Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru klínískar rannsóknir?

Klínik og klínískur er eitt af þessum erlendu orðum sem ekki hefur tekist að þýða á íslensku og þess vegna er erlenda orðið notað. Orðið klínik er dregið af gríska orðinu kline sem þýðir rúm og vísar þannig til rúmliggjandi sjúklinga. Þetta orð hefur margvíslegar merkingar sem vísa þó oftast til sjúklinga eða umönnunar sjúkra. Orðið klínik getur til dæmis þýtt sjúkrastofnun eða einhvers konar vinna með sjúklinga. Þegar erlendir textar eru þýddir á íslensku er samt oftast hægt að sleppa orðum eins og klínik eða klínískur án þess að það komi að sök.

Í sambandi við rannsóknir þýðir orðið klínískur venjulega að viðkomandi rannsókn sé gerð á fólki, sjúku eða heilbrigðu. Við þróun nýrra lyfja er byrjað á rannsóknum í tilraunaglösum, á ræktuðum frumum, einangruðum líffærum úr dýrum og lifandi dýrum. Slíkar rannsóknir eru oft kallaðar forklínískar vegna þess að þær eru gerðar áður en viðkomandi lyf eða efni er gefið mönnum. Ef forklínískar rannsóknir gefa góða raun er hafist handa við klínískar rannsóknir, fyrst á heilbrigðum sjálfboðaliðum.

Klínískar rannsóknir á lyfjum skiptast í nokkur stig. Fyrst er nýtt lyf gefið fáeinum heilbrigðum sjálfboðaliðum, síðan litlum hópum sjúklinga, stórum sjúklingahópum og að lokum eru gerðar ýmiss konar rannsóknir á sjúklingum eftir að lyfið er komið á markað.

Klínískar meðferðarprófanir (e. clinical trials) eru rannsóknir þar sem sjúklingum er slembiraðað (raðað af handahófi) í hópa sem ýmist taka nýja lyfið, eldra lyf eða lyfleysu. Slíkar rannsóknir eru oftast tvíblindar sem þýðir að hvorki sjúklingar né þeir læknar sem meta árangur meðferðarinnar vita hvað hver tekur, en þetta er gert til að minnka hættuna á að sérstakar væntingar eða til dæmis mikil trú á ágæti nýs lyfs hafi áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar. Rannsóknir af þessu tagi sem ekki uppfylla skilyrði um slembiröðun og tvíblindun eru venjulega lítils virði.

Allar rannsóknir á sjúklingum eru í eðli sínu klínískar. Til viðbótar við lyfjarannsóknir má nefna sem dæmi samanburð á árangri mismunandi skurðaðgerða, samanburð á árangri skurðaðgerða og geislunar og samanburð leitar að efnum í blóði eða þvagi sem hafa forspárgildi fyrir sjúkdóm eða hjálpa til við sjúkdómsgreiningar.

Hugtakið klínískar rannsóknir hefur því mjög víðtæka merkingu og felur í sér allar rannsóknir sem gerðar eru á fólki og tengjast sjúkdómum beint eða óbeint.

Á heimasíðu höfundar má lesa meira um klínískar rannsóknir í pistlinum Læknisfræðirannsóknir – Er ekki sama hvernig klíniskar rannsóknir eru skipulagðar og framkvæmdar?

Mynd:

The Cheer Guild of Riley Hospital and Indiana University Hospital

Útgáfudagur

21.4.2004

Spyrjandi

Haukur Hauksson
Karen Briem

Höfundur

prófessor í læknisfræði við HÍ

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru klínískar rannsóknir? “ Vísindavefurinn, 21. apríl 2004. Sótt 22. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=4160.

Magnús Jóhannsson. (2004, 21. apríl). Hvað eru klínískar rannsóknir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4160

Magnús Jóhannsson. „Hvað eru klínískar rannsóknir? “ Vísindavefurinn. 21. apr. 2004. Vefsíða. 22. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4160>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Hrafn Loftsson

1965

Hrafn Loftsson er dósent í tölvunarfræði við HR. Rannsóknir Hrafns eru á sviði máltækni sem er rannsóknar- og þróunarsvið hvers markmið er að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu.