Sólin Sólin Rís 07:15 • sest 19:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:55 • Sest 22:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:47 • Síðdegis: 13:41 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:59 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík

Hvers vegna er þrumuveður sjaldgæfara á Íslandi en í öðrum löndum?

Trausti Jónsson

Vegna þess að stöðugleiki lofts er meiri hér á landi heldur en á suðurslóðum. Stöðugleiki er mælkvarði á tregðu lofts til að hreyfast lóðrétt. Því meiri sem stöðugleikinn er því tregara er loftið til uppstreymis.

Þrumuveður myndast í stórum skúra- eða éljaklökkum sem oft eru þá kallaðir þrumuklakkar eða þrumuský. Langoftast eru fleiri en ein upp- og niðurstreymiseining (veltieiningar) virkar á sama tíma. Hver þeirra lifir ekki lengi en nýjar taka gjarnan við af þeim sem deyja. Á suðlægari slóðum geta hundruð eininga verið virkar í einu þrumuveðri sem stendur í nokkra klukkutíma.

Þrumuveður eru ekki algeng á Íslandi og þau fáu sem hér koma eru langflest minniháttar. Afl hverrar einstakrar eldingar er þó síst minna hér á landi en erlendis og þær valda oft tjóni, til dæmis hafa hús brunnið að jafnaði á 10 til 15 ára fresti af þeirra völdum, kvikfénaður hefur farist og nokkrir menn látist. Sömuleiðis er tölvu- og fjarskiptabúnaður mjög viðkvæmur fyrir snöggum rafsviðsbreytingum, eins og fylgja eldingum, og tjón á slíkum búnaði er algengt hér á landi. Varasamt er að vanmeta eldingar þótt fáar séu.

Í miklu íslensku þrumuveðri eru gjarnan um 100 eldingar, í miklu þrumuveðri á meginlöndunum eru þær oft hundrað sinnum fleiri, eða um tíu þúsund. Þrumudagafjöldi á hverjum stað hér á landi er víðast á bilinu 1 til 7. Á meginlöndunum er fjöldi slíkra daga 10-50, reyndar miklu meiri sums staðar í hitabeltinu og því hlýtempraða.Þessi sjón er mun sjaldgæfari hér á landi en á slóðum þar sem loft er óstöðugra.

Þrumuveður einkennast af stórfelldum, lóðréttum hreyfingum lofts. Venjulega er lóðréttur vindhraði aðeins einn hundraðasti til einn þúsundasti af láréttum vindhraða. Dæmigerður láréttur vindhraði er 5-50 m/s, en lóðréttur vindur mælist fremur í sentimetrum á sekúndu. Í þrumuveðrum getur lóðrétt og lárétt hreyfing verið ámóta mikil, til þess að svo megi verða þarf loft að vera mjög óstöðugt. Uppstreymi í þrumuveðrum er oftast snarpara en niðurstreymið.

Breytingar á stöðugleika lofts eiga sér sífellt stað, en oftast gerast þær rólega, stöðugleiki getur til dæmis minnkað hægt og bítandi þar til þykkt lag er allt orðið óstöðugt. Við slík skilyrði verða lóðréttar hreyfingar yfirleitt hóflegar. Þrumuveður eiga sér fyrst og fremst stað þar sem stöðugleiki minnkar mikið og skyndilega á stóru svæði og miklu hæðarbili, lóðréttar hreyfingar verða þá mjög ákafar, rafsvið aflagast nokkuð og ýtir undir að eldingar myndist.

