Loftsteinar hafa lítið sem ekkert notagildi en það skapar þeim ekki verulega sérstöðu því að sama má segja um marga hluti sem seljast við háu verði. Sennilega eru ástæður þess að fólk girnist loftsteina þær sömu og ráða því að fólk girnist demanta, gull, forn skinnhandrit og þvíumlíka hluti. Mörgum finnst einfaldlega gaman að eiga hluti sem eru fágætir og flestir aðrir eiga því ekki. Ekki spillir fyrir ef hlutunum fylgir skemmtileg saga, til dæmis um ferðalag um óravíddir geimsins.
Þeir hlutir sem hafa mest notagildi seljast hins vegar oft við lágu verði, einfaldlega vegna þess að mikið er til af þeim. Þannig er vatn miklu gagnlegra en demantar. Hins vegar er mikið til af vatni, nóg til að allir fái það sem þeir vilja í flestum tilfellum, og þess vegna er verð þess afar lágt þó að það sé að vísu víða dýrara en hér á Íslandi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Er vitað hversu margir loftsteinar hafa fallið á jörðina? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvernig verða loftsteinar til? eftir Aron Eydal Sigurðarson
- Hvers vegna lýsa loftsteinar þegar þeir ferðast í gegnum gufuhvolfið og eru þeir heitir ef þeir rekast á jörðina? eftir Sævar Helga Bragason
- Hvað gerðist í Tunguska í Síberíu? eftir Ulriku Andersson
- Wikipedia.is - loftsteinar. Sótt 24.8.2010.