Þetta er góð og umhugsunarverð spurning. Þegar menn segja að Leifur heppni eða Kristófer Kólumbus hafi „fundið“ Ameríku lýsir það í rauninni fyrst og fremst sjálfmiðjun Evrópumanna.
Upphaflega var Ameríka tengd við Asíu með landbrú þar sem nú er Beringssund. Menn fóru um þessa brú frá Asíu til Ameríku fyrir tugþúsundum ára. Það voru auðvitað þessir menn sem „fundu“ Ameríku en þetta var löngu áður en sögur hófust sem kallað er, það er að segja löngu áður en menn lærðu að lesa og skrifa og fóru að gera texta og rit um það sem gerðist kringum þá.
Leifur heppni og félagar hans voru bara fyrstu Evrópumennirnir sem stigu fæti á Ameríku. Í kjölfar þeirra komu býsna fáir og byggð norrænna manna í Ameríku dó út aftur þannig að þetta hafði lítil áhrif á mannkynssöguna. Hins vegar kom mikið flóð af fólki frá Evrópu tll Ameríku eftir að Kólumbus „fann“ Ameríku aftur árið 1492, og núna er mikill meirihluti af íbúum Ameríku af evrópsku bergi brotinn.
Svo er enn annað skrýtið við þessa sögu, að við skulum kalla fólkið sem var þarna á undan Kólumbusi „Indíána“. Skýringin á því er sú að Kólumbus ætlaði sér að fara til Indlands; hann hafði ekki hugmynd um að Ameríka væri þarna í veginum og hélt að hann væri kominn til Asíu. Þess vegna kallaði hann íbúana Indíána og það nafn festist þrátt fyrir misskilninginn sem upplýstist ekki endanlega fyrr en eftir að Kólumbus dó.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvor var á undan að finna Ameríku, Leifur heppni eða Bjarni Herjólfsson? eftir Gunnar Karlsson
- Hver er sönnun þess að Leifur heppni fann Ameríku? eftir UÁ
- Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur og Þorstein Vilhjálmsson
- Wikipedia.com - Sitting Bull. Sótt 12.8.2010.