Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 18:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:55 • Síðdegis: 24:31 í Reykjavík

Hvað er læknisfræðinám við Háskóla Íslands langt?

Þórdís Kristinsdóttir

Fullmenntaður læknir á Íslandi hefur að baki 12-14 ára menntun og þjálfun, en jafnvel meira hafi hann lokið doktorsnámi.

Formleg kennsla í læknisfræði hófst á Íslandi með stofnun Læknaskólans árið 1876. Læknadeild Háskóla Íslands var stofnuð um leið og skólinn sjálfur árið 1911 og síðan þá hafa yfir 2000 læknar verið brautskráðir frá deildinni. Frá árinu 2003 hefur verið haldið inntökupróf í læknisfræði í júní ár hvert en nú komast 48 nýnemar að í deildina á ári. Fjöldatakmörkunin miðast við áætlaða kennslugetu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sem Læknadeild er í samvinnu við. Allir þeir sem hafa lokið stúdentsprófi geta þreytt prófið en þátttökugjald er nú 15.000 krónur.

Fullmenntaður læknir hefur lokið löngu og krefjandi námi.

Fyrst er sex ára grunnám við Læknadeild HÍ. Fyrri þrjú árin eru nánast eingöngu bókleg kennsla en seinni þrjú eru verknám á spítala samfara bóklegu námi. Að grunnámi loknu tekur við kandídatsár sem er skipulagt verknám á spítala og að því loknu fæst starfsleyfi. Langflestir læknar afla sér síðan sérfræðimenntunar sem er að lágmarki fimm ár.

Á fyrsta og öðru ári fræðast nemar um byggingu og starfsemi heilbrigðs líkama. Kennd eru grunnfög á borð við eðlis- og efnafræði, auk líffærafræði, fósturfræði, vefjafræði, frumulíffræði, lífefna- og lífeðlisfræði og fleiri faga. Einnig er veitt tilsögn um samskipti við sjúklinga og aðferðir til að viðhalda þekkingu.

Á þriðja ári er sjónum beint að þáttum sem truflað geta eðlilega líkamsstarfsemi og valdið sjúkdómum, auk grunns að meðferðum við þeim með kennslu í meinafræði, ónæmisfræði, lyfjafræði og fleiru. Í lok árs er tólf vikna rannsóknatímabil þar sem læknanemar vinna að sjálfstæðum rannsóknum undir handleiðslu kennara. Unnt er að taka þennan hluta námsins í útlöndum.

Á fjórða ári hefst verknám á spítala og nemendur kynnast bæði skurðdeild og lyflækningadeild. Kennt er að skrá sjúkrasögu, skoða sjúklinga, hvernig gera skal grein fyrir vandamálum þeirra og veita meðferð með handlæknis- og lyflæknisfræði. Einnig eru haldin námskeið um háls-, nef- og eyrnasjúkdóma, myndgreiningu og meinefnafræði. Mörgum læknanemum þykir álagið og streitan mest á fjórða árinu því þá tekur alvaran á sjúkrastofnunum við og mikið ríður á að standa sig. Eftir árið hafa læknanemar leyfi til þess að leysa af lækni.

Á fimmta ári fer fram fjölbreytt bóklegt og verklegt nám á Landspítalanum í geðsjúkdómum, taugasjúkdómum, barnasjúkdómum, fæðinga- og kvensjúkdómum, augnsjúkdómum, húð- og kynsjúkdómum auk náms í erfðalæknisfræði.

Á sjötta ári er meðal annars kennsla í heimilislækningum, svæfingalækningum, krabbameinslækningum, heilbrigðisfræði og endurhæfingalæknisfræði. Einnig er fjallað um gæðamál og stjórnun, lyfjafyrirmæli, atvikaskráningu, rafræna sjúkraskrá og fleira. Á vorönn er valtímabil þar sem nemendur geta valið mismunandi sjúkrahúsdeildir, heilbrigðis- og rannsóknarstofnanir eftir áhugasviði og kynnt sér þær með sérnám í huga. Í lok annar er svo veigamikið amerískt próf, CCSE (Comprehensive Clinical Science Examination). Prófið hefur forspárgildi fyrir svokallað USMLE-próf sem læknar þurfa að taka til að starfa eða læra í Bandaríkjunum.

Að loknu lokaprófi (cand. med.) tekur við kandídatsár. Kandídatsnemi aflar sér reynslu með því að flakka á milli helstu deilda sjúkrahússins. Nemar eru fjóra mánuði í lyflækningum, þrjá í heimilislækningum, tvo mánuði í skurðlækningum og hafa þrjá mánuði í val. Hægt er að taka kandídatsárið í útlöndum en flestir kjósa að kynnast betur spítalanum hér heima. Að árinu loknu fæst almennt lækningaleyfi.

Málverkið Læknirinn eftir Luke Fildes.

