Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:33 • Sest 01:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:46 • Síðdegis: 14:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:08 • Síðdegis: 20:46 í Reykjavík

Hvort bráðnar snjór og ís betur í roki og rigningu eða roki og sterku sólskini?

Trausti Jónsson

Til að geta svarað þessari spurningu þarf helst að vita fleira. Hver er forsaga snævarins, er hann nýr eða gamall, hreinn eða skítugur? Hver er lofthitinn, er hiti ofan eða neðan frostmarks? Hvert er rakastigið, er loftið ofan snævarins þurrt eða rakamettað? Hvaða árstíð er, hversu hátt er sól á lofti, hversu langur er þá dagurinn?

Snjór endurkastar stórum hluta sólarljóssins og nýsnævi speglar megninu af því út í geiminn aftur. Þess vegna bræðir sólin nýsnævi illa, þegar hún er lágt á lofti bræðir hún nánast ekki neitt. Við vitum þó að hlutfallið er ekki alveg 100%, það sést til dæmis af því að skíma er í snjóhúsum séu veggir þeirra þunnir, annars væri þar svartamyrkur. Lítilræði af geislum kemst í gegnum fáeina tugi cm þykkt snjólag ef sól er hærra á lofti en 12 til 15 gráður. Þá hitnar yfirborð jarðar undir snjónum og varmageislar og leiðni frá því bræða þá mjöllina neðanfrá. Þessi áhrif sólarinnar eru þó lítil neðan 10 til 15 cm. Það er um miðjan febrúar sem steinar undir snjó geta farið að bræða frá sér yfir hádaginn. Sé lofthiti neðan frostmarks er bráðnunin heldur rýr. Sólskin er aðeins að deginum og bráðnun af þess völdum stendur því mjög stutt á vetrum og sólbráð er nær engin í svartasta skammdeginu.Yfir háveturinn verður ekki mikil bráðnun á svona björtum og fallegum degi. Á þeim árstíma er yfirleitt meiri bráðnun í hláku og rigningu.

Endurskinshlutfall íss er líka mjög hátt, en er þó mjög háð sólarhæð. Íslenskur ís er sjaldan alveg hreinn. Ryk og sandörður í ísnum hitna í miklu sólarljósi og bræða hann furðuhratt. Stuttbylgjugeislar geta að deginum brætt ís ef lofthiti er undir frostmarki, bráðnunin er hins vegar treg nema hiti sé í lofti mestallan eða allan sólarhringinn.

Mikla orku þarf til að bræða ís, enn meira þarf til að hann gufi beint upp. Varmaorkan sem bræðir ísinn á sér misjafnan uppruna: Frá sól (stuttbylgjugeislun), frá regni (leiðni), úr loftinu ofan hans (leiðni eða varmageislun) eða að neðan úr jörðinni (oftast leiðni). Auk þess getur þyngdaraflið komið við sögu, með því að flytja vatn ýmist niður í snjóinn/ísinn eða burt frá bráðnunarsvæðinu þannig að nýtt orkuríkara (hlýrra) vatn komi í stað þess sem kólnar við að bræða ísinn. Einnig getur núningur og varmi myndast þegar vatn rennur niður eftir ísyfirborði, orkan í bráðnunina kemur þá frá þyngdaraflinu – staðorka losnar.

Rigning hefur áhrif á snjóbráðnun beint, enda er hún hlýrri en ísinn, auk þess sem hún getur hripað niður í snjóinn (síður í ís) og þar með hafið bræðslu á snjó langt undir yfirborði, miklu neðar en stuttbylgju- eða varmageislun sem að ofan getur.

Í sólskini, hlýjum og þurrum vindi verður mikil bráðnun/uppgufun. Þá blandast það kalda lag sem liggur ofan á ísnum vel og sífelld aðfærsla er á hlýju og þurru lofti í stað þess sem kólnar og mettast samhliða bráðnuninni. Í rigningu gufar sáralítið upp.

Í stuttu máli er svarið við spurningunni þetta: Yfir háveturinn er það yfirleitt hláka og rigning sem mest bræðir af snjó. Hlutur sólar og beinnar uppgufunar íss og snævar vex þegar kemur fram á vorið og þegar sól er hæst á lofti, dagur lengstur og loft þurrast getur hann orðið yfirgnæfandi. Jökla- og hjarnbráðnun á sumrin er sennilega langmest við þessi skilyrði fremur en í rigningu.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: The Fedors. Sótt 27. 4. 2009.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

28.4.2009

Spyrjandi

Guðlaug Hartmannsdóttir
Harpa Vilbergsdóttir

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvort bráðnar snjór og ís betur í roki og rigningu eða roki og sterku sólskini?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2009. Sótt 16. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=31895.

