Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?

Símon Jón Jóhannsson

Sá siður að skólanemendur (hér áður fyrr einkum skólapiltar) klæði sig með einkennandi hætti og beri þá meðal annars sérstök höfuðföt á sér rætur allt aftur til miðaldaskólanna í Evrópu og jafnvel mætti fara enn aftar í söguna. Oftar en ekki dró þessi einkennisklæðnaður dám af fatatísku embættismanna og yfirstéttar enda var það helsta hlutverk skólanna lengi vel að undirbúa verðandi embættismenn. Skólaklæðnaðurinn gaf þá til kynna þá stéttarstöðu sem beið nemendanna.

Séra Árni Helgason (1777-1869) skrifar um klæðnað íslenskra skólapilta á 18. og 19. öld og segir þá meðal annars:
Eg minnist þess þá, að bæði í Skálholti og eins í Reykjavík voru allir skólapiltar eins búnir, nefnilega í sortaðri mussu og buxum úr íslenzku vaðmáli. Buxurnar náðu aðeins niður fyrir hnéð. Þeir voru í mórauðum sokkum venjulegast, nema á sunnudögum, þá í svartbláum, eða á seinni árum í ljósbláum, sem í Reykjavík var haldið fallegra, og með skotthúfur sýnt og heilagt með grænum eða svörtum silkiskúf og vírborða um legginn, sem ekki kostuðu mikið í samanburði við þá svo kölluðu hólka, er kvennfólk nú tíðkar. Þetta gerði skólapiltahópinn miklu fallegri á að líta, heldur en eptir að þeir fyrst á Bessatöðum urðu gulir, gráir, grænir, hvítir, rauðir, bláir, og þá urðu mussur að treyjum með ýmislegu sniði. (Árni Helgason 83-84).

Þess má svo geta að fyrirmynd íslensku kvenskotthúfunnar eru líklega prjónahúfur skólapiltanna í Skálholts- og Hólaskóla. Nánar má lesa um þetta í svari sama höfundar við spurningunni: Hver er uppruni íslensku skotthúfunnar?

Norska skáldið Henrik Wergeland (1808-1845) þegar hann var stúdent um 1825. Hann ber stúdentshúfu með stórum fellingakolli.

Stúdentshúfur eins og við þekkjum þær í dag komu fyrst til sögunnar á 19. öld en þá kom fram krafa hjá stúdentum, meðal annars á Norðurlöndunum, um að bera sérstakar húfur í stað hatta. Húfurnar voru fyrst og fremst tákn um þá stöðu og það starf sem stúdentar áttu í vændum, en jafnframt um þá sérstöðu sem fólgin var í því að vera háskólaborgari. Með tilkomu stórra norrænna stúdentamóta um miðja 19. öld skapaðist þörf fyrir aðgreinandi húfur milli mismunandi landa og háskóla. Í Noregi voru stúdentshúfurnar með kolli með fellingum og dúski á hliðinni en í Svíþjóð og Danmörku urðu kollarnir sléttir. Húfurnar voru snemma hafðar með skyggni en þegar konur tóku að sækja háskólana voru þeirra húfur fyrst um sinn hafðar án skyggnis.

Á síðari hluta 19. aldar fór að tíðkast að nota stúdentshúfur sem tákn um útskrift úr menntaskólum en um leið voru þær áfram tákn um að hlutaðeigandi væri háskólaborgari. Eftir þær breytingar sem urðu í háskólum á Vesturlöndum í kjölfar stúdentauppreisnanna á sjöunda áratug 20. aldar hættu háskólastúdentar að ganga með stúdentshúfur. Sums staðar voru þær jafnvel brenndar til að mótmæla hinu borgaralega samfélagi. Notkun stúdentshúfa sem tákn um að viðkomandi hafi lokið stúdentsprófi hefur þó lifað áfram fram á þennan dag.

Frá vinstri til hægri, bera þessir herramenn danska, norska og sænska útgáfu af stúdentshúfum.

