Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvar myndast fellibyljir helst?

Trausti Jónsson

Fellibyljir eru skæðastir og algengastir á Kyrrahafi vestanverðu, norðan miðbaugs, frá dægurlínunni vestur til Filippseyja og Suður-Kína og norður til Japans. Á þessu svæði myndast að meðaltali um 20 fellibyljir á ári. Heldur færri, eða 10-12, myndast austan til á Kyrrahafi undan ströndum Mexíkó. Fellibyljir eru einnig mjög skæðir á Kyrrahafi sunnan miðbaugs, norðaustan Ástralíu og austur fyrir dagalínuna. Á Indlandshafi eru fellibyljir algengastir sunnan miðbaugs, norðvestur af Ástralíu og vestur fyrir Madagaskar. Að meðaltali myndast um sex fellibyljir á ári á Atlantshafi, frá Vestur-Afríku allt til Mexíkóflóa í vestri og norður undir Bermúda.

Myndin sýnir brautir allra fellibylja 1985 til 2005.

Öll þessi svæði eiga það sameiginlegt að þar er yfirborðshiti sjávar hár, meiri en 26°C, að minnsta kosti hluta ársins. Þau eru einnig utan 5° fjarlægðar frá miðbaug og í suðurjaðri staðvindabeltanna. Fullvaxta fellibyljir geta haldið einkennum sínum um stund þar sem sjávarhiti er lægri, en tapa þeim fljótt yfir kaldari sjó. Þeir lifa aðeins skamma hríð yfir landi.

Í höfum hitabeltisins er hlýjasti sjórinn oft aðeins þunnt lag sem liggur ofan á betur blönduðum kaldari sjó. Fárviðri fellibyljanna og öldugangurinn sem þeim fylgir blandar hlýjasta sjónum gjarnan saman við þann sem næst undir liggur. Þetta hefur þær afleiðingar að sjávarhiti undir fellibylnum lækkar þannig að lífsskilyrði hans versna, sérstaklega ef hann situr á sama stað. Slóði af köldum sjó sést oft í kjölfari fellibylja á hitamyndum sem teknar eru úr gervihnöttum.

Fellibyljir eru að jafnaði minni um sig en lægðir hér á norðurslóðum, gjarnan á bilinu 100 til 1100 km í þvermál, meðalstærð nokkuð misjöfn eftir heimshlutum. Fárviðrið takmarkast við fremur lítið svæði rétt utan við miðju kerfisins. Hringrás fellibylja getur náð upp í meir en 16 km hæð og er ætíð sammiðja að kalla, það er miðja hennar í háloftum er beint yfir miðju niður undir sjó. Þetta er mjög ólíkt flestum lægðum á norðurslóðum. Skýjakerfið er sambreyskja mjög hávaxinna klakka og fylgja því mikil þrumuveður, eldingar og stundum skýstrokkar.

Í miðju fellibylsins er svæði með niðurstreymi, svokallað auga, og er vindur þar hægur og jafnvel sést til sólar. Vindur er að jafnaði hvassastur næst auganu, í vegg þess, sem kallað er. Hámark vindsins er í 1 til 3 km hæð, en neðar eru núningsáhrif yfirborðs nokkur, ofar dregur úr vindi og allra efst er hringhreyfingin mun flóknari en neðar, sambland af hæða- og lægðahringjum. Þar er þrýstingur hærri en umhverfis. Vindur er oftast ekki alveg samhverfur um augað, heldur er hann gjarnan mestur um það bil 45 til 90 gráður til hægri við hreyfistefnu fellibylsins (á norðurhveli). Augað er gjarnan 20 til 40 km í þvermál.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Tropical cyclone. Sótt 28. 8. 2008.

Þetta svar er hluti greinar um fellibylji á vef Veðurstofu Íslands og birt með góðfúslegu leyfi. Lesendur eru hvattir til að kynna sér greinina í heild sinni.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

29.8.2008

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvar myndast fellibyljir helst?“ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2008. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=48789.

