
Önnur fjölmennasta eyjan af þessum sjö er Hrísey á Eyjafirði, en hún er jafnframt önnur stærsta eyjan við Ísland. Þann 1. janúar 2009 voru Hríseyjarbúar 186 talsins samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Þriðja fjölmennasta eyjan við Ísland er Grímsey en hún mun vera í fjórða sæti yfir stærstu eyjarnar við landið. Íbúar Grímseyjar voru 92 í upphafi árs 2009. Hægt er að lesa um Grímsey í nokkrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis í svari við spurningunni Hvenær og hvers vegna hófst byggð í Grímsey? Á hinum eyjunum fimm, Flatey og Skáleyjum á Breiðafirði, Æðey og Vigur í Ísafjarðardjúpi og Hvaleyjum á Faxaflóa, er mjög fámennt að staðaldri, jafnvel ekki nema ein fjölskylda, og hugsanlega ekki heilsársbúseta þótt fólk eigi þar lögheimili. Reyndar er lítill byggðakjarni í Flatey en mjög fáir sem þar eiga lögheimili.

Áður fyrr var búið á mun fleiri eyjum umhverfis Íslands en margar þeirra fóru í eyði á síðustu öld. Má þar nefna Viðey á Faxaflóa, eina sögufrægustu eyjuna við Ísland. Flestir urðu íbúarnir í þorpinu í Viðey 138 talsins árið 1930. Eftir það fækkaði þeim og árið 1943 fór þorpið í eyði. Búskapur var hins vegar stundaður áfram í eyjunni fram á sjötta áratuginn en þá lagðist búseta í Viðey af. Í dag eru hins vegar fjölmargir sem heimsækja Viðey á hverju ári. Annað dæmi um eyju þar sem áður var nokkur byggð en komin er í eyði er Flatey á Skjálfanda, fimmta stærsta eyjan við Ísland. Þegar mest var fyrir miðja síðust öld voru íbúar þar um 120. Síðustu 40 ár hefur hins vegar aðeins verið búið í eyjunni yfir sumarið. Heimildir og myndir:
- Hagstofa Íslands. Skoðað 25. 2. 2009.
- Eyjasigling. Skoðað 25. 2. 2009
- Viðey. Skoðað 25. 2. 2009.
- Flatey á Skjálfandaflóa. Skoðað 26. 2. 2009
- Myndir: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. Sóttar 26. 2. 2009.