Svarið fer auðvitað eftir því hvaða hamstrategund spyrjandinn heldur á heimili sínu, en tegund sem kallast gullhamstur (e. golden hamster, Mesocricetus auratus) er vinsælust hamstra til gæludýrahalds í Evrópu. Gullhamstrar lifðu villtir, aðallega í Suðaustur-Evrópu, en svo langt er síðan að til þeirra sást í náttúrunni að ætla má að þeir séu útdauðir eða að minnsta kosti afar sjaldgæfir. Meðgöngutími gullhamstra er að meðaltali um 16 dagar. Ef hamstur spyrjandans er af þeirri tegund og allt gengur eðlilega fyrir sig, má búast við að kvenhamsturinn gjóti ungum í kringum 11. júlí. Fjöldi unga verður sennilega fimm til níu og þeir hárlausir og blindir við fæðingu.
Ef um er að ræða tegundir af ættkvíslinni Cricetus, svo sem evrópska hamsturinn, gráa- eða kínverska hamsturinn, er meðgöngutíminn aðeins lengri eða um 20 dagar. Fjórða tegundin hefur verið sæmilega vinsæl sem gæludýr í Evrópu, dverghamstur (Phodopus sungorus), og meðganga hans tekur einnig um 20 daga. Ef hamstur spyrjanda er af einni þessara tegunda, yrði sennilegur gotdagur 15. júlí.
Ekki er höfundi kunnugt um hvaða hamstrar eru vinsælastir hér á landi í gæludýraverslunum, en ef svipað er upp á teningnum hér og í Vestur-Evrópu, er það gullhamsturinn.
Nauðsynlegt er fyrir eigendur hamstra að trufla móðurina sem allra minnst fyrstu vikuna eftir got því hún gæti tekið upp á því að éta afkvæmi sín. Önnur ástæða fyrir slíku áti á eigin tegund (e. cannibalism) er skortur á hreiðurefni og því ættu hamstraeigendurnir að hafa nóg af því í búrinu.
Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um hamstra (einnig má smella á efnisorðin neðst á síðunni):
Heimildir og myndir:
- Care of Small Pocket Pets á vefsíðu Mesa Veterinary Hospital
- Hamster á vefsíðunni Young People's Trust for the Environment
- Um hamstra á vefsetri Encyclopædia Britannica
- El hámster dorado á spænska vefnum Animalls
- Pólska vefsetrið Chomik