
Þrátt fyrir að fullkomnar tölur hafi verið þekktar í langan tíma á enn eftir að svara mörgum spurningum um þær. Til dæmis er ekki vitað hvort til sé fullkomin oddatala, aðeins 44 fullkomnar tölur eru þekktar, og enginn veit hvort fullkomnu tölurnar eru óendanlega margar. Reyndar er náið samband á milli sléttra fullkomna talna og svokallaðra Mersenne-frumtalna, því stærðfræðingarnir Evklíð (um 300 f.Kr.) og Euler (1707 - 1783) sönnuðu að sérhverja slétta fullkomna tölu má skrifa á forminu
2n-1(2n-1),þar sem 2n-1 er Mersenne-frumtala. Um Mersenne-frumtölur má lesa meira í svari sama höfundar við spurningunni Hver er stærsta þekkta frumtalan?
Fullkomnar tölur hafa ekki fangað athygli stærðfræðinga að nærri jafn miklu leyti og frumtölurnar. Erfitt er að segja til um ástæðurnar sem liggja þar að baki, en sennilega skiptir einhverju máli að ólíkt frumtölunum eru fullkomnu tölurnar nokkuð afmarkað fyrirbæri. Þær hafa ekki skotið upp kollinum á eðlilegan hátt í stærðfræði, og því hafa helstu spurningarnar um eðli þeirra setið á hakanum. Heimildir og mynd:
- Fullkomnar tölur á Wikipedia.
- Mynd fengin af Flickr síðu pshutterbug. Birt undir Creative Commons skírteini.