Íslenska stúdentshúfan á sér fyrirmynd í dönsku stúdentshúfunni og að minnsta kosti frá árinu 1888 höfðu stúdentar frá Reykjavíkurskóla keypt danskar húfur og sett upp að próflokum. Með aukinni þjóðerniskennd samfara sjálfstæðisbaráttunni kom síðan fram hugmynd um sérstakar íslenskar stúdentshúfur. Stúdentar og menntaskólanemar skipuðu sameiginlega nefnd veturinn 1906-1907 um húfumálið en lítill árangur varð af starfi nefndarinnar. Árið 1910 komst húfumálið aftur á dagskrá hjá skólafélaginu Framtíð en það voru einkum Héðinn Valdimarsson (1892-1948), síðar stjórnmálamaður og verkalýðsforingi, og Guðmundur Kamban (1888-1945) rithöfundur sem létu málið til sín taka. Héðinn taldi brýnt að teknar yrðu upp íslenskar stúdentshúfur þar sem brátt yrðu brautskráðir fyrstu stúdentar úr íslenskum menntaskóla og íslenskur háskóli tæki senn til starfa. Reykjavíkurskóli var þá ekki lengur konunglegur danskur latínuskóli. Ekki urðu menn þó á eitt sáttir, ýmsar hugmyndir og tillögur að húfum komu fram, nefndir skipaðar um málið og auglýst eftir tillögum í blöðum. Það fór því svo að menn náðu ekki samkomulagi fyrir útskriftina og það sést glöggt á stúdentsmyndinni frá árinu 1910. Sumir báru bátslaga, skyggnislausa húfu, aðrir danskar stúdentshúfur, sumir voru með hvítan koll en aðrir svartan.

Árið 1913 fékk stúdentafélagið Önnu Louise Ásmundsdóttur til þess að sauma nýjar íslenskar stúdentshúfur. Mikil óánægja var með þessar húfur og þær voru lítið notaðar. Svo óheppilega vildi til að húfurnar voru ekki tilbúnar í tæka tíð fyrir útskrift svo stúdentar vorið 1913 voru húfulausir. Veturinn 1913-1914 var húfumálið enn á dagskrá, haldnir fundir og skipuð ný nefnd. Enn héldu menn áfram að karpa um stúdentshúfurnar en niðurstaðan varð loks sú að tekin skyldi upp húfa með svipaðri lögun og sú danska en með íslensku krossmerki og bláum og hvítum snúrum á borðanum. Þetta var samþykkt í janúar 1914. Tveimur árum síðar var snúrunni breytt og rauðum lit bætt við líkt og gert var við íslenska fánann. Árið 1924 kom svo stúdentastjarnan í stað krossmarks framan á húfunni.

Stúdentshúfan eins og við þekkjum hana í dag.

Hvíti kollurinn á stúdentshúfunum, sem fór að tíðkast upp úr 1920, er tákn nýstúdentsins og það hefur lengi verið til siðs að halda honum út fyrsta árið en skipta þá yfir í svarta kollinn. Við Menntaskólann á Akureyri hefur lengi tíðkast að nýstúdentar frá fyrra ári hittist í stúdentaveislu að kvöldi 16. júní, fagni árs stúdentsafmæli og taki hvíta kollinn af húfunni á miðnætti enda bætast nýir hvítir kollar í hópinn við útskrift þann 17. júní. Þá spássera eldri stúdentar um bæinn með svarta kolla.

Því má svo bæta við að það er þekkt hjátrú að þeir sem setja upp stúdentshúfu áður en þeir verða stúdentar ná aldrei prófi.

Heimildir:
  • Árni Helgason. „Frásagnir um skólalíf á Íslandi um aldamót 18. og 19. aldar. 1. Skólahættir í Skálholti og í Reykjavíkurskóla hinum forna.“ Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju IV. s.74-98. Kh. og Rv. 1907-1915.
  • Guðlaugur R. Guðmundsson. Skólalíf. Starf og siðir í latínuskólunum á Íslandi 1552-1846. Iðnú. Reykjavík 2000.
  • Saga Reykjavíkurskóla I-IV. Ritstj. Heimir Þorleifsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík. 1975-1984.

Myndir:


Upphaflega hljóðaði spurningin svona:
Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Á hún að vera svört ári síðar eða strax eftir útskrift ef maður ætlar að nota hana?

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

3.7.2008

Síðast uppfært

1.6.2018

Spyrjandi

Heiðrún Erna Hlöðversdóttir

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2008, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=47663.

