Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hverjir voru vitringarnir þrír og hvaðan komu þeir?

Sigurður Ægisson

Heimsókn vitringanna þriggja til Betlehem, sem er að finna í 2. kafla Matteusarguðspjalls, er í hópi allra þekktustu sagna Biblíunnar.

Nýja testamentið er upphaflega ritað á grísku og þar er orðið magoi notað um þessa ferðalanga. Í eintölu er það magos. Allt varðandi þessa menn er dálítið þokukennt, en orðið sem um ræðir mun vera tökuorð úr fornpersnesku, annað hvort dregið af magush eða þá magupati. Var þetta titill prestastéttar – og ef til vill sérstakrar ættkvíslar, einnar af sex – í Medíu, landi þar sem í dag er norðvesturhluti Írans.

Sumir telja að prestar þessir hafi gegnt svipuðu hlutverki og andalæknar eða sjamanar margra fornþjóða. Á nútíma persnesku er orðið ritað mobed. Á íslensku hafa umræddir prestar stundum verið nefndir mágúsar. Þeir aðhylltust í fyrstu náttúrutrúarbrögð, en við tilkomu Zaraþústra spámanns (einhvers staðar á bilinu 1400-600 f. Kr.; Grikkir nefndu hann Zóróaster, Indverjar og Persar Zarthosht), sem tók yfir hið gamla, virðast þeir hafa gengið inn á hinar nýju brautir eins og ekkert væri og gegnt líkum hlutverkum og áður, eflaust vegna fæðingarréttar síns, ef svo má að orði komast, eða einhvers slíks, ekki ósvipað levítum í Gyðingdómi, eða þá andlegs atgervis. Einhver orðaði það svo að mágúsarnir hafi einfaldlega gert sig ómissandi. Einnig hafa fræðimenn getið sér þess til að Zaraþústra hafi sjálfur verið mágús, og það skýrir ýmislegt, ef rétt er. En á 5. öld kannast gríski sagnfræðingurinn Heródótus (484?-425) við, að þeir sjái ekki bara um fórnir, heldur séu einnig í draumaráðningum og spámennsku, og lesi að auki í fyrirbæri í himinhvelfingunni. Jafnframt munu þeir hafa gegnt annarri stjórnsýslu, verið ráðgjafar um eitt og annað veraldlegt, séð um bókhald of fleira.

Eftir að Alexander mikli ræðst inn í Persíu veturinn 331-330 f. Kr. og hefur sigur, er vitað um slíka presta í þjónustu hans. Landvinningar Makedóníukonungsins virðast þó ekki hafa breytt neinu um þekkingu vestursins á austrænum trúarbrögðum, því í grískum og latneskum heimildum urðu títtnefndir prestar einungis fulltrúar alls sem hafði með guðsdýrkun og aðra andlega hluti þar að gera. Þegar nær dregur fæðingu Krists, eru magoi iðulega starfandi fyrir utan Persíu líka, því Strabó (63? f. Kr.-21? e. Kr.), Plútarkos (46?-120? e.Kr.) og Jósefus (37?-101? e. Kr.) kannast allir við þá á Miðjarðarhafssvæðinu, og – vel að merkja – þeir eru Gyðingar. Það þýðir að á þessum tíma er orðið ekki lengur einskorðað við hina gömlu persnesku stétt, heldur nær yfir alla fjölkunnuga menn. Enska orðið magic (galdur, töfrar) og önnur slík eru komin úr þessum jarðvegi.

En höfundi Matteusarguðspjalls finnst greinilega mikið til um heimsóknina úr austri, og viðbrögð Heródesar gefa eitthvað áþekkt til kynna, svo að á bak við notkunina magoi þar er eitthvað stórfenglegt og göfugt, það er að segja hin upprunalega merking, því í zaraþústratrú var svartigaldur bannaður. Nema ef vera kynni, eins og sumir hafa viljað túlka málið, að þarna hafi fulltrúar myrkraaflanna komið, lagt vopn sín og krafta við fótskör meistarans og hreinlega gefist upp. En í guðspjallinu eru þeir fyrst og síðast tákn fyrir heiðingjana, sem fagna komu Guðssonarins og lúta honum í auðmýkt; Jesús er ekki bara Messías Gyðinga, heldur allra manna. Og hér koma gull, reykelsi og myrra okkur til aðstoðar; þetta voru nefnilega eðlilegar og venjubundnar gjafir undirokaðra þjóða til herraþjóðarinnar á þeim tíma, lúxusvara, í flokki með demöntum, kryddjurtum og öðru af þeim toga.Mynd eftir Pieter Aertsen frá því um 1560 sem sýnir Melkíor, einn vitringanna þriggja, færa Jesúbarninu gull að gjöf.

