Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er rétt að ein af algengustu dánarorsökum vegna krabbameins meðal kvenna í Evrópu og Norður-Ameríku er brjóstakrabbamein. Í þessum heimshluta hefur tíðni sjúkdómsins farið vaxandi á undanförnum áratugum. Á árabilinu 2019-2023 greindust árlega að meðaltali 266 konur með brjósakrabbamein og að meðaltali létust 50 konur á ári úr sjúkdómnum. Karlar geta líka fengið brjóstakrabbamein þótt það sé ekki algengt, að meðaltali greinast tveir á ári. Mikil umræða og fræðsla hefur verið um forvarnir, sem einkum beinast að reglulegri krabbameinsleit, meðal annars með sjálfskoðun og brjóstamyndatökum. Allt beinist þetta að því að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi en þá er árangur meðferðar góður og varanleg lækning fæst í meira en 90% tilfella.
Á sama tíma og nýgengi (fjöldi greindra tilfella á ári) brjóstakrabbameins hefur farið vaxandi, hefur tíðni sumra annarra tegunda krabbameins farið hratt minnkandi. Má þar einkum nefna magakrabbamein en fyrir fáeinum áratugum var tíðni þess einna hæst á Íslandi í öllum heiminum og það var algengasta tegund krabbameins hér á landi. Árið 1990 dóu 34 einstaklingar úr magakrabbameini á Íslandi en það er mjög lítið miðað við það sem þekktist áður fyrr. Tíðnin hefur svo haldið áfram að lækka og á árabilinu 2019-2023 var meðal fjöldi látinna vegna magakrabbameins kominn niður í 14 á ári. Lækkandi dánartíðni af völdum magakrabbameins er bæði vegna þess að færri fá sjúkdóminn en áður og vegna bættrar meðferðar og greiningar. Ekki er vitað af hverju þessar sveiflur í nýgengi krabbameins í brjóstum og maga stafa. Það sem gefur bestan árangur í baráttunni við brjóstakrabbamein er að greina sjúkdóminn nógu snemma vegna þess að þá er árangur meðferðar mun betri en annars.
Verulegur munur á tíðni brjóstakrabbameins er milli þjóða og kynstofna. Tíðnin er hæst í hinum svo kallaða vestræna heimi (Evrópa og N-Ameríka) en lægst í nokkrum löndum Asíu. Þarna gætu komið við sögu erfðir, mataræði eða eitthvað annað.
Til vinstri má sjá heilbrigt brjóst en til hægri má sjá brjóstakrabbamein.
Um orsakir brjóstakrabbameins er ekki mikið vitað. Mataræði virðist hafa áhrif á tíðni ýmissa tegunda krabbameins og mikil fituneysla virðist auka hættu á brjóstakrabbameini. Eitt af því sem mikið hefur verið rætt og rannsakað án þess að skýr niðurstaða hafi fengist eru utanaðkomandi kynhormón af östrógengerð. Slík hormón eru í flestum tegundum getnaðarvarnataflna, í hormónameðferð sem gefin er við og eftir tíðahvörf og sem mengun í umhverfinu. Sum skordýraeitur og illgresiseyðandi efni hafa östrógenverkun og er að finna mjög víða sem mengun. Margt bendir til að getnaðarvarnatöflur og hormónameðferð eftir tíðahvörf auki tíðni brjóstakrabbameins ef þessi lyf eru notuð mjög lengi, en þessi aukning er talin vera mjög lítil. Hugsanlegt er talið að mengandi efni með östrógenverkun í umhverfinu minnki frjósemi karlmanna og karldýra af ýmsum tegundum, en ekki er vitað hvort þau hafi skaðleg áhrif á konur. Lyf og náttúrumeðul gætu einnig komið við sögu, við þekkjum aldrei allar aukaverkanir lyfja og sum náttúrumeðul, til dæmis ginseng, hafa östrógen-áhrif.
Ýmsir aðrir umhverfisþættir hafa verið rannsakaðir án þess að skýr niðurstaða hafi fengist og má þar nefna áfengi, tóbak og segulsvið. Faraldsfræðilegar rannsóknir benda eindregið til þess að erfðir, hormónar og umhverfisþættir ráði því hvort einhver tiltekinn einstaklingur fái brjóstakrabbamein eða ekki. Hér skortir meiri rannsóknir og meðan þær hafa ekki verið gerðar er lítið um forvarnir annað en regluleg krabbameinsskoðun.