Símon Jón Jóhannsson. (2008, 3. júlí). Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=47663

Símon Jón Jóhannsson. „Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2008. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=47663>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?
Sá siður að skólanemendur (hér áður fyrr einkum skólapiltar) klæði sig með einkennandi hætti og beri þá meðal annars sérstök höfuðföt á sér rætur allt aftur til miðaldaskólanna í Evrópu og jafnvel mætti fara enn aftar í söguna. Oftar en ekki dró þessi einkennisklæðnaður dám af fatatísku embættismanna og yfirstéttar enda var það helsta hlutverk skólanna lengi vel að undirbúa verðandi embættismenn. Skólaklæðnaðurinn gaf þá til kynna þá stéttarstöðu sem beið nemendanna.

Séra Árni Helgason (1777-1869) skrifar um klæðnað íslenskra skólapilta á 18. og 19. öld og segir þá meðal annars:
Eg minnist þess þá, að bæði í Skálholti og eins í Reykjavík voru allir skólapiltar eins búnir, nefnilega í sortaðri mussu og buxum úr íslenzku vaðmáli. Buxurnar náðu aðeins niður fyrir hnéð. Þeir voru í mórauðum sokkum venjulegast, nema á sunnudögum, þá í svartbláum, eða á seinni árum í ljósbláum, sem í Reykjavík var haldið fallegra, og með skotthúfur sýnt og heilagt með grænum eða svörtum silkiskúf og vírborða um legginn, sem ekki kostuðu mikið í samanburði við þá svo kölluðu hólka, er kvennfólk nú tíðkar. Þetta gerði skólapiltahópinn miklu fallegri á að líta, heldur en eptir að þeir fyrst á Bessatöðum urðu gulir, gráir, grænir, hvítir, rauðir, bláir, og þá urðu mussur að treyjum með ýmislegu sniði. (Árni Helgason 83-84).

Þess má svo geta að fyrirmynd íslensku kvenskotthúfunnar eru líklega prjónahúfur skólapiltanna í Skálholts- og Hólaskóla. Nánar má lesa um þetta í svari sama höfundar við spurningunni: Hver er uppruni íslensku skotthúfunnar?

Norska skáldið Henrik Wergeland (1808-1845) þegar hann var stúdent um 1825. Hann ber stúdentshúfu með stórum fellingakolli.

Stúdentshúfur eins og við þekkjum þær í dag komu fyrst til sögunnar á 19. öld en þá kom fram krafa hjá stúdentum, meðal annars á Norðurlöndunum, um að bera sérstakar húfur í stað hatta. Húfurnar voru fyrst og fremst tákn um þá stöðu og það starf sem stúdentar áttu í vændum, en jafnframt um þá sérstöðu sem fólgin var í því að vera háskólaborgari. Með tilkomu stórra norrænna stúdentamóta um miðja 19. öld skapaðist þörf fyrir aðgreinandi húfur milli mismunandi landa og háskóla. Í Noregi voru stúdentshúfurnar með kolli með fellingum og dúski á hliðinni en í Svíþjóð og Danmörku urðu kollarnir sléttir. Húfurnar voru snemma hafðar með skyggni en þegar konur tóku að sækja háskólana voru þeirra húfur fyrst um sinn hafðar án skyggnis.

Á síðari hluta 19. aldar fór að tíðkast að nota stúdentshúfur sem tákn um útskrift úr menntaskólum en um leið voru þær áfram tákn um að hlutaðeigandi væri háskólaborgari. Eftir þær breytingar sem urðu í háskólum á Vesturlöndum í kjölfar stúdentauppreisnanna á sjöunda áratug 20. aldar hættu háskólastúdentar að ganga með stúdentshúfur. Sums staðar voru þær jafnvel brenndar til að mótmæla hinu borgaralega samfélagi. Notkun stúdentshúfa sem tákn um að viðkomandi hafi lokið stúdentsprófi hefur þó lifað áfram fram á þennan dag.

Frá vinstri til hægri, bera þessir herramenn danska, norska og sænska útgáfu af stúdentshúfum.

