Áttfætlur (Arachnida) er flokkur innan fylkingar liðfætlna (Arthropoda). Til áttfætlna teljast dýr sem eru með 4 pör af fótum og tvískiptan líkama. Þær skortir einnig fálmara og vængi. Til áttfætlna teljast köngulær (Araneae), áttfætlumaurar (Acari) eða mítlar, langfætlur (Opiliones), sporðdrekar (Scorpiones), drekar (Pseudoscorpiones), líkir sporðdrekum en hafa ekki hala með eiturbroddi, og nokkrir minni og lítt þekktir ættbálkar. Sá reginmunur er á áttfætlum og skordýrum (Insecta) að skordýr hafa þrískiptan líkama, fálmara og vængi en skordýr eru einnig liðfætlur og þar liggur skyldleiki þessara flokka.
Í dag eru þekktar rúmlega 75.000 tegundir af áttfætlum og er fjölda nýrra tegunda lýst árlega, jafnvel um 1.000 tegundir á hverju ári. Langflestar tegundir áttfætlna eru innan ættbálks köngulóa eða um 35.000 tegundir, en til áttfætlumaura eða mítla teljast um 30.000 tegundir. Eflaust er heildarfjöldi mítla margfalt hærri þar sem þeir eru smáir og urmull tegunda lifir á lítt þekktum svæðum í regnskógum heimsins. Margir fræðimenn telja að heildarfjöldi tegunda áttfætlna sé nálægt einni milljón.

Myndir:
- Af vefsetri National Institute of Allergy and Infectious Diseases
- Af vefsetrinu Reptile Gardens