
Seyti kynstýrihormónanna er undir stjórn undirstúku heilans sem fylgist með magni kynhormónanna í blóði og örvar seyti viðeigandi stýrihormóns ef hormónastyrkur lækkar. Þannig er tíðahring konunnar stjórnað með því sem kallast neikvæð afturverkun. Undirstúkan gerir ekki greinarmun á kynhormónum sem líkaminn myndar sjálfur og þeim sem eru upprunnin í getnaðarvarnarpillu og berast út í blóðið úr meltingarveginum. Þegar pilluhormónin eru komin út í blóðið metur undirstúkan ástandið þannig að eggjastokkar hafi verið mjög virkir. Hún dregur því úr örvun á seyti kynstýrihormóna frá kirtildingli sem hægja á eða stöðva örvun eggjastokka og þeir verða óvirkir; mynda ekki estrógen og prógesterón, þroska ekki egg, undirbúa ekki legslímuna og því verður ekki getnaður. Einnig myndast þykkur slímtappi í leghálsinum sem hindrar sáðfrumur í að komast upp í legið og þaðan í eggrásir. Pilluhormón komast reyndar að einhverju leyti til legslímunnar, svo að hún þykknar svolítið. Þess vegna verða smávegis blæðingar þegar pilluskammtur klárast og hormónalausir dagar standa yfir. Öryggi samsettra getnaðarvarnarpilla er mjög mikið eða 99%. Smápillutegundir sem innihalda eingöngu gerviprógesterón eru teknar á hverjum degi, líka á meðan á tíðum stendur, og koma í veg fyrir getnað með því að valda myndun slímtappa í leghálsinum ásamt því sem legslíman verður of þunn til að taka á móti frjóvguðu eggi. Í sumum tilfellum hamla smápillur einnig egglosi. Notendur smápilla eru miklu færri en notendur samsettra tegunda og gjarnan eldri. Öryggi smápilla er nánast jafnmikið og samsettra tegunda eða um 98%. Konur sem þola illa samsettar pillur geta oft notað smápillu. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaða aðferðir þekktust fyrr á öldum til að koma í veg fyrir þungun? eftir Sóleyju S. Bender
- Er hið örugga tímabil kvenna til? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Duga smokkar alltaf? Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Er til getnaðarvarnarpilla eða -sprauta fyrir karlmenn? eftir Berglindi Júlíusdóttur
- Hvernig verkar hettan sem getnaðarvörn? Er hún jafnörugg og aðrar getnaðarvarnir? af Doktor.is
- Þyngist maður við það að byrja á pillunni? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Combined Oral Contraceptive Pill á Patient UK. Skoðað 25. 9. 2009.
- The mini-Pill (progestogen-only Pill, or POP) á Netdoctor. Skoðað 25. 9. 2009.
- Mynd: Telegraph.co.uk. Sótt 28. 9. 2009.