Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig getur mataræði eins og Atkins-kúrinn, sem er algjör andstæða makróbíótískrar fæðu, verið hollt?
Í fyrsta lagi er rétt að benda á það að alls ekki er svo komið að menn telji Atkins-kúrinn vera hollt mataræði. Sumir telja hins vegar að hann og aðrir kolvetnasnauðir megrunarkúrar geti gagnast þeim sem vilja léttast og virðast ýmsar nýlegar rannsóknir benda til þess að þyngdartap sé töluvert hjá þeim sem eru á þessum kúrum.
Þyngdartapið er þó ekki vegna kolvetnaskerðingarinnar eins og áður var talið, heldur einfaldlega vegna minni orkuneyslu, það er færri hitaeiningar eru innbyrtar. Ástæða minni orkuneyslu er meðal annars talin vera sú hve einhæft fæðið verður með því að takmarka neyslu margra fæðutegunda og jafnvel fæðuflokka. Ennfremur er orkuneyslan talin minni vegna aukinnar prótínneyslu samfara minni kolvetnaneyslu, en óhjákvæmilegt er að bæði magn og hlutfall prótína af orkunni aukist þegar kolvetni eru skert. Sýnt hefur verið fram á að prótín eru mest mettandi allra orkuefnanna í fæðunni (prótín > kolvetni > fita) og samkvæmt því mettast menn fyrr af prótínríku fæði.
Kolvetnasnauðir kúrar eru engin nýlunda. Hér er kápumynd af gamalli bók sem dásamar gildi kolvetnasnauðs mataræðis.
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt meira þyngdartap eftir 6 mánuði hjá þeim sem eru á kolvetnasnauðum megrunarkúrum en þeim sem eru á fitusnauðum kúrum, en eftir 12 mánuði var enginn munur á þyngdartapi. Nokkuð hefur komið á óvart að blóðfita virðast ekki hækka hjá þeim sem eru á kolvetnasnauðum kúrum, þrátt fyrir að þeir megi borða ótakmarkað af fitu, en þetta er fyrst og fremst talið vera vegna þyngdartapsins en alls ekki kúrsins sjálfs. Ekki eru til rannsóknir á magni fitu í blóði þegar hægir á þyngdartapi hjá einstaklingum á kolvetnasnauðu mataræði. Rannsóknir á flogaveikum börnum hafa sýnt neikvæð áhrif kolvetnasnauðs mataræðis á blóðfitu sem gefur vísbendingu um að kolvetnasnautt fæði sem slíkt hafi alls ekki hagstæð áhrif á blóðfitu og henti þar af leiðandi ekki fólki í eða við kjörþyngd sem mun léttast lítið.
Langtímaáhrif kolvetnasnauðra kúra á borð við Atkins eru ekki þekkt. Meðal augljósra ókosta slíkra kúra er að þeir eru trefjasnauðir og hætta er á skorti á ýmsum næringarefnum þegar fæðuval er svo takmarkað sem raun ber vitni í þessum kúrum. Ýmis mikilvæg næringarefni, ásamt trefjum, er að finna í kolvetnaríkum afurðum eins og grófu kornmeti, grænmeti og ávöxtum (sem algengar eru í makróbíótísku fæði), auk þess sem þessar afurðir eru ríkar af ýmsum öðrum efnum sem geta haft heilnæm áhrif, svo sem karótíníðum og flavoníðum.
Meðal helstu fylgikvilla kolvetnasnauðs fæðis á borð við Atkins-kúrinn eru hægðatregða og höfuðverkur. Einnig hafa vöðvakrampar, niðurgangur, almennur slappleiki, andremma og útbrot oftar verið nefnd sem fylgikvillar hjá þeim sem eru á kolvetnasnauðu fæði en þeim sem eru á fitusnauðu fæði. Vegna orkuleysis sem oft er samfara kolvetnasnauðum kúrum henta þeir verr með hreyfingu og líkamsrækt, sem að sjálfsögðu er mikilvæg þegar verið er að losa sig við umframmagn af fitu og byggja sig upp.
Til lengri tíma litið má því segja að hentugra og skynsamlegra sé að velja fitusnautt fæði en kolvetnasnautt þar sem árangurinn verður að líkindum svipaður hvað varðar þyngdartap en að öðru leyti er fitusnauða mataræðið mun hollara og hentar betur með heilsusamlegum lífsstíl, og minni líkur eru á fylgikvillum á borð við þá sem nefndir eru hér að ofan. Þó er sjálfsagt að gæta þess á fitusnauðu fæði að borða fitu í einhverjum mæli, og þá frekar mjúka en harða, meðal annars til að fá lífsnauðsynlegar fitusýrur og fituleysanleg vítamín.
Hægt er að lesa meira um mataræði og megrun á Vísindavefnum, meðal annars í svörum við spurningunum:
Astrup A, Larsen TM, Harper A. Atkins and other low-carbohydrate diets: hoax or an effective tool for weight loss? Lancet 2004;364:897-9.
Foster GD, Wyatt HR, Hill JO, McGuckin BG, Brill C, Mohammed BS, Szapary PO, Rader DJ, Edman JS, Klein S. A randomized trial of a low-carbohydrate diet for obesity. N Engl J Med 2003;348:2082-90.
Stern L, Ibqal N, Seshadri P, Chicano KL, Daily DA, McGrory J, Williams M, Gracely EJ, Samaha FF. The effects of a low-carbohydrate versus conventional weight loss diets in severely obese adults: one-year follow-up of a randomized trial. Ann Intern Med 2004;140:778-85.
Björn Sigurður Gunnarsson. „Er Atkins-kúrinn hollur?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2005, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4707.
Björn Sigurður Gunnarsson. (2005, 10. janúar). Er Atkins-kúrinn hollur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4707
Björn Sigurður Gunnarsson. „Er Atkins-kúrinn hollur?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2005. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4707>.