Trausti Jónsson. (2009, 28. apríl). Hvort bráðnar snjór og ís betur í roki og rigningu eða roki og sterku sólskini? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=31895

Trausti Jónsson. „Hvort bráðnar snjór og ís betur í roki og rigningu eða roki og sterku sólskini?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2009. Vefsíða. 16. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=31895>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvort bráðnar snjór og ís betur í roki og rigningu eða roki og sterku sólskini?
Til að geta svarað þessari spurningu þarf helst að vita fleira. Hver er forsaga snævarins, er hann nýr eða gamall, hreinn eða skítugur? Hver er lofthitinn, er hiti ofan eða neðan frostmarks? Hvert er rakastigið, er loftið ofan snævarins þurrt eða rakamettað? Hvaða árstíð er, hversu hátt er sól á lofti, hversu langur er þá dagurinn?

Snjór endurkastar stórum hluta sólarljóssins og nýsnævi speglar megninu af því út í geiminn aftur. Þess vegna bræðir sólin nýsnævi illa, þegar hún er lágt á lofti bræðir hún nánast ekki neitt. Við vitum þó að hlutfallið er ekki alveg 100%, það sést til dæmis af því að skíma er í snjóhúsum séu veggir þeirra þunnir, annars væri þar svartamyrkur. Lítilræði af geislum kemst í gegnum fáeina tugi cm þykkt snjólag ef sól er hærra á lofti en 12 til 15 gráður. Þá hitnar yfirborð jarðar undir snjónum og varmageislar og leiðni frá því bræða þá mjöllina neðanfrá. Þessi áhrif sólarinnar eru þó lítil neðan 10 til 15 cm. Það er um miðjan febrúar sem steinar undir snjó geta farið að bræða frá sér yfir hádaginn. Sé lofthiti neðan frostmarks er bráðnunin heldur rýr. Sólskin er aðeins að deginum og bráðnun af þess völdum stendur því mjög stutt á vetrum og sólbráð er nær engin í svartasta skammdeginu.Yfir háveturinn verður ekki mikil bráðnun á svona björtum og fallegum degi. Á þeim árstíma er yfirleitt meiri bráðnun í hláku og rigningu.

Endurskinshlutfall íss er líka mjög hátt, en er þó mjög háð sólarhæð. Íslenskur ís er sjaldan alveg hreinn. Ryk og sandörður í ísnum hitna í miklu sólarljósi og bræða hann furðuhratt. Stuttbylgjugeislar geta að deginum brætt ís ef lofthiti er undir frostmarki, bráðnunin er hins vegar treg nema hiti sé í lofti mestallan eða allan sólarhringinn.

Mikla orku þarf til að bræða ís, enn meira þarf til að hann gufi beint upp. Varmaorkan sem bræðir ísinn á sér misjafnan uppruna: Frá sól (stuttbylgjugeislun), frá regni (leiðni), úr loftinu ofan hans (leiðni eða varmageislun) eða að neðan úr jörðinni (oftast leiðni). Auk þess getur þyngdaraflið komið við sögu, með því að flytja vatn ýmist niður í snjóinn/ísinn eða burt frá bráðnunarsvæðinu þannig að nýtt orkuríkara (hlýrra) vatn komi í stað þess sem kólnar við að bræða ísinn. Einnig getur núningur og varmi myndast þegar vatn rennur niður eftir ísyfirborði, orkan í bráðnunina kemur þá frá þyngdaraflinu – staðorka losnar.

Rigning hefur áhrif á snjóbráðnun beint, enda er hún hlýrri en ísinn, auk þess sem hún getur hripað niður í snjóinn (síður í ís) og þar með hafið bræðslu á snjó langt undir yfirborði, miklu neðar en stuttbylgju- eða varmageislun sem að ofan getur.

Í sólskini, hlýjum og þurrum vindi verður mikil bráðnun/uppgufun. Þá blandast það kalda lag sem liggur ofan á ísnum vel og sífelld aðfærsla er á hlýju og þurru lofti í stað þess sem kólnar og mettast samhliða bráðnuninni. Í rigningu gufar sáralítið upp.

Í stuttu máli er svarið við spurningunni þetta: Yfir háveturinn er það yfirleitt hláka og rigning sem mest bræðir af snjó. Hlutur sólar og beinnar uppgufunar íss og snævar vex þegar kemur fram á vorið og þegar sól er hæst á lofti, dagur lengstur og loft þurrast getur hann orðið yfirgnæfandi. Jökla- og hjarnbráðnun á sumrin er sennilega langmest við þessi skilyrði fremur en í rigningu.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: The Fedors. Sótt 27. 4. 2009....