Trausti Jónsson. (2008, 29. ágúst). Hvar myndast fellibyljir helst? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=48789

Trausti Jónsson. „Hvar myndast fellibyljir helst?“ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2008. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=48789>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar myndast fellibyljir helst?
Fellibyljir eru skæðastir og algengastir á Kyrrahafi vestanverðu, norðan miðbaugs, frá dægurlínunni vestur til Filippseyja og Suður-Kína og norður til Japans. Á þessu svæði myndast að meðaltali um 20 fellibyljir á ári. Heldur færri, eða 10-12, myndast austan til á Kyrrahafi undan ströndum Mexíkó. Fellibyljir eru einnig mjög skæðir á Kyrrahafi sunnan miðbaugs, norðaustan Ástralíu og austur fyrir dagalínuna. Á Indlandshafi eru fellibyljir algengastir sunnan miðbaugs, norðvestur af Ástralíu og vestur fyrir Madagaskar. Að meðaltali myndast um sex fellibyljir á ári á Atlantshafi, frá Vestur-Afríku allt til Mexíkóflóa í vestri og norður undir Bermúda.

Myndin sýnir brautir allra fellibylja 1985 til 2005.

Öll þessi svæði eiga það sameiginlegt að þar er yfirborðshiti sjávar hár, meiri en 26°C, að minnsta kosti hluta ársins. Þau eru einnig utan 5° fjarlægðar frá miðbaug og í suðurjaðri staðvindabeltanna. Fullvaxta fellibyljir geta haldið einkennum sínum um stund þar sem sjávarhiti er lægri, en tapa þeim fljótt yfir kaldari sjó. Þeir lifa aðeins skamma hríð yfir landi.

Í höfum hitabeltisins er hlýjasti sjórinn oft aðeins þunnt lag sem liggur ofan á betur blönduðum kaldari sjó. Fárviðri fellibyljanna og öldugangurinn sem þeim fylgir blandar hlýjasta sjónum gjarnan saman við þann sem næst undir liggur. Þetta hefur þær afleiðingar að sjávarhiti undir fellibylnum lækkar þannig að lífsskilyrði hans versna, sérstaklega ef hann situr á sama stað. Slóði af köldum sjó sést oft í kjölfari fellibylja á hitamyndum sem teknar eru úr gervihnöttum.

Fellibyljir eru að jafnaði minni um sig en lægðir hér á norðurslóðum, gjarnan á bilinu 100 til 1100 km í þvermál, meðalstærð nokkuð misjöfn eftir heimshlutum. Fárviðrið takmarkast við fremur lítið svæði rétt utan við miðju kerfisins. Hringrás fellibylja getur náð upp í meir en 16 km hæð og er ætíð sammiðja að kalla, það er miðja hennar í háloftum er beint yfir miðju niður undir sjó. Þetta er mjög ólíkt flestum lægðum á norðurslóðum. Skýjakerfið er sambreyskja mjög hávaxinna klakka og fylgja því mikil þrumuveður, eldingar og stundum skýstrokkar.

Í miðju fellibylsins er svæði með niðurstreymi, svokallað auga, og er vindur þar hægur og jafnvel sést til sólar. Vindur er að jafnaði hvassastur næst auganu, í vegg þess, sem kallað er. Hámark vindsins er í 1 til 3 km hæð, en neðar eru núningsáhrif yfirborðs nokkur, ofar dregur úr vindi og allra efst er hringhreyfingin mun flóknari en neðar, sambland af hæða- og lægðahringjum. Þar er þrýstingur hærri en umhverfis. Vindur er oftast ekki alveg samhverfur um augað, heldur er hann gjarnan mestur um það bil 45 til 90 gráður til hægri við hreyfistefnu fellibylsins (á norðurhveli). Augað er gjarnan 20 til 40 km í þvermál.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: Tropical cyclone. Sótt 28. 8. 2008.

Þetta svar er hluti greinar um fellibylji á vef Veðurstofu Íslands og birt með góðfúslegu leyfi. Lesendur eru hvattir til að kynna sér greinina í heild sinni....