Vitringarnir breytast snemma í eitthvað enn meira, að talið er aðallega fyrir áhrif Tertúllíanusar kirkjuföður (160?-230?), sem fullyrti að í austri væri nánast litið á umrædda menn sem konunga. Líka má vera, að þetta hafi verið pólitísk ákvörðun innan gjörvallrar kirkjunnar á þeim tíma, sem vildi benda umheiminum á, að jarðneskir konungar þæðu tign sína af hinum eina og sanna, og væru honum því undirgefnir. Ef til vill hafa nokkrir ritningarstaðir í Gamla testamentinu sömuleiðis hjálpað þarna til. Í Davíðssálmum 68:30 segir til dæmis: “Konungar skulu færa þér gjafir.” Og í sömu bók, 72:10, segir: “Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.” Og í Jesaja 49:7 er ritað: “Konungar munu sjá… og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá… og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.” Í Jesaja 60:3 er líka þetta: “Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.” Og í Jesaja 60:10: “Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér…” Það er samt ekki fyrr en á 10.-12. öld að myndverk eru almennt farin að sýna hina tignu gesti í konungsgervum.

Í latnesku kirkjubiblíunni Vulgata, sem Híerónýmus kirkjufaðir (340?-420) þýddi undir lok 4. aldar, er tökuorðið “magi” notað yfir austanfarana. Þetta hafði bersýnilega sín áhrif á aðrar þýðingar, einkum í löndum kaþólskra, sem flestar eru á sömu línu. En áhrif Marteins Lúthers ná til annarra; hann notar “die Weisen” (vitringar) í þýðingu sinni, 1534. Enskar biblíuútgáfur eru aðallega með “wise men”, sem og danskar (“vise”), norskar (“vismenn”) og sænskar (“vise män”), en þýskar eru reyndar á ýmsan veg nú á tímum (“Magier”, “Sternforscher”, “die Weisen”, “Weise”). Bara ein – Wycliffe-útgáfan, fyrsta þýðing Biblíunnar allrar á ensku, 1382 – nefnir konunga í þessu sambandi, og reyndar hitt líka, eða segir “astrologers [… kings, or wise men,]” (stjörnuspekingar [… konungar, eða vitringar]).

Í öllum íslensku biblíuútgáfunum, allt frá Guðbrandsbiblíu 1584 til útgáfunnar 1981, er gríska orðið magoi þýtt sem “vitringar”. Og eins verður í Biblíu 21. aldar, sem kemur á markað árið 2006. En í íslenskum heimildum öðrum eru þeir gjarnan nefndir Austurvegskonungarnir.

En hvaðan komu þessir menn? Um það eru deildar meiningar, eins og um flest annað í þessari sögu. En ljóst er, að þeir voru ekki Hebrear, eins og spurning þeirra upplýsir: “Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga?” Höfundur Matteusarguðspjalls veit einungis að þeir komu úr austri, þekktu himintunglin og gátu ráðið í boðskap þeirra. Af þeim sökum koma margar austrænar þjóðir hér til greina, enda átti stjörnuspeki djúpar rætur þar æði víða.

