
Hjá Veðurstofu Íslands er upplýsingum haldið til haga um snjóflóð. Þar hefur landinu öllu verið skipt upp í misstór svæði og þau flóð skráð sem vitað er um á hverju svæði. Þegar þessi gögn eru skoðuð kemur í ljós að flest flóð eru skráð í nágrenni Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Flateyrar, í nágrenni Siglufjarðar, í Svarfaðardal, Seyðisfirði og Neskaupstað.
Svæði | Fjöldi skráðra flóða |
Siglufjörður og nágrenni | 437 |
Flateyri og nágrenni (Önundarfjörður) | 392 |
Ísafjörður og nágrenni (Skutulsfjörður) | 314 |
Í nágrenni Dalvíkur (Svarfaðardalur) | 295 |
Bolungarvík og nágrenni | 275 |
Neskaupstaður og Norðfjörður utan þéttbýlis | 215 |
Seyðisfjörður og nágrenni | 188 |
Fnjóskadalur | 150 |
Ólafsfjörður og nágrenni | 102 |
Hnífsdalur | 101 |
Til þess að flóð séu skráð þarf einhver að taka eftir þeim og tilkynna um þau. Á flestum ofangreindum stöðum starfa snjóathugunarmenn á vegum Veðurstofunnar og eitt af hlutverkum þeirra er að skrá flóð. Það má því segja að það sé ein ástæðan fyrir því að flóðin eru flest á þessum svæðum. En engu að síður voru snjóathugunarmenn ráðnir á þessi svæði vegna þess að þar er snjóflóðahættan talin einna mest í byggð. Þá þarf einnig að taka fram að þetta eru staðir þar sem unnið hefur verið snjóflóðahættumat. Liður í slíku hættumati er að afla upplýsinga á ýmsan hátt um snjóflóð á svæðinu. Allsstaðar þar sem snjór safnast saman í bröttum fjöllum getur skapast snjóflóðahætta. Fyrir ferðamenn á fjöllum felst hættan helst í því að viðkomandi setji af stað flóð sjálfir og er sú hætta því annars eðlis en snjóflóðahætta í byggð. Hægt er að lesa meira um snjóflóð í svari Hörpu Grímsdóttur við spurningunni: Af hverju falla snjóflóð? Mynd: Eiríkur Gíslason.