Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi og hvert er hlutfallið miðað við aðra?
Árlega greinast 546 karlar og 541 kona með krabbamein á Íslandi sé miðað við meðaltal áranna 1997-2001. Fjöldinn eykst með ári hverju, sem skýrist að miklu leyti af því að hlutfall eldra fólks er að hækka, en nýgengi krabbameina (líkindin á að greinast með krabbamein) eykst mjög með aldrinum.
Norðurlöndin færa öll krabbameinsskrár sem eru í hæsta gæðaflokki og ná til allra íbúa landanna. Þær hafa verið haldnar í áratugi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir mismunandi aldursdreifingu milli Norðurlandanna (svo kölluð aldursstöðlun) er nýgengi krabbameina svipað hjá Íslendingum, Dönum og Norðmönnum, en heldur lægra hjá Finnum og Svíum.
Þetta gildir þegar öll krabbamein eru tekin saman sem einn hópur, en þess ber að geta að nýgengi einstakra meina er talsvert breytilegt milli landa. Til dæmis er nýgengi magakrabbameins hæst á Íslandi af Norðurlöndunum, þótt það hafi lækkað mikið síðustu áratugi. Nýgengi lungnakrabbameins hjá konum á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í heiminum, sem skýrist af því að hér urðu reykingar algengar meðal kvenna fyrr en í flestum öðrum löndum, þar með töldum hinum fjórum Norðurlöndunum.
Samanburð við flestar aðrar þjóðir verður að taka með fyrirvara því að skráning krabbameina er mjög misjöfn eftir löndum. En ef aldursstaðlað nýgengi allra krabbameina á Íslandi er borið saman við meðalgildi landa Evrópusambandsins (1999) kemur í ljós að nýgengi hjá íslenskum körlum er svipað og meðalgildið, en hjá íslenskum konum er það hátt fyrir ofan meðalgildið.
Samanburður við Bandaríkin og Kanada er hagstæðari, því að nýgengi hjá íslenskum körlum er mun lægra nýgengi en í þessum löndum, en íslenskar konur eru á svipuðu róli og þær bandarísku og kanadísku.
Hjá þjóðum sem byggja aðra heimshluta er nýgengi krabbameina oft lægra en hjá vestrænum þjóðum. Ef Japan er tekið sem dæmi, þá er nýgengi krabbameina svipað hjá japönskum körlum og þeim íslensku, en hjá konunum er það mun lægra en hjá þeim íslensku og einnig nokkru fyrir neðan miðgildi Evrópusambandslandanna. Sérstaða japönsku kvennanna byggist að mestu á lágri tíðni brjóstakrabbameins og lungnakrabbameins.
Samantekið má segja að á Íslandi sé krabbameinsáhætta hjá körlum svipuð og í löndum Evrópusambandsins, en lægri en í löndum Norður-Ameríku. Hjá íslenskum konum er áhættan nokkru hærri en í löndum Evrópusambandsins, en svipuð og í löndum Norður-Ameríku.
Sjá einnig önnur svör um krabbamein, til dæmis:
Laufey Tryggvadóttir. „Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2003, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3400.
Laufey Tryggvadóttir. (2003, 7. maí). Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3400
Laufey Tryggvadóttir. „Hversu margir greinast árlega með krabbamein á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2003. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3400>.