Ein tilgátan er Arabía, en þar var að finna allar gjafirnar og það í ríkum mæli. Í vesturhlutanum unnu menn gull, og í suðri uxu trén sem reykelsi og myrra komu af. Klemens í Róm (30?-100? e. Kr.) ritar í bréfi til Korintumanna, árið 96, að hann tengi austrænu gestina við “landsvæðin nærri Arabíu.” Og Jústínus píslarvottur (um 100/114 – um 162/168) tók undir þetta í skrifi árið 160; fullyrti reyndar, að þeir hefðu komið frá Arabíu sjálfri. Ef til vill er þetta bara skírskotun í Jesaja 60:6, en þar segir:
Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.
Eða Davíðssálm 72:15, er segir: “Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.” En Saba var á þessum tíma land í Suðvestur-Arabíu, og töluvert af Gyðingum þar. Og þar rýndu menn í stjörnuhimininn. Vert er líka að geta þess, að úlfaldalestir, sem komu frá Arabíu til Palestínu, voru sagðar koma “úr austri”. Aðrir helstu stuðningsmenn fyrir Arabíutilgátunni voru áðurnefndur Tertúllíanus kirkjufaðir (160?-230?), og heilagur Epifaníus (310-403).Aðrir benda á, að vitringarnir gætu allt eins hafa komið frá einhverju þeirra ríkja sem voru austar, það er að segja í gömlu Mesópótamíu. Eða jafnvel frá Indlandi. Einnig hafa Egyptaland, Eþíópía, Ecbatana, Armenía og Skýþía verið nefnd. En flestir virðast þó nú á tímum hneigjast að Babýloníu eða Persíu. Í því fyrrnefnda höfðu menn rannsakað næturhimininn gaumgæfilega í 1.000-2.000 ár, er hér var komið, lengur en aðrar þjóðir í vesturheimi, og höfðu í kringum árið 450 f. Kr. búið til dýrahringinn með hinum þekktu tólf stjörnumerkjum. Tengsl við Gyðinga og spádóma þeirra var einnig fyrir hendi eftir herleiðinguna á 6. öld f. Kr., en merkilegt þykir að engum í frumkristninni virðist hafa dottið babýlonskir stjörnuspekingar í hug í þessu efni. En stuðningur við þá hugmynd er samt kominn fram á 4. öld (Þeódótus frá Ancyra í Litlu-Asíu; síðar Ankara).

Í síðarnefnda ríkinu, Persíu, var engin hefð fyrir slíkri nákvæmri rannsókn himinhnattanna, þótt menn hafi dundað eitthvað við stjörnuspeki. Hins vegar er þáttur Zaraþústra álitinn stór, því gamlar heimildir bendla trúarbrögð hans þrálátlega við gestina úr austurvegi, enda voru þau nauðalík Gyðingdómi. Að þetta hafi verið prestar zaraþústratrúar, sem um Krists burð voru í þjónustu Parþa, sem fóru með völd frá 170 f. Kr - 226 e. Kr. (en umrædd trúarbrögð voru þó áfram við lýði á þessum slóðum, víðast hvar, fram á 7. öld), var reyndar skilningur þorra kirkjunnar manna á fyrstu öldum. Sterkustu fulltrúar þeirra urðu Klemens í Alexandríu (150?-230?) og heilagur Kýrillus, erkibiskup í Alexandríu (376?-444).

Í apókrýfuriti, sem talið er hafa verið samið á 5. eða 6. öld, og nefnist Arabíska bernskuguðspjallið, segir orðrétt:
Og þegar Drottinn Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á tíma Heródesar konungs, sjá, vitringar [magi] komu úr austri til Jerúsalem, eins og Zeraduscht hafði spáð...”
Er í þessu sambandi líka oft vitnað til atburðar árið 614 e. Kr., þegar Persar réðust inn í Landið helga og eyðilögðu þar fjöldann allan af guðshúsum kristinna, en hlífðu Fæðingarkirkjunni í Betlehem eftir að hafa litið þar augum mósaíkmynd er sýndi vitringana færa Jesúbarninu gjafirnar þrjár. Þeir könnuðust við búningana, þetta var sumsé persneskur klæðnaður. Kirkjan hafði upphaflega verið reist árið 327, eyðilögð af Samverjum árið 529, en endurbyggð nokkru á eftir.

Að endingu er rétt að geta þess, að austur af Palestínu voru einungis fjögur ríki sem höfðu “ekta” mágúsa í þjónustu sinni um Krists burð: Assyría, Babýlonía, Medía og Persía. Þess vegna er ekki ósennileg kenning, að þetta hafi í raun verið klerkar zaraþústratrúar, en ekki þó frá Persíu heldur Babýloníu, hafandi þar kynnst alvöru stjörnuvísindum.

Mynd og kort:

Höfundur

guðfræðingur og þjóðfræðingur

Útgáfudagur

14.12.2004

Spyrjandi

Þórunn Alda Gylfadóttir

Tilvísun

Sigurður Ægisson. „Hverjir voru vitringarnir þrír og hvaðan komu þeir?“ Vísindavefurinn, 14. desember 2004. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4660.

