
Lendi banki hins vegar í vandræðum, þannig að vafi leikur á að hann eigi fyrir skuldbindingum sínum getur hann orðið fyrir svokölluðu áhlaupi (e. bank run). Þá koma innstæðueigendur unnvörpum og taka út fé sitt. Þá getur gengið hratt á laust fé viðkomandi banka. Hann getur alla jafna ekki krafist þess að þeir sem fengið hafa lán í bankanum greiði þau upp í snatri og verður því að leita annað eftir lausu fé. Nái bankinn ekki að tryggja sér laust fé á markaði, til dæmis með því að taka lán í öðrum bönkum, gefa út skuldabréf eða selja eignir þá getur hann neyðst til að leita til viðkomandi seðlabanka. Seðlabankar gegna hlutverki þrautalánveitanda (e. lender of last resort) í nútímafjármálakerfum. Þegar viðskiptabanki neyðist til að leita til seðlabanka þá metur sá síðarnefndi hvort hann eigi að koma bankanum til aðstoðar með láni eða með öðrum hætti. Önnur úrræði seðlabanka en lánveitingar eru meðal annars að leggja viðskiptabankanum til aukið eigið fé, taka yfir rekstur bankans eða að beita sér fyrir yfirtöku hans af hálfu annars banka sem er betur stæður. Vegna þess að bankar lána mest af því fé út aftur sem inn í þá er lagt þá getur bankakerfið í heild í raun búið til peninga. Innlán eins verður að útláni til annars, sem verður fyrr eða síðar lagt aftur inn í banka. Þá er hægt að lána féð út aftur og þannig koll af kolli. Þetta er skýrt út í svari við spurningunni Hvernig eykst magn peninga í umferð í heiminum?
Dragi bankar úr útlánum af einhverjum ástæðum þá minnkar að sama skapi magn peninga í umferð í heiminum. Minni útlán til eins þýða minni innlán annars, sem þýðir aftur minni útlán og þannig koll af kolli. Mynd:
- Wikimedia.org. Sótt 2.12.2008.