Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Af hverju gengur fólk í hjónaband?

Sólveig Anna Bóasdóttir

Orðalag þessarar spurningar krefst í raun réttri að svarið komi frá þeim sem leggja stund á félagsfræðilegar rannsóknir og hafa rannsakað raunverulegar ástæður þess að fólk gangi í hjónaband. Vísast er að svörin við spurningunni, væri hún borin fram í dag í víðtækri könnun, yrðu margvísleg. Einnig er trúlegt að svör fólks í samtímanum væru að einhverju leyti annars konar en þau svör sem fólk hefði gefið fyrr á tímum. Hjónaband nú um stundir er nefnilega ekki sama félagslega fyrirbærið og það var fyrir þúsund árum, fimm hundruð árum, hundrað árum og jafnvel fimmtíu árum. Tímarnir hafa breyst og hjónabandið með. Hvað er þá hjónaband?

Þar til mjög nýlega, þegar lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra einstaklinga hófst á einstaka stað í heiminum, hefur hjónaband verið sá „staður“ þar sem tveir einstaklingar, karl og kona, koma saman og stofna fjölskyldu. Í hjónabandinu sameinast karl og kona kynferðislega, „verða eitt hold“, eins og það er orðað í Gamla testamentinu, geta börn, fæða þau og ala upp. Hefðbundinn skilningur á hjónabandinu og inntaki þess, gjarnan með tilvísun í Biblíuna, hefur verið sá að vernd og uppeldi barna sé einn megintilgangur þess. Börn, samkvæmt þessu viðhorfi, þurfa bæði föður og móður, sem og hina karlmannlegu og kvenlegu fyrirmynd, til þess að þroskast og verða að fólki. Eins og þekkt er hefur þessum skilningi verið beitt til þess að færa rök gegn því að samkynhneigð pör fái aðgang að hjónabandinu enda sé það gagnkynhneigð stofnun frá örófi alda. Gagnkynhneigðarhyggja hefur verið ráðandi viðmið bæði hjónabands- og fjölskyldustofnunarinnar eins og við þekkjum þær í menningu okkar. Jafnframt hafa þessar stofnanir sögulega verið undir yfirráðum karlmanna sem hafa haft vald yfir konum, börnum og öðru heimilisfólki. Þetta sjónarmið hafa femínistar undirstrikað ötullega síðustu áratugi og tengt við kúgun, mismunun og ofbeldi gegn konum og börnum en ekki einungis þá hópa heldur einnig kúgun gagnvart samkynhneigðum pörum sem lengst af fengu ekki aðgang að hjónabandinu.

Samkvæmt hjúskaparlögum eru hjón í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.

Lagasetningar um hjónaband gera tveimur fullorðnum einstaklingum það kleift að taka ákvörðun um að lifa saman og njóta þar með ýmissa réttinda sem því fylgir. Tveir fullorðnir einstaklingar geta auðvitað ákveðið að lifa saman án þess að ganga í hjónaband en það sem fyrst og fremst aðgreinir hjónaband frá slíkri sambúð er að það að ekki hægt að slíta hjónabandinu nema eftir leiðum sem segja má að séu lagalega mun flóknari en sambúðarslit. Hvað þetta atriði varðar er ekki úr vegi að spyrja af hverju nokkur manneskja myndi kjósa að ganga í hjónaband, þegar ljóst er að frekar flókið er að komast úr því. Þegar hingað er komið sögu má reyna að umorða upprunalegu spurninguna lítillega og spyrja: Hver er eiginlega ávinningur þess að ganga í hjónaband?

Auðvitað er það langt því frá að allir séu sammála um að nokkur ávinningur felist í því að ganga í hjónaband. Ekki síst hafa femínistar gagnrýnt hjónabandið sem stofnun, eins og áður hefur verið nefnt, en ég mun ekki dvelja við röksemdir þeirra hér þar sem spurningin gengur ekki út á vankanta hjónabandsins heldur fremur ávinning. Ég leyfi mér að umorða spurninguna enn lítið eitt og hljóðar hún þá svo: Af hverju fólk gengur fólk í hjónaband, þrátt fyrir allt! Hver er eiginlega ávinningurinn?

