Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvað koma upp mörg riðutilfelli á ári á Íslandi?

Sigurður Sigurðarson

Baráttan gegn riðu hér á landi hefur gengið framar vonum flestra. Við upphaf baráttunnar voru fleiri en 100 bæir sýktir í 24 varnarhólfum af þeim 36 sem landinu var skipt í. Tilfellin eru nú um tvö á ári og vonir standa til þess að útbreiðslan hafi verið stöðvuð. Veikin hefur ekki fundist á nýju svæði (varnarhólfi) í meira en 14 ár. Riðusmit gæti þó hafa borist fyrir 5 árum eða fyrr úr sýktu varnarhólfi í vestanvert Ölfus þar sem veikin fannst í vor.

Farið er að hilla undir útrýmingu riðuveikinnar þótt á ýmsu hafi gengið, en til þess að það megi takast mega aðgátin og viðbrögðin hvergi bila. Reglugerð bannar verslun með fé og fjárflutninga til lífs milli bæja á sýktum svæðum í 20 ár eftir síðasta riðutilfelli. Nauðsynlegt er að viðhalda skorðum við flutningi á heyi, torfi, óhreinum landbúnaðartækjum, óhreinum hestum og hestakerrum og reyndar hverju því sem gæti borið smitefni milli misjafnlega sýktra staða. Þar á meðal er ógætileg umferð manna í óhreinum skóm og hlífðarfötum.

Sláturhúsin og úrgangshaugar þeirra eru sérstakir hættustaðir og einnig sláturgripabílar. Harðari stefna en tíðkaðist í öðrum löndum var tekin upp árið 1978. Komið var í veg fyrir notkun kjöt- og beinamjöls úr sláturúrgangi af riðusvæðum til fóðurs handa sauðfé og nautgripum og hefur það gilt æ síðan. Með því hefur kannski verið afstýrt að kúariða kæmi upp og yrði landlæg.

Eftir að viðnám gegn riðuveiki í sauðfé hófst árið 1978 á Austurlandi, Reykjavík, Ölfusi og Hveragerði, fór riðutilfellum fljótlega að fækka en veikin hélt þó áfram að breiðast út til nýrra svæða hægt og bítandi. Í ársbyrjun 1986 var ákveðið að herða baráttuna og freista þess að útrýma veikinni úr landinu í áföngum með niðurskurði á öllum bæjum þar sem veikin hafði fundist eftir 1982 og síðan að farga öllu fé jafnóðum á bæjum þar sem veikin yrði staðfest.

Þessari stefnu hefur verið fylgt síðan og hún hefur borið árangur. Öllu fé á um það bil 800 bæjum hefur verið fargað, samtals um 175.000 fjár og nýr fjárstofn frá ósýktum svæðum verið tekinn aftur á 500 þeirra. Á af um það bil 400 þessara bæja hefur fé af nýjum stofni verið fóstrað í meira en 10 ár án riðuveiki. Veikin hefur komið aftur á um það bil 5% bæja sem höfðu fjárskipti. Í flestum tilfellum er þar um að ræða heimafædd lömb. Því hefur mönnum verið ráðlagt að kaupa ásetningslömb í nokkur ár (3-5 ár eða lengur) eftir að þeir hafa fengið nýjan fjárstofn, en setja ekki á lömb fædd á bænum fyrstu árin. Skýringin er sú að unglömb eru næmari gagnvart veikinni en eldra fé. Mest hætta er á því að eimi eftir af smiti fyrstu árin eftir niðurskurð en tíminn hjálpar til að deyfa smitkraftinn.

