Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum.Gjaldið er nákvæmlega skilgreint í lögunum:
- Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða.
- Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr.
- Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr.
- Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.
Sjálf gjaldtakan er ekki ný af nálinni. Hún var fyrst heimiluð með lögum nr. 78/1984 sem breyttu höfundalögunum. Þá var gjaldið sett á auð bönd og/eða upptökutæki. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi, sem síðar varð að lögum nr. 78/1984, sagði að eintakagerð til einkanota (“kópering”) væri orðin mjög útbreidd og til að stemma stigu við þeirri hagsmunaröskun, sem rétthafar höfundarréttar þyrftu að þola vegna þessa, væri rétt að lögfesta gjald á auð bönd/og eða upptökutæki, sem myndi renna til rétthafanna.
Það kann að hljóma undarlega að hefja gjaldtöku á öllum búnaði, sem hægt sé að nota til afritunar, þó svo að ekki nema hluti búnaðarins mundi í raun vera notaður í þeim tilgangi. En þetta var einfaldlega sú leið sem löggjafinn taldi henta best til að mæta þeim tekjumissi sem höfundar, listflytjendur og framleiðendur þurftu að þola vegna tækniframfara á þessu sviði.
Með lögum nr. 60/2000 var 11. gr. höfundalaganna breytt aftur þannig að stefgjaldið tók einnig til stafræns búnaðar sem hægt væri að nota við afritun, enda hafði tækniþróun verið ör frá setningu stefgjaldsins. Lög nr. 60/2000 voru einnig sett til að samræma höfundalögin alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda á sviði hugverkaréttar.