Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Geta börn undir 15 ára haft kynmök? Er það leyfilegt þótt þau séu ekki orðin kynþroska?
Hvað þarf maður að vera orðinn gamall samkvæmt lögum til að mega stunda kynlíf?
Eins og fram kemur í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er kynlíf? hefur hugtakið kynlíf mjög víða merkingu og eru hin eiginlegu kynmök aðeins hluti þess sem felst í hugtakinu. Í svarinu hér á eftir er gengið út frá því að verið sé að spyrja um kynmök en ekki kynlíf í sinni víðustu merkingu.
Spurningarnar um hvort gáfulegt sé eða ekki að byrja snemma að hafa kynmök og hvort leyfilegt sé að hafa kynmök á ungum aldri lúta að tveimur meginþáttum. Annars vegar er það einstaklingurinn sjálfur og þroski hans og hins vegar sá rammi sem fjölskyldan eða lögin setja um hvað sé leyfilegt og hvað ekki.
Mörg rök styðja það að betra sé fyrir einstaklinginn að bíða með að hafa kynmök þar sem það stuðli fremur að kynheilbrigði hans. Unglingur sem byrjar snemma (15 ára eða yngri) að hafa kynmök er líklegri að stunda áhættusama kynlífshegðun (til dæmis að nota síður getnaðarvarnir) borið saman við þá sem eldri eru (Glei, 1999; Sóley S. Bender, 2003). Það er talið stafa af því að einstaklingurinn er oft óöruggur með sjálfan sig og vitsmunaþroski hans skemur á veg kominn sem gerir honum erfiðara um vik að fara eftir eigin sannfæringu um hvað sé mikilvægt í kynlífi. Hann á að jafnaði erfiðara með að segja nei og setja mörk á hegðun annarra, erfiðara með að vera ákveðinn og gera til dæmis kröfu um notkun smokks (Keller, Duerst og Zimmerman, 1996).
Því er það mikilvægt að gefa sér tíma til að kynnast sjálfum sér, átta sig á hvað það er sem maður ætlar sér og ætlar sér ekki, afla sér markverðra upplýsinga og gera sér vel grein fyrir því hvaða afleiðingar það getur haft fyrir mann sjálfan og framtíðina að taka áhættu í kynlífi. Eldri og þroskaðri einstaklingur lætur síður vaða með sig í aðstæður sem hann kærir sig ekki um, hann er að jafnaði færari um að stjórna ákvörðunum um barneignir sjálfur og er meðvitaður um hættu á kynsjúkdómum og stuðlar þannig að kynheilbrigði.
Varðandi spurninguna um hvort börn undir 15 ára aldri geti haft kynmök þá hefur rannsókn hér á landi sýnt að um fjórðungur ungmenna var byrjaður að hafa kynmök 14 ára eða yngri (Bender, Juliusdottir, Kristinsson og Jonsdottir, 2001). Kynþroskabreytingar stúlkna hefjast að meðaltali um 11 ára aldur (nánar tiltekið 10,84 ára) og taka mislangan tíma (1-4 ár) (Árni V. Þórsson, Atli Dagbjartsson, Gestur I. Pálsson og Víkingur Arnórsson, 2000a). Þær eru að jafnaði einu ári á undan piltum í kynþroska (Árni V. Þórsson o.fl., 2000a; Árni V. Þórsson o.fl, 2000b). Það hefur hins vegar sýnt sig að því yngri sem einstaklingurinn er, þeim mun líklegri er hann til að stunda áhættusamt kynlíf eins og rakið hefur verið hér á undan.
Spurningin um það hvort leyfilegt sé að stunda kynmök fyrir kynþroska snertir bæði samskipti foreldra og barna og lagalegan ramma. Telja má, þó engar vísindalegar kannanir séu til um það hér á landi, að flestir foreldrar álíti það óæskilegt að barnið þeirra byrji snemma að hafa kynmök. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að tengsl milli foreldra og barna hafa áhrif á það hversu snemma börn fara að hafa kynmök (Kirby, 2001; Miller, 2002). Eftir því sem tengslin eru sterkari og kynfræðsla er veitt á eðlilegri hátt eru meiri líkur á því að unglingurinn byrji seinna að hafa kynmök.
Það er því mikilvægt að foreldrar leggi rækt við uppeldi barna sinna og geti þá á auðveldari hátt komið inn á mikilvæg atriði kynfræðslunnar. Það virðist oft verka öfugt ef foreldrar eru mjög harðir á ákveðnum tímamörkum með fyrstu kynmök. Hitt virðist vega þyngra að höfða til unglingsins, ábyrgðar hans og hvernig hann vilji haga lífi sínu, hvort hann sé tilbúinn til þess að fara að stunda kynlíf.
Varðandi lagalegan ramma þá er það lögbrot hér á landi að hafa kynmök við einstakling sem er yngri en 15 ára (gr. 202). Hærri aldursmörk gilda ef um er að ræða barn sem er í umsjá viðkomandi (gr. 201) (Lög um breytingar á almennum hegningalögum, nr. 19/1940, 2007).
Heimildir:
Árni V. Þórsson, Atli Dagbjartsson, Gestur I. Pálsson og Víkingur H. Arnórsson (2000a). "Kynþroski íslenskra stúlkna". Læknablaðið, 86: 649-653.
Árni V. Þórsson, Atli Dagbjartsson, Gestur I. Pálsson og Víkingur H. Arnórsson (2000b). "Kynþroski íslenskra drengja". Læknablaðið 86: 655-659.
Bender, S.S., Juliusdottir, S., Kristinsson, Th. og Jonsdottir, G. (2001). "Iceland". Hjá R.T. Francoeur og R.J. Noonan (ritstjórar) The International encyclopedia of sexuality (4. bindi). New York: Continuum.
Glei, D.A. (1999). "Measuring contraceptive patterns among teenage and adult women". Family Planning Perspectives, 31: (2) 73-80.
Keller, M.L., Duerst, B.L. & Zimmerman, J. (1996). "Adolescents´ views of sexual decision making". Image: Journal of Nursing Scholarship, 28: (2) 125-130.
Kirby, D. (2001). "Understanding what works and what doesn´t in reducing adolescent risk-taking". Family Planning Perspectives, 33: (6) 276-281.
Miller, B.C (2002). "Family influences on adolescent sexual and contraceptive behavior". The Journal of Sex Research, 39: (1) 22-26.
Sóley S. Bender (2002). "Notkun getnaðarvarna meðal ungs fólks: Er munur á kynjum?" Læknablaðið, 88: Fylgirit 47 (Útdráttur nr. V127).
Skoðið einnig svör sama höfundar við spurningunum:
Mynd: BBC News
Athugasemd ritstjórnar (9. nóvember 2016): Þetta svar var uppfært með hliðsjón af breytingum á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, 2007.
Sóley S. Bender. „Er gáfulegt að byrja að stunda kynlíf 14-15 ára?“ Vísindavefurinn, 8. maí 2003, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3402.
Sóley S. Bender. (2003, 8. maí). Er gáfulegt að byrja að stunda kynlíf 14-15 ára? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3402
Sóley S. Bender. „Er gáfulegt að byrja að stunda kynlíf 14-15 ára?“ Vísindavefurinn. 8. maí. 2003. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3402>.