Sigurður Ægisson. (2004, 14. desember). Hverjir voru vitringarnir þrír og hvaðan komu þeir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4660

Sigurður Ægisson. „Hverjir voru vitringarnir þrír og hvaðan komu þeir?“ Vísindavefurinn. 14. des. 2004. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4660>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru vitringarnir þrír og hvaðan komu þeir?
Heimsókn vitringanna þriggja til Betlehem, sem er að finna í 2. kafla Matteusarguðspjalls, er í hópi allra þekktustu sagna Biblíunnar.

Nýja testamentið er upphaflega ritað á grísku og þar er orðið magoi notað um þessa ferðalanga. Í eintölu er það magos. Allt varðandi þessa menn er dálítið þokukennt, en orðið sem um ræðir mun vera tökuorð úr fornpersnesku, annað hvort dregið af magush eða þá magupati. Var þetta titill prestastéttar – og ef til vill sérstakrar ættkvíslar, einnar af sex – í Medíu, landi þar sem í dag er norðvesturhluti Írans.

Sumir telja að prestar þessir hafi gegnt svipuðu hlutverki og andalæknar eða sjamanar margra fornþjóða. Á nútíma persnesku er orðið ritað mobed. Á íslensku hafa umræddir prestar stundum verið nefndir mágúsar. Þeir aðhylltust í fyrstu náttúrutrúarbrögð, en við tilkomu Zaraþústra spámanns (einhvers staðar á bilinu 1400-600 f. Kr.; Grikkir nefndu hann Zóróaster, Indverjar og Persar Zarthosht), sem tók yfir hið gamla, virðast þeir hafa gengið inn á hinar nýju brautir eins og ekkert væri og gegnt líkum hlutverkum og áður, eflaust vegna fæðingarréttar síns, ef svo má að orði komast, eða einhvers slíks, ekki ósvipað levítum í Gyðingdómi, eða þá andlegs atgervis. Einhver orðaði það svo að mágúsarnir hafi einfaldlega gert sig ómissandi. Einnig hafa fræðimenn getið sér þess til að Zaraþústra hafi sjálfur verið mágús, og það skýrir ýmislegt, ef rétt er. En á 5. öld kannast gríski sagnfræðingurinn Heródótus (484?-425) við, að þeir sjái ekki bara um fórnir, heldur séu einnig í draumaráðningum og spámennsku, og lesi að auki í fyrirbæri í himinhvelfingunni. Jafnframt munu þeir hafa gegnt annarri stjórnsýslu, verið ráðgjafar um eitt og annað veraldlegt, séð um bókhald of fleira.

Eftir að Alexander mikli ræðst inn í Persíu veturinn 331-330 f. Kr. og hefur sigur, er vitað um slíka presta í þjónustu hans. Landvinningar Makedóníukonungsins virðast þó ekki hafa breytt neinu um þekkingu vestursins á austrænum trúarbrögðum, því í grískum og latneskum heimildum urðu títtnefndir prestar einungis fulltrúar alls sem hafði með guðsdýrkun og aðra andlega hluti þar að gera. Þegar nær dregur fæðingu Krists, eru magoi iðulega starfandi fyrir utan Persíu líka, því Strabó (63? f. Kr.-21? e. Kr.), Plútarkos (46?-120? e.Kr.) og Jósefus (37?-101? e. Kr.) kannast allir við þá á Miðjarðarhafssvæðinu, og – vel að merkja – þeir eru Gyðingar. Það þýðir að á þessum tíma er orðið ekki lengur einskorðað við hina gömlu persnesku stétt, heldur nær yfir alla fjölkunnuga menn. Enska orðið magic (galdur, töfrar) og önnur slík eru komin úr þessum jarðvegi.