Sérfræðimenntun er að lágmarki fimm ára sérhæfð starfsþjálfun og að því loknu fæst sérfræðipróf, en á þessu tímabili hafa læknar hafið störf. Á Íslandi er unnt að ljúka sérnámi í heimilislækningum og geðlækningum, auk þess að hefja sérnám í fleiri greinum. Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafa sett á laggirnar allt að þriggja ára námsstöður í nokkrum greinum. Læknar fá þá hluta námsins hér metið og klára það erlendis. Þetta gildir þó ekki um Bandaríkin þar sem skipulag námsins er frábrugðið okkar. Heilbrigðisráðuneytið vinnur að því að auka möguleika til sérnáms á Íslandi og koma því í fastari skorður. Það gefur ungum læknum færi á að afla sér frekari reynslu áður en þeir halda erlendis auk þess sem þetta færir Landspítalanum reyndari starfskraft. Fjárhagsskortur setur þó strik í reikninginn og læknar í sérfræðinámi eru fyrst og fremst starfskraftur og þarfir spítalans ganga fyrir fræðslu. Mikið álag er á íslenskum unglæknum og stefnir í hálfgerðan landflótta vegna lélegra launa og vinnuaðstöðu og langs vinnutíma.

Langflestir Íslendingar kjósa að fara erlendis í sérfræðinám, helst til Norðurlandanna og verður Svíþjóð oftast fyrir valinu. Jafnhliða klínísku námi er boðið upp á sérstök skipulögð námskeið fyrir hverja sérgrein. Ofgnótt sérgreina eru í boði og því úr nógu að velja fyrir lækna að loknu kandídatsári. Í mörgum sérgreinum má taka tveggja til sex ára skipulagt sérnám að auki til að ljúka doktorsprófi.

Á Norðurlöndunum er lengd og skipulag námsins svipað og hér á landi, þótt klínískt nám hefjist fyrr. Í Bandaríkjunum hefst aftur á móti sjálft læknisfræðinámið að loknu fjögurra ára fornámi en læknisfræðinámið er einnig fjögur ár og að því loknu tekur við þriggja til sjö ára sérfræði- og starfsnám.

Heimildir og myndir:

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.8.2011

Spyrjandi

Sara Mosadsdóttir Mansour, f. 1996, Unnur Jónsdóttir, Þórður Gunnarsson, Gunnlaugur Bragi Björnsson

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað er læknisfræðinám við Háskóla Íslands langt?“ Vísindavefurinn, 4. ágúst 2011. Sótt 21. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51249.

Þórdís Kristinsdóttir. (2011, 4. ágúst). Hvað er læknisfræðinám við Háskóla Íslands langt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51249

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað er læknisfræðinám við Háskóla Íslands langt?“ Vísindavefurinn. 4. ágú. 2011. Vefsíða. 21. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51249>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er læknisfræðinám við Háskóla Íslands langt?
Fullmenntaður læknir á Íslandi hefur að baki 12-14 ára menntun og þjálfun, en jafnvel meira hafi hann lokið doktorsnámi.

Formleg kennsla í læknisfræði hófst á Íslandi með stofnun Læknaskólans árið 1876. Læknadeild Háskóla Íslands var stofnuð um leið og skólinn sjálfur árið 1911 og síðan þá hafa yfir 2000 læknar verið brautskráðir frá deildinni. Frá árinu 2003 hefur verið haldið inntökupróf í læknisfræði í júní ár hvert en nú komast 48 nýnemar að í deildina á ári. Fjöldatakmörkunin miðast við áætlaða kennslugetu sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana sem Læknadeild er í samvinnu við. Allir þeir sem hafa lokið stúdentsprófi geta þreytt prófið en þátttökugjald er nú 15.000 krónur.

Fullmenntaður læknir hefur lokið löngu og krefjandi námi.

Fyrst er sex ára grunnám við Læknadeild HÍ. Fyrri þrjú árin eru nánast eingöngu bókleg kennsla en seinni þrjú eru verknám á spítala samfara bóklegu námi. Að grunnámi loknu tekur við kandídatsár sem er skipulagt verknám á spítala og að því loknu fæst starfsleyfi. Langflestir læknar afla sér síðan sérfræðimenntunar sem er að lágmarki fimm ár.

Á fyrsta og öðru ári fræðast nemar um byggingu og starfsemi heilbrigðs líkama. Kennd eru grunnfög á borð við eðlis- og efnafræði, auk líffærafræði, fósturfræði, vefjafræði, frumulíffræði, lífefna- og lífeðlisfræði og fleiri faga. Einnig er veitt tilsögn um samskipti við sjúklinga og aðferðir til að viðhalda þekkingu.

