
Seltan er þó ekki bundin af efnajafnvægi við steindir, heldur stjórnast hún af hraða veðrunar, annars vegar, og brottnámi salts úr sjónum hins vegar. Þar eru helstu ferli uppgufun á strandsvæðum heitra landa, binding sjóvatns í sjávarseti og efnahvörf milli sjávar og hafsbotnsskorpunnar. Flekahreyfingar valda því svo að salti er skilað niður í jarðmöttulinn á sökkbeltum (niðurstreymisbeltum). Selta sjávar er um 35 g/kg af sjó, og þar af eru 10,7 g Na og 19,25 g Cl, þannig að sjávarsalt er að stærstum hluta NaCl (natríum klóríð). Natríum losnar að mestu við efnaveðrun á landi, eins og fyrr sagði, en við afloftun (e. degassing) jarðar berst klór sem HCl (saltsýra) í sjó og loft úr eldfjöllum og jarðhitasvæðum. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaðan kom hafið? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvers vegna er sjórinn saltur? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvaðan kemur saltið? Er það sama saltið og er í sjónum? eftir Ulriku Andersson
- Af hverju er salt í sjónum en ekki í vatninu sem við drekkum? eftir ÞV