Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er snjórinn hvítur?

Sýnilegt ljós spannar öldulengdarbilið 400 - 700 nanometrar (nm: nanómetri er einn milljónasti hluti úr millimetra). Geislun á stystu öldulengdunum skynjum við sem blátt ljós, þá tekur við grænt og gult og á þeim lengstu sem rautt ljós. Blöndu af geislun á öllum öldulengdum í álíka styrk skynjum við sem hvítt ljós.

Snjór er samsettur úr örsmáum ískristöllum með fjölbreytta lögun. Hver stakur kristall er gegnsær en speglar nokkrum prósentum af þeirri ljósorku sem á hann fellur, líkt og gler. Hann drekkur sáralítið í sig af geislun. Þar sem kristallarnir snúa á ýmsa vegu dreifist þessi speglun í allar áttir, og það sem ekki speglast á fyrsta snjókorni sem geislinn mætir speglast á þeim næstu. Snjórinn endurvarpar þess vegna því sem næst allri geislun sem á hann fellur með dreifðu endurkasti, óháð öldulengd, og fær þess vegna hvíta áferð í dagsbirtu. Eftir að skyggja tekur ber meira á bláa litnum en þeim rauða í þeirri birtu sem eftir er, svo að snjórinn fær þá blárri áferð í rökkrinu. Undir ljósastaur með natrínperu, sem lýsir með gulleitu ljósi, dreifir snjórinn því ljósi sem á hann fellur og virðist því gulur.

Jöklafarar og aðrir sem eru á ferð í sólskini og snjó þurfa að verja sig sérstaklega gegn birtuálagi frá snjónum vegna þess að hann endurkastar einmitt nær öllum geislum sem á hann falla.

Þegar snjórinn bráðnar og verður að vökva kann okkur að virðast undarlegt hvað verði um „þetta hvíta“. En þá hverfa kristallafletirnir sem stóðu að margspegluninni sem dreifði ljósinu og í staðinn endurkastast hluti ljóssins á einfaldan hátt frá yfirborði vatnsins og hinn hluti þess fer á jafneinfaldan hátt gegnum vatnið. Hvíti liturinn hverfur. Það sama gerist ef snjórinn þjappast nægilega saman til að mynda stærri ískristalla eins og sést í bláleitu stáli skriðjökla.

Sami spyrjandi lagði einnig fram þá spurningu, af hverju við getum séð sjálf okkur í spegli. Við höfum kosið að svara þessum spurningum í tvennu lagi en lesandinn getur gert einfalda tilraun sem skýrir það sem sagt hefur verið í báðum svörunum um gegnsæ efni, dreift endurvarp, gráa og hvíta fleti:

Fylltu glært glas að fjórðungi með vatni og lýstu frá hlið með rauðum bendigeisla gegnum vatnið. Fylgstu með geislanum ofan frá þegar dropum af mjólk er bætt í vatnið. Við fyrstu dropana verður vökvinn gráleitur og geislinn sýnilegur í vökvanum. Þegar meiri mjólk er bætt í dofnar geislinn þegar innar dregur í glasið og meira hefur dreifst úr honum í allar áttir, og vökvinn tekur á sig hvítara yfirbragð.

Mynd: Snjór á trjám - Sótt 01.06.10

Útgáfudagur

16.2.2000

Spyrjandi

Hrund Ólafsdóttir 15 ára, Elsa Gehringer Magnúsdóttir 14 ára

Höfundur

Ari Ólafsson

dósent í eðlisfræði við HÍ

Tilvísun

Ari Ólafsson. „Af hverju er snjórinn hvítur?“ Vísindavefurinn, 16. febrúar 2000. Sótt 20. maí 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=112.

Ari Ólafsson. (2000, 16. febrúar). Af hverju er snjórinn hvítur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=112

Ari Ólafsson. „Af hverju er snjórinn hvítur?“ Vísindavefurinn. 16. feb. 2000. Vefsíða. 20. maí. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=112>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Sigríður Rut Franzdóttir

1976

Sigríður Rut Franzdóttir stundar rannsóknir á sviði sameindalíffræði, taugalíffræði og þroskunarfræði. Rannsóknaverkefni hennar snúast m.a. um að skilgreina hlutverk ákveðinna gena í taugakerfi flugna og manna.