Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru kjarnorkusprengjur svona kraftmiklar?

Fyrst er þess að geta að það eru ekki einungis kjarnorkusprengjur mannanna sem eru kraftmiklar heldur er kjarnorka langöflugasta náttúrlega orkulindin í sólkerfinu. Margar aðrar orkumyndir eiga rætur að rekja til kjarnasamruna í sólinni, samanber svar sama höfundar við spurningunni Hvað er helst því til fyrirstöðu að nýta kjarnasamruna til tannburstunar?.

Þegar menn búa til sprengjur eða annað slíkt eru því takmörk sett, hversu stórar þær geta verið án þess að menn missi stjórn á þeim. Þess vegna skiptir máli að orkuframleiðsla sé sem mest miðað við efnismagnið eða massann í sprengjunni eða efninu sem orkan er unnin úr. Kjarnorkan er einmitt sú orkulind þar sem hlutfallslega mest orka myndast miðað við efnið sem notað er til að framleiða hana.Kjarnorkusprengjan Feiti maður sem var sprengd í Nagasaki

Eðlilegast er að bera kjarnorkusprengjur saman við aðrar "hefðbundnar" sprengjur sem menn þekkja. Í þess konar sprengjum verða svokölluð efnahvörf, oftast bruni, þar sem eitt efnasamband er að breytast í önnur. Við þetta losnar úr læðingi orka sem við köllum efnaorku. Hún á upptök sín í rafeindaskipan í frumeindum og sameindum utan atómkjarnans.

Kjarnorkan myndast hins vegar við kjarnahvörf þar sem atómkjarnar breytast hverjir í aðra og gefa frá sér orku um leið. Þannig á kjarnorkan upptök sín í atómkjarnanum. Hann er miklu þéttari en atómið eða frumeindin í heild. Kraftarnir sem halda honum saman eru mörgum sinnum meiri en þeir sem halda rafeindum á braut um kjarnann í frumeindum og sameindum og koma við sögu í efnahvörfum. Í kjarnahvörfum breytist þess vegna miklu stærri hluti massans í orku en í efnahvörfum.

Mynd: Kjarnorkusprengja - Sótt 01.06.10

Útgáfudagur

27.4.2000

Spyrjandi

Bríet Guðmundsdóttir, f. 1989

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Tilvísun

ÞV. „Af hverju eru kjarnorkusprengjur svona kraftmiklar?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2000. Sótt 23. nóvember 2017. http://visindavefur.is/svar.php?id=379.

ÞV. (2000, 27. apríl). Af hverju eru kjarnorkusprengjur svona kraftmiklar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=379

ÞV. „Af hverju eru kjarnorkusprengjur svona kraftmiklar?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2017. <http://visindavefur.is/svar.php?id=379>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Úlfaldar

Til úlfalda teljast tvær tegundir, kameldýr og drómedarar. Kameldýr hafa tvo hnúða á baki en drómedarar aðeins einn. Það er algengur misskilningur að hnúðarnir séu fylltir vökva og nýtist þess vegna sem hálfgerð vatnstunna í neyð. Í hnúðunum er fita sem dýrin geta umbreytt í næringu þegar lítið er um mat. Hjá kameldýrum getur hvor hnúður innihaldið allt að 36 kg af fitu.