Sótthreinsun húsa og umhverfis er erfið og viðkvæm. Þeir sem lögðu sig mest fram við hreinsun húsa, umhverfis og tækja virðast síður hafa fengið veikina aftur, þótt dæmi séu líka til um að veikin hafi komið aftur þangað sem hreinsun var gallalaus. Á nokkrum bæjum hefur riðuveiki komið upp hvað eftir annað, oftast eftir tvö til fimm ár en stundum mun síðar. Í tveimur tilfellum liðu 18 ár frá því að sýktu fé var fargað þar til sjúkdómurinn birtist á ný. Á sumum þessara bæja virðist sem smitið hafi verið á staðnum allan tímann því ekki hefur verið hægt að benda á nýja smitleið að þeim bæjum.

Veikin hefur verið þrálátust á Norðurlandi og Austurlandi. Síðustu 10 árin hefur riðuveiki greinst á eftirtöldum svæðum:
 • Vestur-Húnavatnssýsla 9 bæir
 • Austur-Húnvatnssýsla 22 bæir
 • Skagafjarðarsýsla 12 bæir
 • Eyjafjarðarsýsla 8 bæir
 • Suður-Þingeyjarsýsla 7 bæir
 • Norður-Þingeyjarsýsla 2 bæir
 • Norður-Múlasýsla 13 bæir
 • Suður-Múlasýsla 10 bæir
 • Árnessýsla 3 bæir

Árið 1992 fannst veikin aðeins á 3 bæjum en þeim fjölgaði aftur þegar hún fór að finnast að nýju þar sem fjárskipti vegna riðuveiki höfðu farið fram nokkrum árum áður. Þannig fannst veikin á 9 bæjum árið 1993, á 11 bæjum 1994, á 12 bæjum árið 1995 en fækkaði aftur í 8 bæi 1996, 5 bæi 1997 og fannst aftur á 5 bæjum 1998. Árið 1999 fannst veikin á 2 bæjum og á 2 bæjum ennþá árið 2000. Árið 2001 fannst hún á einum bæ en árið 2002 fannst veikin á 2 bæjum og hefur fundist á 2 bæjum árið 2003 (10. júlí).

Nú virðist aðeins vanta herslumuninn til að geta útrýmt riðuveiki. Jafnframt er ljóst að staðan er mjög viðkvæm. Veikin getur breiðst út um allt aftur á stuttum tíma ef menn hætta að sýna varkárni og vilja til að hlýða reglum. Á þannig tilhneigingum ber oft þegar sjúkdómi hefur næstum því verið útrýmt, tjónið orðið lítt merkjanlegt og sjúkdómurinn ekki jafn umtalaður og áður hafði verið. Miklu varðar að finna veikina eins fljótt og unnt er, ef hún er einhvers staðar að lúmskrast. Annars getur hún blossað upp á ný.

Fylgst er með fullorðnu fé í húsum og réttum og grunsamlegar kindur teknar til skoðunar. Tekin hafa verið árlega um 10 þúsund heilasýni úr fullorðnu sláturfé til að leita veikinnar þar sem hún hefur ekki komið fram, bæði á ósýktum og sýktum svæðum. Auk þess eru að sjálfsögðu tekin sýni úr öllu grunsamlegu og veiku fé og sjálfdauðu sem hægt er að komum höndum yfir.

Verið er að ræða um að taka upp hér á landi haustið 2003 nýjar aðferðir sem þróaðar hafa verið vegna kúariðunnar. Þær er einnig hægt að nota á sauðfé og hreindýr. Þær munu gefa fljótari og nákvæmari svör og geta aukið afköstin verulega. Miklar fórnir hafa verið færðar til að ná þeim góða árangri sem við búum við. Hörð varnarstefna gegn innflutningi á öllu sem gæti borið smitefni til landsins er því nauðsynleg. Þar á meðal eru landbúnaðarafurðir og notuð landbúnaðartæki.

Skoðið einnig önnur svör um riðuveiki eftir sama höfund:

Höfundur

Útgáfudagur

1.8.2003

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Sigurðarson. „Hvað koma upp mörg riðutilfelli á ári á Íslandi? “ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2003. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3631.

