Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Get ég höfðað mál gegn sjálfum mér?

Sigurður Guðmundsson

Svarið við spurningunni er bæði já og nei. Þú getur að sjálfsögðu stefnt sjálfum þér en reglur einkamálaréttarfars um aðild að dómsmáli og sakarefni valda því að málinu yrði vísað frá og væri þar af leiðandi ekki tekið til efnislegrar meðferðar.

Um þetta efni gilda lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála (aðallega kaflar III og IV) og ólögfestar reglur einkamálaréttarfars. Reyndar taka lögin um meðferð einkamála ekki með berum orðum á þessu viðfangsefni en talið er að í réttarfari gildi sú óskráða regla að aðilar dómsmáls verði að vera tveir – sækjandi og verjandi, stefnandi og stefndi – enda getur sami maður ekki átt kröfu á hendur sjálfum sér og þannig haft lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.

Þetta hefur komið skýrlega fram í dómum Hæstaréttar, svo sem í svökölluðum Mývatnsdómi frá árinu 1982 (bls. 182 í dómasafni Hæstaréttar). Þar stefndu landeigendur og tveir ábúendur jarða sem lágu að Mývatni, ríkissjóði fyrir leyfislausa töku ríkisins á kísilgúr af botni Mývatns. Þar sem eigandi ábúðarjarðanna tveggja var í raun ríkið sjálft var kröfugerð þess aðila vísað frá dómi. Hæstiréttur taldi að sami aðili, í þessu tilviki hið opinbera, gæti ekki verið sækjandi og verjandi í sama máli.

Hins vegar er hægt að höfða mál gegn eins mörgum einstaklingum og verða vill svo lengi sem skilyrðum 18. og 19. gr. laganna um sameiginlega aðild þeirra er fullnægt og einnig er hægt að höfða mál gegn óþekktum aðila, svokölluð ógildingar- eða eignardómsmál, sbr. 120. og 121. gr. laganna, en þá er stefnan birt í Lögbirtingarblaðinu.

Heimild
  • Markús Sigurbjörnsson, Einkamálaréttarfar, Reykjavík 1993.

Höfundur

laganemi við HÍ

Útgáfudagur

3.3.2003

Spyrjandi

Elmar Unnsteinsson, f. 1984

Tilvísun

Sigurður Guðmundsson. „Get ég höfðað mál gegn sjálfum mér?“ Vísindavefurinn, 3. mars 2003. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3191.

Sigurður Guðmundsson. (2003, 3. mars). Get ég höfðað mál gegn sjálfum mér? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3191

Sigurður Guðmundsson. „Get ég höfðað mál gegn sjálfum mér?“ Vísindavefurinn. 3. mar. 2003. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3191>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Get ég höfðað mál gegn sjálfum mér?
Svarið við spurningunni er bæði já og nei. Þú getur að sjálfsögðu stefnt sjálfum þér en reglur einkamálaréttarfars um aðild að dómsmáli og sakarefni valda því að málinu yrði vísað frá og væri þar af leiðandi ekki tekið til efnislegrar meðferðar.

Um þetta efni gilda lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála (aðallega kaflar III og IV) og ólögfestar reglur einkamálaréttarfars. Reyndar taka lögin um meðferð einkamála ekki með berum orðum á þessu viðfangsefni en talið er að í réttarfari gildi sú óskráða regla að aðilar dómsmáls verði að vera tveir – sækjandi og verjandi, stefnandi og stefndi – enda getur sami maður ekki átt kröfu á hendur sjálfum sér og þannig haft lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.

Þetta hefur komið skýrlega fram í dómum Hæstaréttar, svo sem í svökölluðum Mývatnsdómi frá árinu 1982 (bls. 182 í dómasafni Hæstaréttar). Þar stefndu landeigendur og tveir ábúendur jarða sem lágu að Mývatni, ríkissjóði fyrir leyfislausa töku ríkisins á kísilgúr af botni Mývatns. Þar sem eigandi ábúðarjarðanna tveggja var í raun ríkið sjálft var kröfugerð þess aðila vísað frá dómi. Hæstiréttur taldi að sami aðili, í þessu tilviki hið opinbera, gæti ekki verið sækjandi og verjandi í sama máli.

Hins vegar er hægt að höfða mál gegn eins mörgum einstaklingum og verða vill svo lengi sem skilyrðum 18. og 19. gr. laganna um sameiginlega aðild þeirra er fullnægt og einnig er hægt að höfða mál gegn óþekktum aðila, svokölluð ógildingar- eða eignardómsmál, sbr. 120. og 121. gr. laganna, en þá er stefnan birt í Lögbirtingarblaðinu.

Heimild
  • Markús Sigurbjörnsson, Einkamálaréttarfar, Reykjavík 1993.
...