Sólin Sólin Rís 08:40 • sest 18:42 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 24:24 • Sest 09:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:32 • Síðdegis: 20:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:29 • Síðdegis: 14:44 í Reykjavík

Hvað er kontrapunktur?

Karólína Eiríksdóttir

Orðið kontrapunktur er dregið úr latínu „punctus contra punctum“ eða nóta á móti nótu. Skylt hugtak er pólýfónía eða fjölröddun. Í stórum dráttum má segja að tónlist sem samin er eftir aðferðum kontrapunkts byggi á láréttri hugsun fremur en lóðréttri, það er að sjálfstæðum laglínum er teflt saman í stað þess að laglína sé útsett með hljómum (hómófónía). Sem dæmi um kontrapunktískar tónsmíðar eru fúgur J. S. Bachs (1685-1750) en sinfóníur W. A. Mozarts (1756-1791) eru í hómófónískum stíl.

Fyrstu dæmi sem til eru um vestræna tónlist eru einraddaður kirkjusöngur frá því snemma á miðöldum. Fyrstu rituðu dæmi um fjölraddaðan söng eru frá 9. öld, en þar er um samstígar raddir að ræða, það er raddirnar hreyfast samhliða og sama tónbilið er á milli þeirra, oftast ferund eða fimmund.


Scholia enchiriadis – parallel organum frá því um 850.

Sambærileg dæmi frá Íslandi er til dæmis að heyra í þjóðlögum sem sungin eru í samstígum fimmundum eins og Ísland farsælda frón og Séra Magnús settist upp á Skjóna.

Fljótlega fór mönnum þó að detta í hug að láta raddirnar hreyfast í gagnstæðar áttir og að tefla saman mismunandi lengdargildum.


Notre Dame-skólinn - úr mótettu frá því um 1225.

Upphaflega voru raddirnar tvær en þriðja og fjórða röddin bættust við og dæmi eru um sex radda og allt upp í átta radda kontrapunkt. Kontrapunktískar tónsmíðaaðferðir þróuðust í margar aldir og voru alls ráðandi á seinni hluta miðalda, endurreisnartímabilinu og að hluta til á barokktímabilinu. Almennt er talið að kontrapunktslistin hafi náð mestri fullkomnun í tónsmíðum J. S. Bach á 18. öld. Sextánda öldin er einnig mikið blómaskeið kontrapunktsins, en þá er Ítalinn Giovanni Palestrina (1514-1594) jafnan talinn í fararbroddi tónskálda.

Þó að raddir í kontrapunktískri tónsmíð séu sjálfstæðar þá þurfa þær samt að hljóma saman, þannig þarf tónskáldið að hafa í huga að hin hljómræna framvinda sé samkvæmt hljómfræðireglum samtíma síns. Þess vegna krefst þessi tónsmíðaaðferð mikillar kunnáttu og þróuðust flóknar reglur innan greinarinnar. Þrátt fyrir flóknar reglur rúmast fjölbreytni innan kontrapunktslistarinnar, til eru tónsmíðar í frjálsum kontrapunktískum stíl, þar sem raddirnar eru innbyrðis ólíkar en einnig er til eftirhermukontrapunktur, þá eru raddirnar byggðar á sama stefinu sem er þó ekki í gangi samtímis, hver röddin tekur við af annarri í eins konar keðjusöng. Fúgur eru dæmi um hið síðara og enn er það J. S. Bach sem þykir hafa náð meistaralegustum tökum á aðferðinni. Má þar nefna Das Wohltemperierte Klavier en þar er að finna 48 prelúdíur og fúgur fyrir hljómborð (sembal eða píanó) og einnig Die Kunst der Fuge (Fúgulistin) og Musikalisches Opfer (Tónafórn). Tvö síðasttöldu verkin eru eins konar alfræðirit um kontrapunktískar tónsmíðaaðferðir í öllum sínum margbreytileika. Fyrir utan fúgur og kanóna (keðjusöngva) af ýmsu tagi er þar að finna verk þar sem raddir ganga með sjálfum sér í speglaðri mynd, í mismunandi lyklum (tónhæðum) og afturábak, svo einhver af gömlu brögðunum séu nefnd.


Byrjun á fúgu í D-dúr nr. 5 eftir J. S. Bach - úr Das Wohltemperierte Klavier, 2. hefti. Fúgan er fjögurra radda. Neðst á síðunni er hægt að spila fúguna, sem er númer 9 á listanum.

Eftir daga Bachs fór kontrapunktur úr tísku og yngri tónskáld, þar á meðal synir hans, tileinkuðu sér nýtískulegri tónsmíðaaðferðir. Tónskáld eins og Mozart og Beethoven þekktu þó vel til tónsmíða gamla mannsins og dáðu hann. Kontrapunktískum köflum bregður fyrir í tónsmíðum þeirra beggja eins og í Sinfóníu Mozarts nr. 41, Júpíter og strengjakvartettskafla Beethovens, Grosse Fuge.

Nú á dögum geta tónskáld brugðið fyrir sig alls konar kontrapunkti ef þau kæra sig um, en hann er þá yfirleitt ekki samkvæmt hinum gömlu tónfræðireglum heldur í nýjum búningi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Í svarinu er minnsta á fúgu í D-dúr nr. 5 eftir J. S. Bach, úr Das Wohltemperierte Klavier, 2. hefti. Hér er hægt að spila fúguna með því að velja númer 9 á listanum.


CD1 - Bach - Well Tempered Clavier Book 2 by Katherine Roberts Perl

Höfundur

Útgáfudagur

12.2.2009

Spyrjandi

Ólöf Jóhannsdóttir

Tilvísun

Karólína Eiríksdóttir. „Hvað er kontrapunktur?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2009. Sótt 28. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51292.