Sigurður Sigurðarson. (2003, 1. ágúst). Hvað koma upp mörg riðutilfelli á ári á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3631

Sigurður Sigurðarson. „Hvað koma upp mörg riðutilfelli á ári á Íslandi? “ Vísindavefurinn. 1. ágú. 2003. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3631>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað koma upp mörg riðutilfelli á ári á Íslandi?
Baráttan gegn riðu hér á landi hefur gengið framar vonum flestra. Við upphaf baráttunnar voru fleiri en 100 bæir sýktir í 24 varnarhólfum af þeim 36 sem landinu var skipt í. Tilfellin eru nú um tvö á ári og vonir standa til þess að útbreiðslan hafi verið stöðvuð. Veikin hefur ekki fundist á nýju svæði (varnarhólfi) í meira en 14 ár. Riðusmit gæti þó hafa borist fyrir 5 árum eða fyrr úr sýktu varnarhólfi í vestanvert Ölfus þar sem veikin fannst í vor.

Farið er að hilla undir útrýmingu riðuveikinnar þótt á ýmsu hafi gengið, en til þess að það megi takast mega aðgátin og viðbrögðin hvergi bila. Reglugerð bannar verslun með fé og fjárflutninga til lífs milli bæja á sýktum svæðum í 20 ár eftir síðasta riðutilfelli. Nauðsynlegt er að viðhalda skorðum við flutningi á heyi, torfi, óhreinum landbúnaðartækjum, óhreinum hestum og hestakerrum og reyndar hverju því sem gæti borið smitefni milli misjafnlega sýktra staða. Þar á meðal er ógætileg umferð manna í óhreinum skóm og hlífðarfötum.

Sláturhúsin og úrgangshaugar þeirra eru sérstakir hættustaðir og einnig sláturgripabílar. Harðari stefna en tíðkaðist í öðrum löndum var tekin upp árið 1978. Komið var í veg fyrir notkun kjöt- og beinamjöls úr sláturúrgangi af riðusvæðum til fóðurs handa sauðfé og nautgripum og hefur það gilt æ síðan. Með því hefur kannski verið afstýrt að kúariða kæmi upp og yrði landlæg.

Eftir að viðnám gegn riðuveiki í sauðfé hófst árið 1978 á Austurlandi, Reykjavík, Ölfusi og Hveragerði, fór riðutilfellum fljótlega að fækka en veikin hélt þó áfram að breiðast út til nýrra svæða hægt og bítandi. Í ársbyrjun 1986 var ákveðið að herða baráttuna og freista þess að útrýma veikinni úr landinu í áföngum með niðurskurði á öllum bæjum þar sem veikin hafði fundist eftir 1982 og síðan að farga öllu fé jafnóðum á bæjum þar sem veikin yrði staðfest.

Þessari stefnu hefur verið fylgt síðan og hún hefur borið árangur. Öllu fé á um það bil 800 bæjum hefur verið fargað, samtals um 175.000 fjár og nýr fjárstofn frá ósýktum svæðum verið tekinn aftur á 500 þeirra. Á af um það bil 400 þessara bæja hefur fé af nýjum stofni verið fóstrað í meira en 10 ár án riðuveiki. Veikin hefur komið aftur á um það bil 5% bæja sem höfðu fjárskipti. Í flestum tilfellum er þar um að ræða heimafædd lömb. Því hefur mönnum verið ráðlagt að kaupa ásetningslömb í nokkur ár (3-5 ár eða lengur) eftir að þeir hafa fengið nýjan fjárstofn, en setja ekki á lömb fædd á bænum fyrstu árin. Skýringin er sú að unglömb eru næmari gagnvart veikinni en eldra fé. Mest hætta er á því að eimi eftir af smiti fyrstu árin eftir niðurskurð en tíminn hjálpar til að deyfa smitkraftinn.

