Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:48 • sest 23:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:45 • Síðdegis: 15:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:55 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er?

Árni Heimir Ingólfsson

Hér er einnig svarað spurningu Hugrúnar Jónsdóttur (f. 1989):

Hvað einkenndi barokktímabilið í sögu tónlistarinnar?

Barokktónlist er tónlist sem samin er á svokölluðu barokktímabili, eða um 1600-1750. Stundum er tímabilinu skipt í þrennt og er þá talað um frumbarokk (um 1600-1650), miðbarokk (1650-1700) og síðbarokk (1700-1750).

„Barokk“ er komið úr portúgölsku (barrocco) og merkti upphaflega perla með óreglulega lögun. Hugtakið var notað á 17. og 18. öld í neikvæðri merkingu um tónlist sem þótti „ofhlaðin“, það er án skýrrar laglínu, óþarflega ómstríð og með hröðum skiptum á milli tóntegunda. Það var ekki fyrr en á fyrstu áratugum 20. aldar sem farið var að nota „barokk“ yfir heilt tímabil í tónlistarsögunni eins og nú er gert.

Vagga barokksins var á Ítalíu og þar urðu til fyrstu meistaraverkin í hinum nýja stíl. Á endurreisnartímanum (um 1420-1600) sömdu tónskáld aðallega kirkjulega tónlist fyrir söngraddir, og þurfti tónlistin ávallt að lúta ákveðnum reglum um tónbil og meðferð þeirra.

Um aldamótin 1600 kom fram hópur ungra tónskálda sem lagði sig fram við að túlka innihald texta á dramatískari hátt en þekkst hafði áður. Claudio Monteverdi, sem var einn af forsprökkum hinnar nýju stefnu, vakti andúð eldri tónskálda fyrir að fylgja ekki ströngustu tónsmíðareglum í madrígölum sínum þar sem farið var frjálslega með ómstríður á orðum eins og „sorg“ og „sársauka“. Monteverdi sagði að textinn ætti að þjóna tónlistinni en ekki öfugt, og flest barokktónskáld reyndu að ná sem bestum samruna texta og tóna.

Um aldamótin 1600 voru ítalskir húmanistar undir miklum áhrifum af forngrískri menningu og áhugi var fyrir því að skapa listaverk sem byggðu á sömu listrænu forsendum og grískir harmleikir. Á þeim tíma var talið að harmleikirnir hefðu verið sungnir frá upphafi til enda, og tilraunir tónskálda með sungin leikhúsverk leiddu af sér óperuformið. Fyrstu óperurnar voru fluttar við ítalskar hirðir við hátíðleg tækifæri, til dæmis brúðkaup, og er L´Orfeo eftir Monteverdi (1607) elsta óperan sem enn er flutt.

Til þess að flutningur textans í söng yrði sem trúverðugastur fundu tónskáld upp stíl sem þeir kölluðu resítatív, eða tónles, þar sem reynt var að líkja eftir hrynjandi og áherslum talaðs máls. Af og til var hægt á atburðarásinni og þá gafst tækifæri til að dvelja meira við persónusköpun í aríum, sem voru lagrænni og oft með A-B-A sniði.

Ekki leið á löngu þar til óperan varð eitt vinsælasta tónlistarform Evrópu og óperuhús fyrir almenning spruttu upp víða um álfuna. Á sama tíma urðu miklar framfarir í hljóðfæraleik. Flytjendur fullkomnuðu tækni sína og tónskáld tóku að semja verk sem voru erfiðari í flutningi en áður hafði tíðkast. Hljóðfærasmiðir fylgdust með þessum breytingum og nokkrir ítalskir fiðlusmiðir, meðal annars Antonio Stradivari, náðu að þróa hljóðfæri sem eru enn talin þau fullkomnustu sinnar gerðar.

Á endurreisnartímanum hafði ekki verið mikið um frumsamda hljóðfæratónlist, en þess í stað var tónlist fyrir söngraddir oft flutt á hljóðfæri, bæði í upphaflegri mynd og með ýmiss konar tilbrigðum. Á 17. öld er fyrst hægt að tala um „virtúósatónlist“, og áttu tónskáld á borð við Arcangelo Corelli og Antonio Vivaldi stóran þátt í að festa í sessi ný tónlistarform í hljóðfæratónlist, þar á meðal sónötu og konsert. Önnur vinsæl gerð hljóðfæratónlistar á barokktímanum var svíta, röð af dönsum sem settir voru í hátíðlegan búning og raðað upp á ákveðinn hátt.

