Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:24 • Sest 14:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:18 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík

Hver var Alexandre Gustave Eiffel og hvert var hans framlag til vísindanna?

Júlíus Sólnes

Franski byggingarverkfræðingurinn Alexandre Gustave Eiffel fæddist í borginni Dijon í Frakklandi 15. desember 1832. Hann var af þýskum ættum og bar í upphafi ættarnafnið Bönickhausen. Það þótti fjölskyldunni óþjált og breytti eftirnafninu í Eiffel, en einn þýsku forfeðranna hafði flust frá Eifel-hæðum í NV-Þýskalandi til Frakklands.

Eiffel var afburðanámsmaður þegar á unglingsárum en þótti slá slöku við í skólanum, taldi það vera tímasóun að sitja í kennslutímum, þar sem áhersla væri lögð á gamaldags fræði. Tveir frændur hans, lærðir efnafræðingar, höfðu samt mikil áhrif á unga manninn og kenndu honum að meta lærdóm og þekkingu á raunvísindum, heimspeki og guðfræði. Síðustu tvö árin í menntaskóla tók hann við sér og skaraði fram úr í bókmenntum og sögu, og einnig í raunvísindum. Hugur hans tók nú að hneigjast meira til náttúruvísindanna, og fór hann til náms í Collège Sainte Barbe í París til að búa sig undir inntökupróf fyrir verkfræðinám í einhverjum hinna nýju og virtu verkfræðiháskólum Frakklands, en þeir voru afsprengi frönsku stjórnarbyltingarinnar. Eiffel fékk inni í École Centrale des Arts et Manufactures í París og lauk meistaraprófi í efnafræði 1855.

Honum stóð nú til boða að hefja störf í fjölskyldufyrirtækinu í Dijon við að framleiða edik. Deilur innan fjölskyldunnar urðu til þess að úr því varð ekki, og réðst hann í staðinn til starfa hjá fyrirtæki sem hannaði og byggði járnbrautarbrýr. Þar beið hans skjótur frami. Var Eiffel fljótur að tileinka sér þekkingu á stálvirkjum, hvernig skyldi hanna þau og byggja. Þegar fyrirtækið varð gjaldþrota komst það í eigu belgískra fjárfesta. Belgarnir höfðu trú á verkfræðingnum unga og réðu hann sem yfirmann rannsóknarsviðs fyrirtækisins. Aðeins 25 ára gömlum var honum falið að stjórna byggingu tæplega 500 metra járngrindabrúar yfir ána Garonne, rétt hjá Bordeaux. Skyldi hann ljúka verkinu á tveimur árum. Eiffel leysti þetta verk með miklum ágætum, og þróaði meðal annars fyrsta lofthamarinn til að reka niður staura í djúpan árbotninn fyrir undirstöður brúarinnar.

Árið 1864 stofnaði Eiffel verkfræðifyrirtæki sitt, Eiffel et Cie í París, þar sem hann bjó það sem eftir var ævinnar. Eitt af fyrstu sjálfstæðu verkefnum hans var bygging tveggja stálgrindabrúa yfir ána Sioule, við Rouzat og Neuvial, fyrir járnbrautarfyrirtækið La Compagnie Paris Orléans. Þar notaði Eiffel valsað stál í staðinn fyrir hið stökka steypujárn sem þá var nær allsráðandi í stálmannvirkjum, og nýtti sér bogaformið sem seinna átti eftir gera turninn í París frægan.Frelsisstyttan er eitt þekktasta tákn Bandaríkjanna. Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum styttuna árið 1885, en hún var vígð opinberlega þann 28. október árið 1886.