Myndun íshagls eykur hleðsluskiljun (skerpir á rafsviðinu) í skýinu mikið og auðveldar þar með eldingamyndun að mun. Til þess að íshagl geti myndast verður uppstreymi að vera það mikið að haglkorn geti farið nokkrar ferðir upp og niður skýið. Hér á landi er íshagl sárasjaldgæft. Sé íshaglskorn skorið í sundur má sjá í því eins konar „árhringi“, en fjöldi þeirra segir til að nokkru hversu margar ferðir það hefur farið upp og niður í skýinu. Það sem við venjulega sjáum hérlendis og köllum hagl er tæknilega nefnt frauðhagl. Í því eru engir hringir og hefur það venjulega aðeins farið eina ferð upp í skýinu eftir að það hefur myndast. Þrumuský, sem ekki myndar íshagl, myndar einnig miklu færri eldingar en ský með íshagli. Hleðsluskiljun er þar miklu minni en í íshaglsskýjunum.Íshagl á ferð um þrumuský.

Stöðugleika er hættast þegar (i) loft hitnar meira neðantil heldur en ofantil, (ii) þegar mikið af raka loftsins þéttist snögglega en þá hlýnar loft vegna losunar dulvarma sem af þéttingunni leiðir. Ástæður þær sem liggja að baki skyndilegra stöðugleikabreytinga á stórum svæðum geta verið margs konar en ekki er fjallað um þær hér.

Loft hitnar að neðan þegar sól í heiði hitar yfirborð landsins. Loft verður þá óstöðugt og lyftist, þá þéttist stundum raki, dulvarmi losnar, loftið hitnar enn meir og uppstreymi verður öflugra. Þótt uppstreymi verði mikið rekst það alltaf uppundir veðrahvörfin en þau mynda svo stöðugt lag að enginn venjulegur óstöðugleiki getur brotist í gegn. Hér á landi eru veðrahvörfin gjarnan í 8 til 10 kílómetra hæð, en í 15 til 18 kílómetra hæð í hitabeltinu.

Raki hefst mun betur við í hlýju lofti en köldu. Dulvarmi í hlýju, röku lofti er því miklu meiri heldur en í röku og köldu. Hlýtt loft sem lyftist losar því mun meiri orku til uppstreymis heldur en kalt. Uppstreymið er því mun ákafara þar sem loft er hlýtt heldur en þar sem það er kalt. Rafsvið getur því aflagast enn meira og skyndilegar. Veðrahvörfin liggja hátt í suðlægum löndum og lóðrétt streymi getur lyft lofti mun hærra heldur en á norðurslóðum þar sem veðrahvörfin liggja neðar. Það auðveldar bæði aflögun rafsviðsins, sem og haglmyndun, sem auðveldar eldingaframleiðslu.

Af þessu má sjá hvers vegna þrumuveður eru sjaldgæf á Íslandi. Loft hér á landi er lengst af stöðugt og oft mjög stöðugt því neðsti hluti lofthjúpsins á norðurslóðum býr við mikinn hallarekstur á varmabúskap, en við útgeislun kólnar loft oftast neðanfrá. Auk þessa kælir yfirborð jarðar og sjávar allt loft sem hingað kemur að sunnan. Til að búa til meiriháttar þrumuveður þarf allt veðrahvolfið að taka þátt í lóðréttum hreyfingum. Það gerist vissulega hér á landi en veðrahvörfin eru miklu lægri hér en yfir suðlægari slóðum. Þau leggjast á allt frekara uppstreymi og því getur það ekki náð eins hátt hér. Kuldinn sér til þess að uppgufun og raki er hér mun minni en á suðlægari breiddarstigum. Landið er þar að auki það lítið að stórt þrumuveðrakerfi yfir landi dregur fljótlega inn undir sig kalt sjávarloft sem slær á uppstreymið á áhrifamikinn hátt.

Á þessu ástandi eru þó fáeinar undantekningar, hver um sig á þó við aðeins fáeina daga og dagparta á ári hverju. Fjöll hjálpa mjög til við uppstreymi, rekist óstöðugt loft á þau, og því eru þrumur algengastar hérlendis nærri háum fjöllum á sunnan- og vestanverðu landinu.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

16.10.2009

Spyrjandi

Ann Gunilla Westerberg

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvers vegna er þrumuveður sjaldgæfara á Íslandi en í öðrum löndum?“ Vísindavefurinn, 16. október 2009. Sótt 24. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=30684.

Trausti Jónsson. (2009, 16. október). Hvers vegna er þrumuveður sjaldgæfara á Íslandi en í öðrum löndum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30684

Trausti Jónsson. „Hvers vegna er þrumuveður sjaldgæfara á Íslandi en í öðrum löndum?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2009. Vefsíða. 24. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30684>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er þrumuveður sjaldgæfara á Íslandi en í öðrum löndum?
Vegna þess að stöðugleiki lofts er meiri hér á landi heldur en á suðurslóðum. Stöðugleiki er mælkvarði á tregðu lofts til að hreyfast lóðrétt. Því meiri sem stöðugleikinn er því tregara er loftið til uppstreymis.

Þrumuveður myndast í stórum skúra- eða éljaklökkum sem oft eru þá kallaðir þrumuklakkar eða þrumuský. Langoftast eru fleiri en ein upp- og niðurstreymiseining (veltieiningar) virkar á sama tíma. Hver þeirra lifir ekki lengi en nýjar taka gjarnan við af þeim sem deyja. Á suðlægari slóðum geta hundruð eininga verið virkar í einu þrumuveðri sem stendur í nokkra klukkutíma.

Þrumuveður eru ekki algeng á Íslandi og þau fáu sem hér koma eru langflest minniháttar. Afl hverrar einstakrar eldingar er þó síst minna hér á landi en erlendis og þær valda oft tjóni, til dæmis hafa hús brunnið að jafnaði á 10 til 15 ára fresti af þeirra völdum, kvikfénaður hefur farist og nokkrir menn látist. Sömuleiðis er tölvu- og fjarskiptabúnaður mjög viðkvæmur fyrir snöggum rafsviðsbreytingum, eins og fylgja eldingum, og tjón á slíkum búnaði er algengt hér á landi. Varasamt er að vanmeta eldingar þótt fáar séu.

Í miklu íslensku þrumuveðri eru gjarnan um 100 eldingar, í miklu þrumuveðri á meginlöndunum eru þær oft hundrað sinnum fleiri, eða um tíu þúsund. Þrumudagafjöldi á hverjum stað hér á landi er víðast á bilinu 1 til 7. Á meginlöndunum er fjöldi slíkra daga 10-50, reyndar miklu meiri sums staðar í hitabeltinu og því hlýtempraða.Þessi sjón er mun sjaldgæfari hér á landi en á slóðum þar sem loft er óstöðugra.

Þrumuveður einkennast af stórfelldum, lóðréttum hreyfingum lofts. Venjulega er lóðréttur vindhraði aðeins einn hundraðasti til einn þúsundasti af láréttum vindhraða. Dæmigerður láréttur vindhraði er 5-50 m/s, en lóðréttur vindur mælist fremur í sentimetrum á sekúndu. Í þrumuveðrum getur lóðrétt og lárétt hreyfing verið ámóta mikil, til þess að svo megi verða þarf loft að vera mjög óstöðugt. Uppstreymi í þrumuveðrum er oftast snarpara en niðurstreymið.

Breytingar á stöðugleika lofts eiga sér sífellt stað, en oftast gerast þær rólega, stöðugleiki getur til dæmis minnkað hægt og bítandi þar til þykkt lag er allt orðið óstöðugt. Við slík skilyrði verða lóðréttar hreyfingar yfirleitt hóflegar. Þrumuveður eiga sér fyrst og fremst stað þar sem stöðugleiki minnkar mikið og skyndilega á stóru svæði og miklu hæðarbili, lóðréttar hreyfingar verða þá mjög ákafar, rafsvið aflagast nokkuð og ýtir undir að eldingar myndist.