En höfundi Matteusarguðspjalls finnst greinilega mikið til um heimsóknina úr austri, og viðbrögð Heródesar gefa eitthvað áþekkt til kynna, svo að á bak við notkunina magoi þar er eitthvað stórfenglegt og göfugt, það er að segja hin upprunalega merking, því í zaraþústratrú var svartigaldur bannaður. Nema ef vera kynni, eins og sumir hafa viljað túlka málið, að þarna hafi fulltrúar myrkraaflanna komið, lagt vopn sín og krafta við fótskör meistarans og hreinlega gefist upp. En í guðspjallinu eru þeir fyrst og síðast tákn fyrir heiðingjana, sem fagna komu Guðssonarins og lúta honum í auðmýkt; Jesús er ekki bara Messías Gyðinga, heldur allra manna. Og hér koma gull, reykelsi og myrra okkur til aðstoðar; þetta voru nefnilega eðlilegar og venjubundnar gjafir undirokaðra þjóða til herraþjóðarinnar á þeim tíma, lúxusvara, í flokki með demöntum, kryddjurtum og öðru af þeim toga.Mynd eftir Pieter Aertsen frá því um 1560 sem sýnir Melkíor, einn vitringanna þriggja, færa Jesúbarninu gull að gjöf.

Vitringarnir breytast snemma í eitthvað enn meira, að talið er aðallega fyrir áhrif Tertúllíanusar kirkjuföður (160?-230?), sem fullyrti að í austri væri nánast litið á umrædda menn sem konunga. Líka má vera, að þetta hafi verið pólitísk ákvörðun innan gjörvallrar kirkjunnar á þeim tíma, sem vildi benda umheiminum á, að jarðneskir konungar þæðu tign sína af hinum eina og sanna, og væru honum því undirgefnir. Ef til vill hafa nokkrir ritningarstaðir í Gamla testamentinu sömuleiðis hjálpað þarna til. Í Davíðssálmum 68:30 segir til dæmis: “Konungar skulu færa þér gjafir.” Og í sömu bók, 72:10, segir: “Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.” Og í Jesaja 49:7 er ritað: “Konungar munu sjá… og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá… og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.” Í Jesaja 60:3 er líka þetta: “Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.” Og í Jesaja 60:10: “Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér…” Það er samt ekki fyrr en á 10.-12. öld að myndverk eru almennt farin að sýna hina tignu gesti í konungsgervum.

Í latnesku kirkjubiblíunni Vulgata, sem Híerónýmus kirkjufaðir (340?-420) þýddi undir lok 4. aldar, er tökuorðið “magi” notað yfir austanfarana. Þetta hafði bersýnilega sín áhrif á aðrar þýðingar, einkum í löndum kaþólskra, sem flestar eru á sömu línu. En áhrif Marteins Lúthers ná til annarra; hann notar “die Weisen” (vitringar) í þýðingu sinni, 1534. Enskar biblíuútgáfur eru aðallega með “wise men”, sem og danskar (“vise”), norskar (“vismenn”) og sænskar (“vise män”), en þýskar eru reyndar á ýmsan veg nú á tímum (“Magier”, “Sternforscher”, “die Weisen”, “Weise”). Bara ein – Wycliffe-útgáfan, fyrsta þýðing Biblíunnar allrar á ensku, 1382 – nefnir konunga í þessu sambandi, og reyndar hitt líka, eða segir “astrologers [… kings, or wise men,]” (stjörnuspekingar [… konungar, eða vitringar]).

Í öllum íslensku biblíuútgáfunum, allt frá Guðbrandsbiblíu 1584 til útgáfunnar 1981, er gríska orðið magoi þýtt sem “vitringar”. Og eins verður í Biblíu 21. aldar, sem kemur á markað árið 2006. En í íslenskum heimildum öðrum eru þeir gjarnan nefndir Austurvegskonungarnir.

En hvaðan komu þessir menn? Um það eru deildar meiningar, eins og um flest annað í þessari sögu. En ljóst er, að þeir voru ekki Hebrear, eins og spurning þeirra upplýsir: “Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga?” Höfundur Matteusarguðspjalls veit einungis að þeir komu úr austri, þekktu himintunglin og gátu ráðið í boðskap þeirra. Af þeim sökum koma margar austrænar þjóðir hér til greina, enda átti stjörnuspeki djúpar rætur þar æði víða.