William M. Hohengarten telur ávinninginn felast í því að hjón mega kynna sig gagnvart umheiminum sem viðurkennda einingu og þessi eining nýtur samfélagslegrar virðingar. Virðingin er því ávinningurinn. Að vera lögleg hjón skapar þeim samfélagslegan virðingarsess. Hin nýja staða þeirra sem einingar felur í sér bæði friðhelgi og sjálfræði sem eru á vissan hátt tvær hliðar á sömu mynt. Friðhelgi einkalífs hjóna er varin með lögum. Hjón hafa rétt til að móta líf sitt eftir eigin höfði, án þess að eiga það á hættu að yfirvöld skipti sér af því. Í friðhelginni felst því sjálfræði og hvort tveggja skapar virðingu. Þessi gæði eru að sönnu mjög jákvæð, heldur Hohengarten fram, og bætir við að þau ættu að standa samkynhneigðum pörum jafnt og gagnkynhneigðum til boða. Mismunun á þessu sviði sé óréttlætanleg.

Ég tel að skilningur Hohengartens sé réttur, nefnilega að mikilvæg gildi megi tengja hjónabandsstofnuninni. Flestir fullorðnir einstaklingar gera sér áreiðanlega vel grein fyrir þessum gæðum. Friðhelgin og sjálfræðið sem hann nefnir eru að sönnu eftirsóknarverð sem slík og skiljanlegt að margir sækist eftir að haga einkalífi sínu í samræmi við þau. Þessi gildi gætu því skýrt að einhverju leyti af hverju fólk gengur í hjónaband. Þá geta þau einnig skýrt af hverju samkynhneigð pör víða um heim hafa sóst eftir að lögum verði breytt til að þau öðlist réttindi til að ganga í hjónaband. Auk þeirra gilda sem Hohengarten bendir á og ég tek undir má bæta því við að hugsjón hjónabandsins, eins og við þekkjum hana í menningu okkar, er sú að í hjónabandinu felist umfram allt frelsi og jafnræði tveggja einstaklinga. Frelsi til að velja maka og frelsi til að samþykkja það val. Frelsi til að lifa því lífi sem maður kýs í samfélagi og samkomulagi við maka sinn. Hjónabandið sem hugsjón er þannig samband tveggja frjálsra og jafnrétthárra einstaklinga sem hafa valið hvor annan til að deila lífi og kjörum. Þetta er meginhugsjón flestra um hjónabandið en hvort tekst að raungera þá hugsjón er önnur saga sem ekki verður fjallað um hér.

Mynd:

Höfundur

dósent í guðfræðilegri siðfræði við H.Í.

Útgáfudagur

11.12.2013

Spyrjandi

Ingi Hrafn Pálsson

Tilvísun

Sólveig Anna Bóasdóttir. „Af hverju gengur fólk í hjónaband?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2013. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51052.

Sólveig Anna Bóasdóttir. (2013, 11. desember). Af hverju gengur fólk í hjónaband? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51052

Sólveig Anna Bóasdóttir. „Af hverju gengur fólk í hjónaband?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2013. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51052>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju gengur fólk í hjónaband?
Orðalag þessarar spurningar krefst í raun réttri að svarið komi frá þeim sem leggja stund á félagsfræðilegar rannsóknir og hafa rannsakað raunverulegar ástæður þess að fólk gangi í hjónaband. Vísast er að svörin við spurningunni, væri hún borin fram í dag í víðtækri könnun, yrðu margvísleg. Einnig er trúlegt að svör fólks í samtímanum væru að einhverju leyti annars konar en þau svör sem fólk hefði gefið fyrr á tímum. Hjónaband nú um stundir er nefnilega ekki sama félagslega fyrirbærið og það var fyrir þúsund árum, fimm hundruð árum, hundrað árum og jafnvel fimmtíu árum. Tímarnir hafa breyst og hjónabandið með. Hvað er þá hjónaband?

Þar til mjög nýlega, þegar lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra einstaklinga hófst á einstaka stað í heiminum, hefur hjónaband verið sá „staður“ þar sem tveir einstaklingar, karl og kona, koma saman og stofna fjölskyldu. Í hjónabandinu sameinast karl og kona kynferðislega, „verða eitt hold“, eins og það er orðað í Gamla testamentinu, geta börn, fæða þau og ala upp. Hefðbundinn skilningur á hjónabandinu og inntaki þess, gjarnan með tilvísun í Biblíuna, hefur verið sá að vernd og uppeldi barna sé einn megintilgangur þess. Börn, samkvæmt þessu viðhorfi, þurfa bæði föður og móður, sem og hina karlmannlegu og kvenlegu fyrirmynd, til þess að þroskast og verða að fólki. Eins og þekkt er hefur þessum skilningi verið beitt til þess að færa rök gegn því að samkynhneigð pör fái aðgang að hjónabandinu enda sé það gagnkynhneigð stofnun frá örófi alda. Gagnkynhneigðarhyggja hefur verið ráðandi viðmið bæði hjónabands- og fjölskyldustofnunarinnar eins og við þekkjum þær í menningu okkar. Jafnframt hafa þessar stofnanir sögulega verið undir yfirráðum karlmanna sem hafa haft vald yfir konum, börnum og öðru heimilisfólki. Þetta sjónarmið hafa femínistar undirstrikað ötullega síðustu áratugi og tengt við kúgun, mismunun og ofbeldi gegn konum og börnum en ekki einungis þá hópa heldur einnig kúgun gagnvart samkynhneigðum pörum sem lengst af fengu ekki aðgang að hjónabandinu.