Frægð og frami fylgdu í kjölfar þessara verka og var Eiffel eftirsóttur verkfræðingur um allan heim þegar byggja þurfti ýmiss konar stálvirki. Á þessum árum hannaði hann meðal annars hreyfanlegar stálbrýr fyrir franska herinn, stórverslunarhúsið Bon Marché í París og burðargrindina fyrir frelsisstyttuna í New York. Myndhöggvarinn Fréderic-Auguste Bartholdi var höfundur þessarar risavöxnu styttu sem Frakkar vildu gefa Bandaríkjamönnum í tilefni af 100 ára afmæli bandarísku stjórnarskrárinnar 1876. Bartholdi leitaði til Eiffels og fékk honum það vandasama verkefni að hanna heppilegt burðarvirki fyrir styttuna, koma því til New York og tryggja að það stæði af sér hafstormana við höfnina þar. Eiffel leysti verkefnið snilldarlega, hannaði létta stálburðargrind sem mátti flytja í mörgum hlutum yfir hafið, og lét svo klæða hana með málmplötum sem ytri kápu. Styttan, sem gengur undir nafninu frelsisstyttan, hefur orðið eitt helsta tákn Bandaríkjanna og alls mannkyns um mannréttindi og frelsi.

Nú var röðin komin að Eiffelturninum. Í tilefni af heimssýningunni í París 1889 ákvað stjórn sýningarinnar að fela Eiffel að byggja stálturn sem skyldi jafnframt vera aðalinngangur sýningarsvæðisins á Champs de Mars í París. Eiffel lét hanna og byggði turninn sem er 324 metra hár, og nýtti alla reynslu sína til að gera hann sem tignarlegastan. Upphaflega var gert ráð fyrir að turninn yrði rifinn að sýningu lokinni, en mannvirkið þótti það glæsilegt að borgaryfirvöld ákváðu að það skyldi standa um ókomna tíð. Ekki voru þó allir borgarbúar sáttir. Sagan segir að franski rithöfundurinn Guy de Maupassant hafi daglega snætt hádegisverð á veitingastað í turninum. Aðspurður sagði Maupassant, að það væri eini staðurinn í borginni þar sem þetta ljóta ferlíki sæist ekki. Eiffelturninn er nú höfuðtákn Parísarborgar og jafnvel Frakklands alls, líkt og Frelsisstyttan varð í New York. Allt fram til 1930 var turninn hæsta bygging heims, eða þar til Chrysler-skýjaklúfurinn í New York kom til sögunnar.Eiffelturninn, eitt helsta tákn Parísarborgar, í byggingu. Mynd frá 1888.

Um svipað leyti og byggingu Eiffelturnsins lauk, vann Eiffel að hönnun lokubúnaðar fyrir Panamaskurðinn sem þá var í byggingu undir stjórn Ferndinand de Lesseps, þess sem byggði Suezskurðinn. Fyrirtækið sem sá um lokurnar varð gjaldþrota, og lenti Eiffel í miklum erfiðleikum og langvarandi málaferlum út af því. Hann var meðal annars sakaður um að hafa farið illa með fjármuni félagsins sem fjöldi Frakka hafði lagt sparifé sitt í. Eiffel dró sig í hlé frá byggingarverkefnum fyrirtækis síns og hætti sem stjórnarformaður þess 1893. Hann var þó hvergi nærri hættur störfum. Næstu þrjátíu árin helgaði hann sig rannsóknum á loftstreymi og vindálagi á byggingar í rannsóknarstofu sinni í Eiffelturninum, stundaði þar einnig veðurfarsathuganir og fjarskiptarannsóknir. Hann lést í hárri elli á heimili sínu í París 1923.

Eiffel var mikill listunnandi og vel að sér í bókmenntum. Hann var í góðu vinfengi við helstu listamenn samtíðar sinnar og afsannaði þá kenningu að verkfræðingar og raunvísindamenn bæru lítið skynbragð á listir og bókmenntir. Sjálfur taldi hann rannsóknirnar sem hann stundaði síðustu ár ævinnar vera merkasta framlag sitt til tækniþróunar, en turninn hefði ávallt skyggt á þær.

Myndir:

Höfundur

Júlíus Sólnes

prófessor emeritus

Útgáfudagur

29.8.2011

Spyrjandi

Stefanía Fanndís Björgvinsdóttir

Tilvísun

Júlíus Sólnes. „Hver var Alexandre Gustave Eiffel og hvert var hans framlag til vísindanna? “ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2011. Sótt 8. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=30405.

Júlíus Sólnes. (2011, 29. ágúst). Hver var Alexandre Gustave Eiffel og hvert var hans framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30405

Júlíus Sólnes. „Hver var Alexandre Gustave Eiffel og hvert var hans framlag til vísindanna? “ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2011. Vefsíða. 8. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30405>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Alexandre Gustave Eiffel og hvert var hans framlag til vísindanna?
Franski byggingarverkfræðingurinn Alexandre Gustave Eiffel fæddist í borginni Dijon í Frakklandi 15. desember 1832. Hann var af þýskum ættum og bar í upphafi ættarnafnið Bönickhausen. Það þótti fjölskyldunni óþjált og breytti eftirnafninu í Eiffel, en einn þýsku forfeðranna hafði flust frá Eifel-hæðum í NV-Þýskalandi til Frakklands.

Eiffel var afburðanámsmaður þegar á unglingsárum en þótti slá slöku við í skólanum, taldi það vera tímasóun að sitja í kennslutímum, þar sem áhersla væri lögð á gamaldags fræði. Tveir frændur hans, lærðir efnafræðingar, höfðu samt mikil áhrif á unga manninn og kenndu honum að meta lærdóm og þekkingu á raunvísindum, heimspeki og guðfræði. Síðustu tvö árin í menntaskóla tók hann við sér og skaraði fram úr í bókmenntum og sögu, og einnig í raunvísindum. Hugur hans tók nú að hneigjast meira til náttúruvísindanna, og fór hann til náms í Collège Sainte Barbe í París til að búa sig undir inntökupróf fyrir verkfræðinám í einhverjum hinna nýju og virtu verkfræðiháskólum Frakklands, en þeir voru afsprengi frönsku stjórnarbyltingarinnar. Eiffel fékk inni í École Centrale des Arts et Manufactures í París og lauk meistaraprófi í efnafræði 1855.

Honum stóð nú til boða að hefja störf í fjölskyldufyrirtækinu í Dijon við að framleiða edik. Deilur innan fjölskyldunnar urðu til þess að úr því varð ekki, og réðst hann í staðinn til starfa hjá fyrirtæki sem hannaði og byggði járnbrautarbrýr. Þar beið hans skjótur frami. Var Eiffel fljótur að tileinka sér þekkingu á stálvirkjum, hvernig skyldi hanna þau og byggja. Þegar fyrirtækið varð gjaldþrota komst það í eigu belgískra fjárfesta. Belgarnir höfðu trú á verkfræðingnum unga og réðu hann sem yfirmann rannsóknarsviðs fyrirtækisins. Aðeins 25 ára gömlum var honum falið að stjórna byggingu tæplega 500 metra járngrindabrúar yfir ána Garonne, rétt hjá Bordeaux. Skyldi hann ljúka verkinu á tveimur árum. Eiffel leysti þetta verk með miklum ágætum, og þróaði meðal annars fyrsta lofthamarinn til að reka niður staura í djúpan árbotninn fyrir undirstöður brúarinnar.

Árið 1864 stofnaði Eiffel verkfræðifyrirtæki sitt, Eiffel et Cie í París, þar sem hann bjó það sem eftir var ævinnar. Eitt af fyrstu sjálfstæðu verkefnum hans var bygging tveggja stálgrindabrúa yfir ána Sioule, við Rouzat og Neuvial, fyrir járnbrautarfyrirtækið La Compagnie Paris Orléans. Þar notaði Eiffel valsað stál í staðinn fyrir hið stökka steypujárn sem þá var nær allsráðandi í stálmannvirkjum, og nýtti sér bogaformið sem seinna átti eftir gera turninn í París frægan.Frelsisstyttan er eitt þekktasta tákn Bandaríkjanna. Frakkar gáfu Bandaríkjamönnum styttuna árið 1885, en hún var vígð opinberlega þann 28. október árið 1886.