Ein tilgátan er Arabía, en þar var að finna allar gjafirnar og það í ríkum mæli. Í vesturhlutanum unnu menn gull, og í suðri uxu trén sem reykelsi og myrra komu af. Klemens í Róm (30?-100? e. Kr.) ritar í bréfi til Korintumanna, árið 96, að hann tengi austrænu gestina við “landsvæðin nærri Arabíu.” Og Jústínus píslarvottur (um 100/114 – um 162/168) tók undir þetta í skrifi árið 160; fullyrti reyndar, að þeir hefðu komið frá Arabíu sjálfri. Ef til vill er þetta bara skírskotun í Jesaja 60:6, en þar segir:
Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.
Eða Davíðssálm 72:15, er segir: “Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.” En Saba var á þessum tíma land í Suðvestur-Arabíu, og töluvert af Gyðingum þar. Og þar rýndu menn í stjörnuhimininn. Vert er líka að geta þess, að úlfaldalestir, sem komu frá Arabíu til Palestínu, voru sagðar koma “úr austri”. Aðrir helstu stuðningsmenn fyrir Arabíutilgátunni voru áðurnefndur Tertúllíanus kirkjufaðir (160?-230?), og heilagur Epifaníus (310-403).Aðrir benda á, að vitringarnir gætu allt eins hafa komið frá einhverju þeirra ríkja sem voru austar, það er að segja í gömlu Mesópótamíu. Eða jafnvel frá Indlandi. Einnig hafa Egyptaland, Eþíópía, Ecbatana, Armenía og Skýþía verið nefnd. En flestir virðast þó nú á tímum hneigjast að Babýloníu eða Persíu. Í því fyrrnefnda höfðu menn rannsakað næturhimininn gaumgæfilega í 1.000-2.000 ár, er hér var komið, lengur en aðrar þjóðir í vesturheimi, og höfðu í kringum árið 450 f. Kr. búið til dýrahringinn með hinum þekktu tólf stjörnumerkjum. Tengsl við Gyðinga og spádóma þeirra var einnig fyrir hendi eftir herleiðinguna á 6. öld f. Kr., en merkilegt þykir að engum í frumkristninni virðist hafa dottið babýlonskir stjörnuspekingar í hug í þessu efni. En stuðningur við þá hugmynd er samt kominn fram á 4. öld (Þeódótus frá Ancyra í Litlu-Asíu; síðar Ankara).

Í síðarnefnda ríkinu, Persíu, var engin hefð fyrir slíkri nákvæmri rannsókn himinhnattanna, þótt menn hafi dundað eitthvað við stjörnuspeki. Hins vegar er þáttur Zaraþústra álitinn stór, því gamlar heimildir bendla trúarbrögð hans þrálátlega við gestina úr austurvegi, enda voru þau nauðalík Gyðingdómi. Að þetta hafi verið prestar zaraþústratrúar, sem um Krists burð voru í þjónustu Parþa, sem fóru með völd frá 170 f. Kr - 226 e. Kr. (en umrædd trúarbrögð voru þó áfram við lýði á þessum slóðum, víðast hvar, fram á 7. öld), var reyndar skilningur þorra kirkjunnar manna á fyrstu öldum. Sterkustu fulltrúar þeirra urðu Klemens í Alexandríu (150?-230?) og heilagur Kýrillus, erkibiskup í Alexandríu (376?-444).

Í apókrýfuriti, sem talið er hafa verið samið á 5. eða 6. öld, og nefnist Arabíska bernskuguðspjallið, segir orðrétt:
Og þegar Drottinn Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á tíma Heródesar konungs, sjá, vitringar [magi] komu úr austri til Jerúsalem, eins og Zeraduscht hafði spáð...”
Er í þessu sambandi líka oft vitnað til atburðar árið 614 e. Kr., þegar Persar réðust inn í Landið helga og eyðilögðu þar fjöldann allan af guðshúsum kristinna, en hlífðu Fæðingarkirkjunni í Betlehem eftir að hafa litið þar augum mósaíkmynd er sýndi vitringana færa Jesúbarninu gjafirnar þrjár. Þeir könnuðust við búningana, þetta var sumsé persneskur klæðnaður. Kirkjan hafði upphaflega verið reist árið 327, eyðilögð af Samverjum árið 529, en endurbyggð nokkru á eftir.

Að endingu er rétt að geta þess, að austur af Palestínu voru einungis fjögur ríki sem höfðu “ekta” mágúsa í þjónustu sinni um Krists burð: Assyría, Babýlonía, Medía og Persía. Þess vegna er ekki ósennileg kenning, að þetta hafi í raun verið klerkar zaraþústratrúar, en ekki þó frá Persíu heldur Babýloníu, hafandi þar kynnst alvöru stjörnuvísindum.

Mynd og kort: