Desmond Bagley var enskur spennusagnahöfundur. Hann fæddist 29. október 1923 í bænum Kendal í Cumbria-héraði og lést 12. apríl 1983 á sjúkrahúsi í Southampton, eftir að hafa búið seinustu æviár sín á Ermarsundseyjunni Guernsey.
Bagley ferðaðist víða og bjó meðal annars í Suður-Afríku í 15 ár þar sem hann hóf rithöfundarferil sinn. Hann leitaði sér víða fanga í bækur sínar og spannar sögusvið þeirra ólík lönd eins og Nýja-Sjáland, Finnland, Kenía og Kanada. Sagan Út í óvissuna (e. Running Blind) gerist á Íslandi og margir muna kannski eftir samnefndum sjónvarpsþáttum sem gerðir voru eftir þeirri bók og sýndir voru í Sjónvarpinu fyrir margt löngu.

Út í óvissuna
Desmond Bagley skrifaði 16 skáldsögur (spennusögur) sem allar hafa verið þýddar á íslensku eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan. Alls hafa bækur hans verið þýddar á 22 tungumál. Auk þeirra liggja eftir hann smásögur og ritgerðir. Bækur Desmonds Bagleys voru gefnar út á Íslandi af bókaútgáfunni Suðra í þýðingum Torfa Ólafssonar, Ólafs Gíslasonar, Gísla Ólafssonar, Þorbjargar Ólafsdóttur, Óskars Bergssonar og Björns Gíslasonar.
| The Golden Keel | 1963 | Gullkjölurinn | 1965 |
| High Citadel | 1965 | Fjallavirkið | 1966 |
| Wyatt's Hurricane | 1966 | Fellibylur | 1967 |
| Landslide | 1967 | Skriðan | 1968 |
| The Vivero Letter | 1968 | Víveró-bréfið | 1969 |
| The Spoilers | 1969 | Eitursmyglarar | 1970 |
| Running Blind | 1970 | Út í óvissuna | 1971 |
| The Freedom Trap | 1971 | Gildran | 1972 |
| The Tightrope Men | 1973 | Línudansarar | 1973 |
| The Snow Tiger | 1975 | Í fannaklóm | 1975 |
| The Enemy | 1977 | Óvinurinn | 1977 |
| Flyaway | 1978 | Leitin | 1978 |
| Bahama Crisis | 1980 | Samsærið | 1980 |
| Windfall | 1982 | Arfurinn | 1982 |
| Night Of Error | 1984 | Í næturvillu | 1984 |
| Juggernaut | 1985 | Trölleykið | 1985 |