Myndun íshagls eykur hleðsluskiljun (skerpir á rafsviðinu) í skýinu mikið og auðveldar þar með eldingamyndun að mun. Til þess að íshagl geti myndast verður uppstreymi að vera það mikið að haglkorn geti farið nokkrar ferðir upp og niður skýið. Hér á landi er íshagl sárasjaldgæft. Sé íshaglskorn skorið í sundur má sjá í því eins konar „árhringi“, en fjöldi þeirra segir til að nokkru hversu margar ferðir það hefur farið upp og niður í skýinu. Það sem við venjulega sjáum hérlendis og köllum hagl er tæknilega nefnt frauðhagl. Í því eru engir hringir og hefur það venjulega aðeins farið eina ferð upp í skýinu eftir að það hefur myndast. Þrumuský, sem ekki myndar íshagl, myndar einnig miklu færri eldingar en ský með íshagli. Hleðsluskiljun er þar miklu minni en í íshaglsskýjunum.Íshagl á ferð um þrumuský.

Stöðugleika er hættast þegar (i) loft hitnar meira neðantil heldur en ofantil, (ii) þegar mikið af raka loftsins þéttist snögglega en þá hlýnar loft vegna losunar dulvarma sem af þéttingunni leiðir. Ástæður þær sem liggja að baki skyndilegra stöðugleikabreytinga á stórum svæðum geta verið margs konar en ekki er fjallað um þær hér.

Loft hitnar að neðan þegar sól í heiði hitar yfirborð landsins. Loft verður þá óstöðugt og lyftist, þá þéttist stundum raki, dulvarmi losnar, loftið hitnar enn meir og uppstreymi verður öflugra. Þótt uppstreymi verði mikið rekst það alltaf uppundir veðrahvörfin en þau mynda svo stöðugt lag að enginn venjulegur óstöðugleiki getur brotist í gegn. Hér á landi eru veðrahvörfin gjarnan í 8 til 10 kílómetra hæð, en í 15 til 18 kílómetra hæð í hitabeltinu.

Raki hefst mun betur við í hlýju lofti en köldu. Dulvarmi í hlýju, röku lofti er því miklu meiri heldur en í röku og köldu. Hlýtt loft sem lyftist losar því mun meiri orku til uppstreymis heldur en kalt. Uppstreymið er því mun ákafara þar sem loft er hlýtt heldur en þar sem það er kalt. Rafsvið getur því aflagast enn meira og skyndilegar. Veðrahvörfin liggja hátt í suðlægum löndum og lóðrétt streymi getur lyft lofti mun hærra heldur en á norðurslóðum þar sem veðrahvörfin liggja neðar. Það auðveldar bæði aflögun rafsviðsins, sem og haglmyndun, sem auðveldar eldingaframleiðslu.

Af þessu má sjá hvers vegna þrumuveður eru sjaldgæf á Íslandi. Loft hér á landi er lengst af stöðugt og oft mjög stöðugt því neðsti hluti lofthjúpsins á norðurslóðum býr við mikinn hallarekstur á varmabúskap, en við útgeislun kólnar loft oftast neðanfrá. Auk þessa kælir yfirborð jarðar og sjávar allt loft sem hingað kemur að sunnan. Til að búa til meiriháttar þrumuveður þarf allt veðrahvolfið að taka þátt í lóðréttum hreyfingum. Það gerist vissulega hér á landi en veðrahvörfin eru miklu lægri hér en yfir suðlægari slóðum. Þau leggjast á allt frekara uppstreymi og því getur það ekki náð eins hátt hér. Kuldinn sér til þess að uppgufun og raki er hér mun minni en á suðlægari breiddarstigum. Landið er þar að auki það lítið að stórt þrumuveðrakerfi yfir landi dregur fljótlega inn undir sig kalt sjávarloft sem slær á uppstreymið á áhrifamikinn hátt.

Á þessu ástandi eru þó fáeinar undantekningar, hver um sig á þó við aðeins fáeina daga og dagparta á ári hverju. Fjöll hjálpa mjög til við uppstreymi, rekist óstöðugt loft á þau, og því eru þrumur algengastar hérlendis nærri háum fjöllum á sunnan- og vestanverðu landinu.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Myndir: