Upphafleg spurning var á þessa leið: Hvers vegna segir fólk „ég bý á Siglufirði”, „ég bý í Kópavogi”, „ég bý í Reykjavík”, „ég bý á Húsavík” og svo framvegis? Skyldar spurningar komu einnig frá Bjarneyju Halldórsdóttur og Hjálmari Blöndal Guðjónssyni.Forsetningar með staðanöfnum geta reynst þeim erfiðar sem ekki eru staðkunnugir. Venja getur algerlega ráðið því hvort notað er á eða í með bæja- og staðaheitum. Sú notkun getur verið mismunandi á milli héraða og jafnvel innan sömu sveitar. Þess vegna verður að læra forsetningu með örnefninu um leið og menn festa sér það í minni. Það er ekki nýtt að menn ruglist á forsetningum og eru dæmi um slíkt til þegar í fornu máli. Oftast hefur orðið til föst venja sem fylgir bæjarnafni eða staðarheiti og er réttast að kynna sér hana ef þörf er á að nota örnefnið með forsetningu. Árni Böðvarsson birti greinina „Forsetningar með staðanöfnum” í ritinu Íslenskt málfar sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 1992 (bls. 291-318). Þar er birtur listi með allmörgum bæjarnöfnum og öðrum örnefnum og greint frá því hvort notuð er forsetningin á eða í. Sá listi er gagnlegur þeim sem á þurfa að halda. Árni bendir á að um nöfn kaupstaða eða annarra þéttbýlisstaða, sem kallaðir eru -firðir, gildi sú regla oftast að í sé notað með nafni fjarðarins sem landfræðilegs fyrirbæris og um byggð meðfram firðinum en á með nafni kaupstaðarins. Þannig er sagt „hann býr í Siglufirði” um þann sem býr við Siglufjörð en „hann býr á Siglufirði” um þann sem býr í bænum Siglufirði. Þetta á þó ekki við um Hafnarfjörð. Þar er notuð forsetningin í. Árni nefnir einnig allmörg dæmi um að með sömu bæjanöfnum sé sums staðar notað á en annars staðar í. Til dæmis er sagt á Ármúla (Breiðaf.), á Fellsmúla (Rang.), á Múla (Barð.), en í Holtsmúla (Rang.), í Múla (Landsveit; Þing.), í Síðumúla, í Þingmúla. Ari Páll Kristinsson fjallar aðeins um forsetningarnar í og á í tengslum við staðanöfn í riti sínu Handbók um málfar í fjölmiðlum sem kom út hjá Málvísindastofnun Háskóla Íslands 1998. Hann segir um forsetningar með kauptúna- og kaupstaðanöfnum, sem enda á -vík, að í sé notað frá og með Vík í Mýrdal vestur og norður um land til Ísafjarðardjúps (í Vík - í Súðavík) en á frá og með Hólmavík austur á bóginn og suður með Austfjörðum (á Hólmavík - á Breiðdalsvík) (bls. 77 og 112-113). Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvaða regla gildir um það hvort fólk er statt í eða á landi (á Íslandi, í Þýskalandi)?
- Á að segja: „Að leggja að velli“/„að leggja af velli“; „að gefnu tilefni“/„af gefnu tilefni“; „að leggja að mörkum“/„að leggja af mörkum“?
- Hvort segir maður: „Ég keyrði í hliðina á bílnum,“ eða: „Ég keyrði á hliðina á bílnum?“