Frægð og frami fylgdu í kjölfar þessara verka og var Eiffel eftirsóttur verkfræðingur um allan heim þegar byggja þurfti ýmiss konar stálvirki. Á þessum árum hannaði hann meðal annars hreyfanlegar stálbrýr fyrir franska herinn, stórverslunarhúsið Bon Marché í París og burðargrindina fyrir frelsisstyttuna í New York. Myndhöggvarinn Fréderic-Auguste Bartholdi var höfundur þessarar risavöxnu styttu sem Frakkar vildu gefa Bandaríkjamönnum í tilefni af 100 ára afmæli bandarísku stjórnarskrárinnar 1876. Bartholdi leitaði til Eiffels og fékk honum það vandasama verkefni að hanna heppilegt burðarvirki fyrir styttuna, koma því til New York og tryggja að það stæði af sér hafstormana við höfnina þar. Eiffel leysti verkefnið snilldarlega, hannaði létta stálburðargrind sem mátti flytja í mörgum hlutum yfir hafið, og lét svo klæða hana með málmplötum sem ytri kápu. Styttan, sem gengur undir nafninu frelsisstyttan, hefur orðið eitt helsta tákn Bandaríkjanna og alls mannkyns um mannréttindi og frelsi.

Nú var röðin komin að Eiffelturninum. Í tilefni af heimssýningunni í París 1889 ákvað stjórn sýningarinnar að fela Eiffel að byggja stálturn sem skyldi jafnframt vera aðalinngangur sýningarsvæðisins á Champs de Mars í París. Eiffel lét hanna og byggði turninn sem er 324 metra hár, og nýtti alla reynslu sína til að gera hann sem tignarlegastan. Upphaflega var gert ráð fyrir að turninn yrði rifinn að sýningu lokinni, en mannvirkið þótti það glæsilegt að borgaryfirvöld ákváðu að það skyldi standa um ókomna tíð. Ekki voru þó allir borgarbúar sáttir. Sagan segir að franski rithöfundurinn Guy de Maupassant hafi daglega snætt hádegisverð á veitingastað í turninum. Aðspurður sagði Maupassant, að það væri eini staðurinn í borginni þar sem þetta ljóta ferlíki sæist ekki. Eiffelturninn er nú höfuðtákn Parísarborgar og jafnvel Frakklands alls, líkt og Frelsisstyttan varð í New York. Allt fram til 1930 var turninn hæsta bygging heims, eða þar til Chrysler-skýjaklúfurinn í New York kom til sögunnar.Eiffelturninn, eitt helsta tákn Parísarborgar, í byggingu. Mynd frá 1888.

Um svipað leyti og byggingu Eiffelturnsins lauk, vann Eiffel að hönnun lokubúnaðar fyrir Panamaskurðinn sem þá var í byggingu undir stjórn Ferndinand de Lesseps, þess sem byggði Suezskurðinn. Fyrirtækið sem sá um lokurnar varð gjaldþrota, og lenti Eiffel í miklum erfiðleikum og langvarandi málaferlum út af því. Hann var meðal annars sakaður um að hafa farið illa með fjármuni félagsins sem fjöldi Frakka hafði lagt sparifé sitt í. Eiffel dró sig í hlé frá byggingarverkefnum fyrirtækis síns og hætti sem stjórnarformaður þess 1893. Hann var þó hvergi nærri hættur störfum. Næstu þrjátíu árin helgaði hann sig rannsóknum á loftstreymi og vindálagi á byggingar í rannsóknarstofu sinni í Eiffelturninum, stundaði þar einnig veðurfarsathuganir og fjarskiptarannsóknir. Hann lést í hárri elli á heimili sínu í París 1923.

Eiffel var mikill listunnandi og vel að sér í bókmenntum. Hann var í góðu vinfengi við helstu listamenn samtíðar sinnar og afsannaði þá kenningu að verkfræðingar og raunvísindamenn bæru lítið skynbragð á listir og bókmenntir. Sjálfur taldi hann rannsóknirnar sem hann stundaði síðustu ár ævinnar vera merkasta framlag sitt til tækniþróunar, en turninn hefði ávallt skyggt á þær.

Myndir:...