (3. bindi). Cambridge - New York - Melbourne: Cambridge University Press.
  • Ikegami, E. (1995). The Taming of the Samurai, London, England: Harvard University Press.
  • Kitagawa, Joseph M. (1987). On Understanding Japanese Religion. Princeton University Press.
  • Lu, David J. (1997). A Documentary History. (2. útg). M .E. Sharpe.
  • Matsunosuke, N. (1997). Edo Culture: Daily Life and Diversions in Urban Japan, 1600-1868 (þýð. G. Groemer). B.N.A.: University of Hawaii Press.
  • Oishi, S. (1990). The Bakuhan System. Í C. N. a. S. Oishi (ritstj.), Tokugawa Japan. Tokyo, Japan: University of Tokyo Press.
  • Sansom, G. (1961). A History of Japan. London: The Cresset Press.
  • Totman, C. (ritstj.). (2000). A History of Japan. B.N.A.: Blackwell Publishers.
  • Totman, C. (1993). Early Modern Japan. Berkeley - Los Angeles - London: University of California Press.
  • Yamamura, K. (ritstj.). (1990). The Cambridge history of Japan. (3. bindi). Cambridge - New York - Melbourne: Cambridge University Press.
  • Varley, H. P. (1997). Cultural Life of the Warrior Elite in the Fourteenth Century. Í J. P. Mass (ritstj.), The Origins of Japan's Medieval World (bls. 192-208). Stanford, California: Stanford University Press.
  • W. T. De Bary, Y. K. Dykstra. (2001). Soures of Japanese Tradition: From Earliest Times Through the Sixteenth Century. B.N.A.: Culumbia University Press.

Mynd:...