Á þriðja ári er sjónum beint að þáttum sem truflað geta eðlilega líkamsstarfsemi og valdið sjúkdómum, auk grunns að meðferðum við þeim með kennslu í meinafræði, ónæmisfræði, lyfjafræði og fleiru. Í lok árs er tólf vikna rannsóknatímabil þar sem læknanemar vinna að sjálfstæðum rannsóknum undir handleiðslu kennara. Unnt er að taka þennan hluta námsins í útlöndum.

Á fjórða ári hefst verknám á spítala og nemendur kynnast bæði skurðdeild og lyflækningadeild. Kennt er að skrá sjúkrasögu, skoða sjúklinga, hvernig gera skal grein fyrir vandamálum þeirra og veita meðferð með handlæknis- og lyflæknisfræði. Einnig eru haldin námskeið um háls-, nef- og eyrnasjúkdóma, myndgreiningu og meinefnafræði. Mörgum læknanemum þykir álagið og streitan mest á fjórða árinu því þá tekur alvaran á sjúkrastofnunum við og mikið ríður á að standa sig. Eftir árið hafa læknanemar leyfi til þess að leysa af lækni.

Á fimmta ári fer fram fjölbreytt bóklegt og verklegt nám á Landspítalanum í geðsjúkdómum, taugasjúkdómum, barnasjúkdómum, fæðinga- og kvensjúkdómum, augnsjúkdómum, húð- og kynsjúkdómum auk náms í erfðalæknisfræði.

Á sjötta ári er meðal annars kennsla í heimilislækningum, svæfingalækningum, krabbameinslækningum, heilbrigðisfræði og endurhæfingalæknisfræði. Einnig er fjallað um gæðamál og stjórnun, lyfjafyrirmæli, atvikaskráningu, rafræna sjúkraskrá og fleira. Á vorönn er valtímabil þar sem nemendur geta valið mismunandi sjúkrahúsdeildir, heilbrigðis- og rannsóknarstofnanir eftir áhugasviði og kynnt sér þær með sérnám í huga. Í lok annar er svo veigamikið amerískt próf, CCSE (Comprehensive Clinical Science Examination). Prófið hefur forspárgildi fyrir svokallað USMLE-próf sem læknar þurfa að taka til að starfa eða læra í Bandaríkjunum.

Að loknu lokaprófi (cand. med.) tekur við kandídatsár. Kandídatsnemi aflar sér reynslu með því að flakka á milli helstu deilda sjúkrahússins. Nemar eru fjóra mánuði í lyflækningum, þrjá í heimilislækningum, tvo mánuði í skurðlækningum og hafa þrjá mánuði í val. Hægt er að taka kandídatsárið í útlöndum en flestir kjósa að kynnast betur spítalanum hér heima. Að árinu loknu fæst almennt lækningaleyfi.

Málverkið Læknirinn eftir Luke Fildes.

Sérfræðimenntun er að lágmarki fimm ára sérhæfð starfsþjálfun og að því loknu fæst sérfræðipróf, en á þessu tímabili hafa læknar hafið störf. Á Íslandi er unnt að ljúka sérnámi í heimilislækningum og geðlækningum, auk þess að hefja sérnám í fleiri greinum. Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hafa sett á laggirnar allt að þriggja ára námsstöður í nokkrum greinum. Læknar fá þá hluta námsins hér metið og klára það erlendis. Þetta gildir þó ekki um Bandaríkin þar sem skipulag námsins er frábrugðið okkar. Heilbrigðisráðuneytið vinnur að því að auka möguleika til sérnáms á Íslandi og koma því í fastari skorður. Það gefur ungum læknum færi á að afla sér frekari reynslu áður en þeir halda erlendis auk þess sem þetta færir Landspítalanum reyndari starfskraft. Fjárhagsskortur setur þó strik í reikninginn og læknar í sérfræðinámi eru fyrst og fremst starfskraftur og þarfir spítalans ganga fyrir fræðslu. Mikið álag er á íslenskum unglæknum og stefnir í hálfgerðan landflótta vegna lélegra launa og vinnuaðstöðu og langs vinnutíma.

Langflestir Íslendingar kjósa að fara erlendis í sérfræðinám, helst til Norðurlandanna og verður Svíþjóð oftast fyrir valinu. Jafnhliða klínísku námi er boðið upp á sérstök skipulögð námskeið fyrir hverja sérgrein. Ofgnótt sérgreina eru í boði og því úr nógu að velja fyrir lækna að loknu kandídatsári. Í mörgum sérgreinum má taka tveggja til sex ára skipulagt sérnám að auki til að ljúka doktorsprófi.

Á Norðurlöndunum er lengd og skipulag námsins svipað og hér á landi, þótt klínískt nám hefjist fyrr. Í Bandaríkjunum hefst aftur á móti sjálft læknisfræðinámið að loknu fjögurra ára fornámi en læknisfræðinámið er einnig fjögur ár og að því loknu tekur við þriggja til sjö ára sérfræði- og starfsnám.

Heimildir og myndir:...