Íslenska stúdentshúfan á sér fyrirmynd í dönsku stúdentshúfunni og að minnsta kosti frá árinu 1888 höfðu stúdentar frá Reykjavíkurskóla keypt danskar húfur og sett upp að próflokum. Með aukinni þjóðerniskennd samfara sjálfstæðisbaráttunni kom síðan fram hugmynd um sérstakar íslenskar stúdentshúfur. Stúdentar og menntaskólanemar skipuðu sameiginlega nefnd veturinn 1906-1907 um húfumálið en lítill árangur varð af starfi nefndarinnar. Árið 1910 komst húfumálið aftur á dagskrá hjá skólafélaginu Framtíð en það voru einkum Héðinn Valdimarsson (1892-1948), síðar stjórnmálamaður og verkalýðsforingi, og Guðmundur Kamban (1888-1945) rithöfundur sem létu málið til sín taka. Héðinn taldi brýnt að teknar yrðu upp íslenskar stúdentshúfur þar sem brátt yrðu brautskráðir fyrstu stúdentar úr íslenskum menntaskóla og íslenskur háskóli tæki senn til starfa. Reykjavíkurskóli var þá ekki lengur konunglegur danskur latínuskóli. Ekki urðu menn þó á eitt sáttir, ýmsar hugmyndir og tillögur að húfum komu fram, nefndir skipaðar um málið og auglýst eftir tillögum í blöðum. Það fór því svo að menn náðu ekki samkomulagi fyrir útskriftina og það sést glöggt á stúdentsmyndinni frá árinu 1910. Sumir báru bátslaga, skyggnislausa húfu, aðrir danskar stúdentshúfur, sumir voru með hvítan koll en aðrir svartan.

Árið 1913 fékk stúdentafélagið Önnu Louise Ásmundsdóttur til þess að sauma nýjar íslenskar stúdentshúfur. Mikil óánægja var með þessar húfur og þær voru lítið notaðar. Svo óheppilega vildi til að húfurnar voru ekki tilbúnar í tæka tíð fyrir útskrift svo stúdentar vorið 1913 voru húfulausir. Veturinn 1913-1914 var húfumálið enn á dagskrá, haldnir fundir og skipuð ný nefnd. Enn héldu menn áfram að karpa um stúdentshúfurnar en niðurstaðan varð loks sú að tekin skyldi upp húfa með svipaðri lögun og sú danska en með íslensku krossmerki og bláum og hvítum snúrum á borðanum. Þetta var samþykkt í janúar 1914. Tveimur árum síðar var snúrunni breytt og rauðum lit bætt við líkt og gert var við íslenska fánann. Árið 1924 kom svo stúdentastjarnan í stað krossmarks framan á húfunni.

Stúdentshúfan eins og við þekkjum hana í dag.

Hvíti kollurinn á stúdentshúfunum, sem fór að tíðkast upp úr 1920, er tákn nýstúdentsins og það hefur lengi verið til siðs að halda honum út fyrsta árið en skipta þá yfir í svarta kollinn. Við Menntaskólann á Akureyri hefur lengi tíðkast að nýstúdentar frá fyrra ári hittist í stúdentaveislu að kvöldi 16. júní, fagni árs stúdentsafmæli og taki hvíta kollinn af húfunni á miðnætti enda bætast nýir hvítir kollar í hópinn við útskrift þann 17. júní. Þá spássera eldri stúdentar um bæinn með svarta kolla.

Því má svo bæta við að það er þekkt hjátrú að þeir sem setja upp stúdentshúfu áður en þeir verða stúdentar ná aldrei prófi.

Heimildir:
  • Árni Helgason. „Frásagnir um skólalíf á Íslandi um aldamót 18. og 19. aldar. 1. Skólahættir í Skálholti og í Reykjavíkurskóla hinum forna.“ Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju IV. s.74-98. Kh. og Rv. 1907-1915.
  • Guðlaugur R. Guðmundsson. Skólalíf. Starf og siðir í latínuskólunum á Íslandi 1552-1846. Iðnú. Reykjavík 2000.
  • Saga Reykjavíkurskóla I-IV. Ritstj. Heimir Þorleifsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík. 1975-1984.

Myndir:


Upphaflega hljóðaði spurningin svona:
Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Á hún að vera svört ári síðar eða strax eftir útskrift ef maður ætlar að nota hana?

...