Samkvæmt hjúskaparlögum eru hjón í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.

Lagasetningar um hjónaband gera tveimur fullorðnum einstaklingum það kleift að taka ákvörðun um að lifa saman og njóta þar með ýmissa réttinda sem því fylgir. Tveir fullorðnir einstaklingar geta auðvitað ákveðið að lifa saman án þess að ganga í hjónaband en það sem fyrst og fremst aðgreinir hjónaband frá slíkri sambúð er að það að ekki hægt að slíta hjónabandinu nema eftir leiðum sem segja má að séu lagalega mun flóknari en sambúðarslit. Hvað þetta atriði varðar er ekki úr vegi að spyrja af hverju nokkur manneskja myndi kjósa að ganga í hjónaband, þegar ljóst er að frekar flókið er að komast úr því. Þegar hingað er komið sögu má reyna að umorða upprunalegu spurninguna lítillega og spyrja: Hver er eiginlega ávinningur þess að ganga í hjónaband?

Auðvitað er það langt því frá að allir séu sammála um að nokkur ávinningur felist í því að ganga í hjónaband. Ekki síst hafa femínistar gagnrýnt hjónabandið sem stofnun, eins og áður hefur verið nefnt, en ég mun ekki dvelja við röksemdir þeirra hér þar sem spurningin gengur ekki út á vankanta hjónabandsins heldur fremur ávinning. Ég leyfi mér að umorða spurninguna enn lítið eitt og hljóðar hún þá svo: Af hverju fólk gengur fólk í hjónaband, þrátt fyrir allt! Hver er eiginlega ávinningurinn?

William M. Hohengarten telur ávinninginn felast í því að hjón mega kynna sig gagnvart umheiminum sem viðurkennda einingu og þessi eining nýtur samfélagslegrar virðingar. Virðingin er því ávinningurinn. Að vera lögleg hjón skapar þeim samfélagslegan virðingarsess. Hin nýja staða þeirra sem einingar felur í sér bæði friðhelgi og sjálfræði sem eru á vissan hátt tvær hliðar á sömu mynt. Friðhelgi einkalífs hjóna er varin með lögum. Hjón hafa rétt til að móta líf sitt eftir eigin höfði, án þess að eiga það á hættu að yfirvöld skipti sér af því. Í friðhelginni felst því sjálfræði og hvort tveggja skapar virðingu. Þessi gæði eru að sönnu mjög jákvæð, heldur Hohengarten fram, og bætir við að þau ættu að standa samkynhneigðum pörum jafnt og gagnkynhneigðum til boða. Mismunun á þessu sviði sé óréttlætanleg.

Ég tel að skilningur Hohengartens sé réttur, nefnilega að mikilvæg gildi megi tengja hjónabandsstofnuninni. Flestir fullorðnir einstaklingar gera sér áreiðanlega vel grein fyrir þessum gæðum. Friðhelgin og sjálfræðið sem hann nefnir eru að sönnu eftirsóknarverð sem slík og skiljanlegt að margir sækist eftir að haga einkalífi sínu í samræmi við þau. Þessi gildi gætu því skýrt að einhverju leyti af hverju fólk gengur í hjónaband. Þá geta þau einnig skýrt af hverju samkynhneigð pör víða um heim hafa sóst eftir að lögum verði breytt til að þau öðlist réttindi til að ganga í hjónaband. Auk þeirra gilda sem Hohengarten bendir á og ég tek undir má bæta því við að hugsjón hjónabandsins, eins og við þekkjum hana í menningu okkar, er sú að í hjónabandinu felist umfram allt frelsi og jafnræði tveggja einstaklinga. Frelsi til að velja maka og frelsi til að samþykkja það val. Frelsi til að lifa því lífi sem maður kýs í samfélagi og samkomulagi við maka sinn. Hjónabandið sem hugsjón er þannig samband tveggja frjálsra og jafnrétthárra einstaklinga sem hafa valið hvor annan til að deila lífi og kjörum. Þetta er meginhugsjón flestra um hjónabandið en hvort tekst að raungera þá hugsjón er önnur saga sem ekki verður fjallað um hér.

Mynd:

...