Þótt rætur barokksins væru á Ítalíu ferðaðist hinn nýi stíll um alla álfuna og afbrigði hans þróuðust í hverju landi fyrir sig. Um miðja 17. öld fóru frönsk tónskáld að fást við óperusmíði og var Jean-Baptiste Lully, hirðtónskáld Lúðvíks 14., þar fremstur í flokki. Franski barokkstíllinn er á margan hátt yfirvegaðri en sá ítalski. Sérstaklega má þar nefna hinn svokallaða franska forleik, með tignarlegum „punkteruðum rytma“ (þar sem nótur eru mislangar), sem varð eitt af einkennum franskrar tónlistar.

Þýsk tónskáld sóttu bæði í ítalska og franska stílinn. Auk þess notuðu þau gjarnan lútersk sálmalög í verkum sínum og þannig varð til enn eitt afbrigði barokktónlistar. Tvö þýsk tónskáld síðbarokktímans eru meðal frægustu tónskálda sögunnar: Georg Friederich Händel og Johann Sebastian Bach.

Händel starfaði aðallega í Lundúnum og samdi óperur og óratóríur, sem eru verk þar sem tónlistin er samansett af tónlesi, aríum og kórþáttum, og efniviðurinn oftast fenginn úr gamla testamentinu. Kirkjan var starfsvettvangur Bachs, sem var kantor við Tómasarkirkjuna í Leipzig í 27 ár. Margir telja að í trúarlegri tónlist hans hafi barokktónlist náð hápunkti sínum. Lok barokktímans miðast yfirleitt við lát þessara tveggja meistara, en þá þegar höfðu yngri tónskáld tamið sér mun einfaldari og gegnsærri stíl sem fékk viðurnefnið klassíski stíllinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Helstu heimildir og myndir

  • Claude V. Palisca. Baroque Music. New Jersey: Prentice Hall, 1991.
  • Claude V. Palisca. Baroque. Í New Grove Dictionary of Music and Musicians, 2. útgáfa (London: Macmillan, 2001), 2. bindi, 750-756.
  • Mynd af Monteverdi er af síðunni Image:Claudio Monteverdi.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af Stradivari er af síðunni Image:Antonio stradivari.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af Händel er af síðunni Image:Haendel.jpg.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

31.5.2006

Spyrjandi

Harpa Ragnarsdóttir

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2006, sótt 17. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5985.

Árni Heimir Ingólfsson. (2006, 31. maí). Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5985

Árni Heimir Ingólfsson. „Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2006. Vefsíða. 17. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5985>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er?
Hér er einnig svarað spurningu Hugrúnar Jónsdóttur (f. 1989):

Hvað einkenndi barokktímabilið í sögu tónlistarinnar?

Barokktónlist er tónlist sem samin er á svokölluðu barokktímabili, eða um 1600-1750. Stundum er tímabilinu skipt í þrennt og er þá talað um frumbarokk (um 1600-1650), miðbarokk (1650-1700) og síðbarokk (1700-1750).

„Barokk“ er komið úr portúgölsku (barrocco) og merkti upphaflega perla með óreglulega lögun. Hugtakið var notað á 17. og 18. öld í neikvæðri merkingu um tónlist sem þótti „ofhlaðin“, það er án skýrrar laglínu, óþarflega ómstríð og með hröðum skiptum á milli tóntegunda. Það var ekki fyrr en á fyrstu áratugum 20. aldar sem farið var að nota „barokk“ yfir heilt tímabil í tónlistarsögunni eins og nú er gert.

Vagga barokksins var á Ítalíu og þar urðu til fyrstu meistaraverkin í hinum nýja stíl. Á endurreisnartímanum (um 1420-1600) sömdu tónskáld aðallega kirkjulega tónlist fyrir söngraddir, og þurfti tónlistin ávallt að lúta ákveðnum reglum um tónbil og meðferð þeirra.

Um aldamótin 1600 kom fram hópur ungra tónskálda sem lagði sig fram við að túlka innihald texta á dramatískari hátt en þekkst hafði áður. Claudio Monteverdi, sem var einn af forsprökkum hinnar nýju stefnu, vakti andúð eldri tónskálda fyrir að fylgja ekki ströngustu tónsmíðareglum í madrígölum sínum þar sem farið var frjálslega með ómstríður á orðum eins og „sorg“ og „sársauka“. Monteverdi sagði að textinn ætti að þjóna tónlistinni en ekki öfugt, og flest barokktónskáld reyndu að ná sem bestum samruna texta og tóna.