Karólína Eiríksdóttir. (2009, 12. febrúar). Hvað er kontrapunktur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51292

Karólína Eiríksdóttir. „Hvað er kontrapunktur?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2009. Vefsíða. 28. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51292>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er kontrapunktur?
Orðið kontrapunktur er dregið úr latínu „punctus contra punctum“ eða nóta á móti nótu. Skylt hugtak er pólýfónía eða fjölröddun. Í stórum dráttum má segja að tónlist sem samin er eftir aðferðum kontrapunkts byggi á láréttri hugsun fremur en lóðréttri, það er að sjálfstæðum laglínum er teflt saman í stað þess að laglína sé útsett með hljómum (hómófónía). Sem dæmi um kontrapunktískar tónsmíðar eru fúgur J. S. Bachs (1685-1750) en sinfóníur W. A. Mozarts (1756-1791) eru í hómófónískum stíl.

Fyrstu dæmi sem til eru um vestræna tónlist eru einraddaður kirkjusöngur frá því snemma á miðöldum. Fyrstu rituðu dæmi um fjölraddaðan söng eru frá 9. öld, en þar er um samstígar raddir að ræða, það er raddirnar hreyfast samhliða og sama tónbilið er á milli þeirra, oftast ferund eða fimmund.


Scholia enchiriadis – parallel organum frá því um 850.

Sambærileg dæmi frá Íslandi er til dæmis að heyra í þjóðlögum sem sungin eru í samstígum fimmundum eins og Ísland farsælda frón og Séra Magnús settist upp á Skjóna.

Fljótlega fór mönnum þó að detta í hug að láta raddirnar hreyfast í gagnstæðar áttir og að tefla saman mismunandi lengdargildum.


Notre Dame-skólinn - úr mótettu frá því um 1225.

Upphaflega voru raddirnar tvær en þriðja og fjórða röddin bættust við og dæmi eru um sex radda og allt upp í átta radda kontrapunkt. Kontrapunktískar tónsmíðaaðferðir þróuðust í margar aldir og voru alls ráðandi á seinni hluta miðalda, endurreisnartímabilinu og að hluta til á barokktímabilinu. Almennt er talið að kontrapunktslistin hafi náð mestri fullkomnun í tónsmíðum J. S. Bach á 18. öld. Sextánda öldin er einnig mikið blómaskeið kontrapunktsins, en þá er Ítalinn Giovanni Palestrina (1514-1594) jafnan talinn í fararbroddi tónskálda.

Þó að raddir í kontrapunktískri tónsmíð séu sjálfstæðar þá þurfa þær samt að hljóma saman, þannig þarf tónskáldið að hafa í huga að hin hljómræna framvinda sé samkvæmt hljómfræðireglum samtíma síns. Þess vegna krefst þessi tónsmíðaaðferð mikillar kunnáttu og þróuðust flóknar reglur innan greinarinnar. Þrátt fyrir flóknar reglur rúmast fjölbreytni innan kontrapunktslistarinnar, til eru tónsmíðar í frjálsum kontrapunktískum stíl, þar sem raddirnar eru innbyrðis ólíkar en einnig er til eftirhermukontrapunktur, þá eru raddirnar byggðar á sama stefinu sem er þó ekki í gangi samtímis, hver röddin tekur við af annarri í eins konar keðjusöng. Fúgur eru dæmi um hið síðara og enn er það J. S. Bach sem þykir hafa náð meistaralegustum tökum á aðferðinni. Má þar nefna Das Wohltemperierte Klavier en þar er að finna 48 prelúdíur og fúgur fyrir hljómborð (sembal eða píanó) og einnig Die Kunst der Fuge (Fúgulistin) og Musikalisches Opfer (Tónafórn). Tvö síðasttöldu verkin eru eins konar alfræðirit um kontrapunktískar tónsmíðaaðferðir í öllum sínum margbreytileika. Fyrir utan fúgur og kanóna (keðjusöngva) af ýmsu tagi er þar að finna verk þar sem raddir ganga með sjálfum sér í speglaðri mynd, í mismunandi lyklum (tónhæðum) og afturábak, svo einhver af gömlu brögðunum séu nefnd.


Byrjun á fúgu í D-dúr nr. 5 eftir J. S. Bach - úr Das Wohltemperierte Klavier, 2. hefti. Fúgan er fjögurra radda. Neðst á síðunni er hægt að spila fúguna, sem er númer 9 á listanum.

Eftir daga Bachs fór kontrapunktur úr tísku og yngri tónskáld, þar á meðal synir hans, tileinkuðu sér nýtískulegri tónsmíðaaðferðir. Tónskáld eins og Mozart og Beethoven þekktu þó vel til tónsmíða gamla mannsins og dáðu hann. Kontrapunktískum köflum bregður fyrir í tónsmíðum þeirra beggja eins og í Sinfóníu Mozarts nr. 41, Júpíter og strengjakvartettskafla Beethovens, Grosse Fuge.

Nú á dögum geta tónskáld brugðið fyrir sig alls konar kontrapunkti ef þau kæra sig um, en hann er þá yfirleitt ekki samkvæmt hinum gömlu tónfræðireglum heldur í nýjum búningi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Í svarinu er minnsta á fúgu í D-dúr nr. 5 eftir J. S. Bach, úr Das Wohltemperierte Klavier, 2. hefti. Hér er hægt að spila fúguna með því að velja númer 9 á listanum.


CD1 - Bach - Well Tempered Clavier Book 2 by Katherine Roberts Perl

...