Þekkt eru tvö gen (erfðastofnar) sem auka hættu á brjóstakrabbameini en þau skýra ekki nema lítið brot af sjúkdómstilfellunum (líklega um 5%). Þær konur sem hafa þessi gen eru ekki margar en þær eru í verulegri hættu að fá sjúkdóminn og öðru geninu fylgir einnig aukin hætta á krabbameini í eggjastokkum. Engu að síður er það svo að 15-25% kvenna sem fá brjóstakrabbamein hafa ættarsögu um sjúkdóminn og kona sem á móður, systur eða dóttur sem hefur fengið sjúkdóminn er í talsvert meiri hættu en aðrar.
Sá áhættuþáttur sem almennt vegur þyngst er aldur og þar virðast skipta mestu þær hormónabreytingar sem fylgja aldrinum. Allt að 80% brjóstakrabbameina kemur í konum sem eru yfir fimmtugt og eftir tíðahvörf vex tíðni sjúkdómsins mjög hratt. Tíðasaga kemur við sögu vegna þess að áhættan er meiri hjá konum sem byrjuðu að hafa tíðir ungar (yngri en 11 ára) og einnig hjá þeim sem hafa tíðahvörf seint (eldri en 55 ára). Það skiptir einnig máli hvenær konur eiga sitt fyrsta barn, þær sem eiga fyrsta barn eftir þrítugt eru í helmingi meiri hættu að fá brjóstakrabbamein en konur sem eiga fyrsta barn fyrir tvítugt. Áhættan er einnig meiri hjá konum sem eignast ekkert barn.
Út frá öllum þessum upplýsingum má áætla gróflega áhættu hverrar konu á að fá brjóstakrabbamein. Þær konur sem greinast með mikla eða talsverða áhættu geta valið milli nokkurra kosta: þær geta farið í reglulegt eftirlit til að hugsanlegt krabbamein greinist fljótt, þær geta tekið lyf sem minnkar verulega hættuna á krabbameini eða valið þá leið að láta fjarlægja bæði brjóstin í forvarnaskyni. Allar þessar leiðir hafa sína kosti og galla. Gott eftirlit er líklega í flestum tilvikum besti kosturinn en er erfitt hjá konum sem eru með hnútótt brjóst eða þegar tekin hafa verið mörg nálarsýni.
Meðferð byggist nær alltaf á skurðaðgerð en oftast er einnig beitt geislameðferð og stundum meðferð með krabbameinslyfjum. Meðferðin er valin út frá staðsetningu og stærð æxlisins og því hvort hætta sé talin á meinvörpum. Þegar sjúkdómurinn greinist á byrjunarstigi er æxlið fjarlægt og síðan gefin geislameðferð og árangur slíkrar meðferðar er mjög góður. Áður fyrr voru gerðar mjög stórar skurðaðgerðir þar sem allt brjóstið og undirliggjandi vefir voru fjarlægðir ásamt eitlum í handarkrika. Komið hefur í ljós að jafn góður árangur fæst með því að fjarlægja aðeins þann hluta brjóstsins þar sem krabbameinið er staðsett ásamt eitlum úr handarkrika og gefa síðan geislameðferð á brjóstið. Þessir eitlar eru fjarlægðir vegna þess að meinvörp frá æxlinu verða oftast fyrst þar. Með þessu móti má varðveita stóran hluta brjóstsins. Ef meinvörp finnast í eitlum úr handarkrika er venjulega bætt við meðferð með krabbameinslyfjum. Brjóstakrabbamein er alltaf hættulegur sjúkdómur en ef það greinist á byrjunarstigi er árangur meðferðar góður.
Mynd:
Magnús Jóhannsson. „Af hverju er brjóstakrabbamein kvenna svona algengt og hver eru meðferðarúrræðin?“ Vísindavefurinn, 22. febrúar 2000, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=135.
Magnús Jóhannsson. (2000, 22. febrúar). Af hverju er brjóstakrabbamein kvenna svona algengt og hver eru meðferðarúrræðin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=135
Magnús Jóhannsson. „Af hverju er brjóstakrabbamein kvenna svona algengt og hver eru meðferðarúrræðin?“ Vísindavefurinn. 22. feb. 2000. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=135>.