Um aldamótin 1600 voru ítalskir húmanistar undir miklum áhrifum af forngrískri menningu og áhugi var fyrir því að skapa listaverk sem byggðu á sömu listrænu forsendum og grískir harmleikir. Á þeim tíma var talið að harmleikirnir hefðu verið sungnir frá upphafi til enda, og tilraunir tónskálda með sungin leikhúsverk leiddu af sér óperuformið. Fyrstu óperurnar voru fluttar við ítalskar hirðir við hátíðleg tækifæri, til dæmis brúðkaup, og er L´Orfeo eftir Monteverdi (1607) elsta óperan sem enn er flutt.

Til þess að flutningur textans í söng yrði sem trúverðugastur fundu tónskáld upp stíl sem þeir kölluðu resítatív, eða tónles, þar sem reynt var að líkja eftir hrynjandi og áherslum talaðs máls. Af og til var hægt á atburðarásinni og þá gafst tækifæri til að dvelja meira við persónusköpun í aríum, sem voru lagrænni og oft með A-B-A sniði.

Ekki leið á löngu þar til óperan varð eitt vinsælasta tónlistarform Evrópu og óperuhús fyrir almenning spruttu upp víða um álfuna. Á sama tíma urðu miklar framfarir í hljóðfæraleik. Flytjendur fullkomnuðu tækni sína og tónskáld tóku að semja verk sem voru erfiðari í flutningi en áður hafði tíðkast. Hljóðfærasmiðir fylgdust með þessum breytingum og nokkrir ítalskir fiðlusmiðir, meðal annars Antonio Stradivari, náðu að þróa hljóðfæri sem eru enn talin þau fullkomnustu sinnar gerðar.

Á endurreisnartímanum hafði ekki verið mikið um frumsamda hljóðfæratónlist, en þess í stað var tónlist fyrir söngraddir oft flutt á hljóðfæri, bæði í upphaflegri mynd og með ýmiss konar tilbrigðum. Á 17. öld er fyrst hægt að tala um „virtúósatónlist“, og áttu tónskáld á borð við Arcangelo Corelli og Antonio Vivaldi stóran þátt í að festa í sessi ný tónlistarform í hljóðfæratónlist, þar á meðal sónötu og konsert. Önnur vinsæl gerð hljóðfæratónlistar á barokktímanum var svíta, röð af dönsum sem settir voru í hátíðlegan búning og raðað upp á ákveðinn hátt.

Þótt rætur barokksins væru á Ítalíu ferðaðist hinn nýi stíll um alla álfuna og afbrigði hans þróuðust í hverju landi fyrir sig. Um miðja 17. öld fóru frönsk tónskáld að fást við óperusmíði og var Jean-Baptiste Lully, hirðtónskáld Lúðvíks 14., þar fremstur í flokki. Franski barokkstíllinn er á margan hátt yfirvegaðri en sá ítalski. Sérstaklega má þar nefna hinn svokallaða franska forleik, með tignarlegum „punkteruðum rytma“ (þar sem nótur eru mislangar), sem varð eitt af einkennum franskrar tónlistar.

Þýsk tónskáld sóttu bæði í ítalska og franska stílinn. Auk þess notuðu þau gjarnan lútersk sálmalög í verkum sínum og þannig varð til enn eitt afbrigði barokktónlistar. Tvö þýsk tónskáld síðbarokktímans eru meðal frægustu tónskálda sögunnar: Georg Friederich Händel og Johann Sebastian Bach.

Händel starfaði aðallega í Lundúnum og samdi óperur og óratóríur, sem eru verk þar sem tónlistin er samansett af tónlesi, aríum og kórþáttum, og efniviðurinn oftast fenginn úr gamla testamentinu. Kirkjan var starfsvettvangur Bachs, sem var kantor við Tómasarkirkjuna í Leipzig í 27 ár. Margir telja að í trúarlegri tónlist hans hafi barokktónlist náð hápunkti sínum. Lok barokktímans miðast yfirleitt við lát þessara tveggja meistara, en þá þegar höfðu yngri tónskáld tamið sér mun einfaldari og gegnsærri stíl sem fékk viðurnefnið klassíski stíllinn.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Helstu heimildir og myndir

  • Claude V. Palisca. Baroque Music. New Jersey: Prentice Hall, 1991.
  • Claude V. Palisca. Baroque. Í New Grove Dictionary of Music and Musicians, 2. útgáfa (London: Macmillan, 2001), 2. bindi, 750-756.
  • Mynd af Monteverdi er af síðunni Image:Claudio Monteverdi.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af Stradivari er af síðunni Image:Antonio stradivari.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
  • Mynd af Händel er af síðunni Image:Haendel.jpg.
...