Sótthreinsun húsa og umhverfis er erfið og viðkvæm. Þeir sem lögðu sig mest fram við hreinsun húsa, umhverfis og tækja virðast síður hafa fengið veikina aftur, þótt dæmi séu líka til um að veikin hafi komið aftur þangað sem hreinsun var gallalaus. Á nokkrum bæjum hefur riðuveiki komið upp hvað eftir annað, oftast eftir tvö til fimm ár en stundum mun síðar. Í tveimur tilfellum liðu 18 ár frá því að sýktu fé var fargað þar til sjúkdómurinn birtist á ný. Á sumum þessara bæja virðist sem smitið hafi verið á staðnum allan tímann því ekki hefur verið hægt að benda á nýja smitleið að þeim bæjum.

Veikin hefur verið þrálátust á Norðurlandi og Austurlandi. Síðustu 10 árin hefur riðuveiki greinst á eftirtöldum svæðum:
 • Vestur-Húnavatnssýsla 9 bæir
 • Austur-Húnvatnssýsla 22 bæir
 • Skagafjarðarsýsla 12 bæir
 • Eyjafjarðarsýsla 8 bæir
 • Suður-Þingeyjarsýsla 7 bæir
 • Norður-Þingeyjarsýsla 2 bæir
 • Norður-Múlasýsla 13 bæir
 • Suður-Múlasýsla 10 bæir
 • Árnessýsla 3 bæir

Árið 1992 fannst veikin aðeins á 3 bæjum en þeim fjölgaði aftur þegar hún fór að finnast að nýju þar sem fjárskipti vegna riðuveiki höfðu farið fram nokkrum árum áður. Þannig fannst veikin á 9 bæjum árið 1993, á 11 bæjum 1994, á 12 bæjum árið 1995 en fækkaði aftur í 8 bæi 1996, 5 bæi 1997 og fannst aftur á 5 bæjum 1998. Árið 1999 fannst veikin á 2 bæjum og á 2 bæjum ennþá árið 2000. Árið 2001 fannst hún á einum bæ en árið 2002 fannst veikin á 2 bæjum og hefur fundist á 2 bæjum árið 2003 (10. júlí).

Nú virðist aðeins vanta herslumuninn til að geta útrýmt riðuveiki. Jafnframt er ljóst að staðan er mjög viðkvæm. Veikin getur breiðst út um allt aftur á stuttum tíma ef menn hætta að sýna varkárni og vilja til að hlýða reglum. Á þannig tilhneigingum ber oft þegar sjúkdómi hefur næstum því verið útrýmt, tjónið orðið lítt merkjanlegt og sjúkdómurinn ekki jafn umtalaður og áður hafði verið. Miklu varðar að finna veikina eins fljótt og unnt er, ef hún er einhvers staðar að lúmskrast. Annars getur hún blossað upp á ný.

Fylgst er með fullorðnu fé í húsum og réttum og grunsamlegar kindur teknar til skoðunar. Tekin hafa verið árlega um 10 þúsund heilasýni úr fullorðnu sláturfé til að leita veikinnar þar sem hún hefur ekki komið fram, bæði á ósýktum og sýktum svæðum. Auk þess eru að sjálfsögðu tekin sýni úr öllu grunsamlegu og veiku fé og sjálfdauðu sem hægt er að komum höndum yfir.

Verið er að ræða um að taka upp hér á landi haustið 2003 nýjar aðferðir sem þróaðar hafa verið vegna kúariðunnar. Þær er einnig hægt að nota á sauðfé og hreindýr. Þær munu gefa fljótari og nákvæmari svör og geta aukið afköstin verulega. Miklar fórnir hafa verið færðar til að ná þeim góða árangri sem við búum við. Hörð varnarstefna gegn innflutningi á öllu sem gæti borið smitefni til landsins er því nauðsynleg. Þar á meðal eru landbúnaðarafurðir og notuð landbúnaðartæki.

Skoðið einnig önnur svör um riðuveiki eftir sama höfund:...