Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hversu lengi væri blendingur ísbjarnar og brúnbjarnar að verða að nýrri tegund?

Jón Már Halldórsson

Tegundamyndun er hægfara ferli sem tekur þúsundir kynslóða og því er nær ómögulegt að segja til um hvenær ein tegund hverfur og önnur tekur við.

Blendingar brúnbjarna (skógarbjarna, Ursus arctos) og hvítabjarna (Ursus maritimus) eru þekktir úr dýragörðum. Hins vegar eru þeir afar sjaldgæfir í náttúrunni og því þóttu það tíðindi þegar veiðimenn á Banks-eyju (e. Banks Island) felldu dýr sem var hvítt eins og hvítabjörn en hafði brúna bletti. Þetta gerðist árið 2006. Dýrið hafði einnig óvenju langar klær og höfuðlag þess og bak minnti augljóslega á brúnbirni.



Blendingur brúnbjarnar og hvítabjarnar sem felldur var í Kanada árið 2006.

Erfðapróf hafa sýnt að faðir þessa blendings var brúnbjörn en móðir hans hvítabjörn. Þetta var stórfrétt meðal dýrafræðinga þar sem æxlunaratferli brúnbjarna og hvítabjarna er ekki alveg það sama auk þess sem æxlunartíminn er frábrugðinn. Útbreiðslusvæði tegundanna skarast lítt en þó flækjast hvítabirnir mjög sunnarlega inn á meginlandið og brúnbirnir fara stundum nokkuð norðarlega. Meðal annars eru heimildir fyrir því að brúnbirnir hafi flækst allt norður til Melville-eyju sem er staðsett á 73°30’ norðlægrar breiddar og liggur fyrir vestan Ellesmere-eyju.

Þetta er samt sem áður ekki í fyrsta skipti sem slíkan blending rekur á fjörur vísindamanna. Árið 1864 lýsti líffræðingurinn Clinton Hart Merriam loðnu hvítleitu bjarndýri með brúnum skellum við Rendezvous-vatn í norðvesturhluta óbyggða Kanada. Öld síðar minnist Clara Helgason bjarndýrs sem veiðimenn veiddu á Kodíak-eyju. Dýrið var stórt og hvítt en hafði fjölmörg einkenni brúnbjarnar.

Rannsóknir á skyldleika brúnbjarna og hvítabjarna benda til að sumar deilitegundir brúnbjarna séu skyldari hvítabjörnum en öðrum deilitegundum brúnbjarna. Slíkt þarf ekki að koma á óvart þar sem afar sterk rök eru fyrir því að hvítabirnir séu komnir af brúnbjörnum auk þess sem söguleg heimsútbreiðsla brúnbjarna er um alla Norður-Ameríku, Evrasíu, suður til botns Miðjarðarhafs og austur úr, utan þéttra regnskóga.

Þrátt fyrir að blendingur hvítabjarnar og brúnbjarnar hafi fundist í náttúrinni er varla hægt að segja að ný tegund sé komin fram. Hvort svona blendingar eru fyrsta skrefin í myndun nýrrar bjarndýrategundar skal ósagt látið þar sem lítið er vitað um hæfni þeirra í samanburði við hvítabirni eða brúnbirni eða hvort þeir geti eignast afkvæmi og þannig viðhaldið sér.



Margt bendir til þess að hvítabirnir séu komnir af brúnbjörnum.

Líffræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hversu langan tíma það tekur nýjar tegundir að myndast. Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu gömul tegund hvítabjörninn er í reynd. Með hliðsjón af rannsóknum á steingervingum hefur verð sett fram sú kenning að fyrir um 100 til 250 þúsund árum hafi hópur brúnbjarna einangrast frá meginstofninum vegna jökuls. Einhverjir lifðu af og aðlöguðust með tímanum breyttum umhverfisaðstæðum og þróuðust smátt og smátt í þá tegund sem við þekkjum í dag sem hvítabirni.

Steingervingasagan bendir til þess að seint á ísöld (ísöld hófst fyrir 2,6 milljónum ára og lauk fyrir um 10.000 árum) hafi verið komið fram dýr sem hafði öll helstu einkenni hvítabjarnar og hefur það fengið fræðiheitið Ursus maritimus tyrannus. Strangt til tekið var tegundin hvítabjörn þó ekki komin fram heldur var björn þessi í reynd deilitegund brúnbjarnar, hann var mun stórvaxnari en núlifandi hvítabirnir, með líkamsburði og tanngarð brúnbjarnar.

Svo virðist sem næstu 20 þúsund árin hafi líkamsstærðin dregist saman og hauskúpan lengst. Fyrir 10 þúsund árum höfðu hvítabirnir enn jaxla í skoltinum eins og brúnbirnir. Hvenær hvítabirnir voru nákvæmlega komnir fram sem sérstök tegund er ekki hægt að segja með vissu, enda tekur það margar kynslóðir fyrir nýja tegund að verða til. Hins vegar er nokkuð öruggt að tegundin hvítabjörn var komin fram undir lok síðasta jökulskeiðs.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Doupe, J.P., England, J.H., Furze, M. og Paetkau, D. 2007. Most northerly observation of a grizzly bear (Ursus arctos) in Canada: photographic and DNA evidence from Melville Island, Northwest Territories. Arctic 60(3): 271–276.
  • Kurten, B. 1964. The evolution of the polar bear, Ursus maritimus (Phipps). Acta Zoologica Fennica 108:1-26.
  • Marris, E. 2007. Linnaeus at 300: The species and the specious. Nature, 446: 250-253.
  • Roach, J. Grizzly-polar bear hybrid found - but what does it mean? 2006, National Geographic News, 16. maí 2006.
  • Solarnavigator.net

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hversu langan tíma tæki það fyrir nýjustu bjarnartegundina (þ.e. blendingur af ísbirni og forföður hans frá Ameríku) að koma alfarið í staðinn fyrir ísbirni og ameríska forföður hans?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

19.5.2009

Spyrjandi

Máni Þórarinsson, f. 1996

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hversu lengi væri blendingur ísbjarnar og brúnbjarnar að verða að nýrri tegund?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2009. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51873.

Jón Már Halldórsson. (2009, 19. maí). Hversu lengi væri blendingur ísbjarnar og brúnbjarnar að verða að nýrri tegund? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51873

Jón Már Halldórsson. „Hversu lengi væri blendingur ísbjarnar og brúnbjarnar að verða að nýrri tegund?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2009. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51873>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu lengi væri blendingur ísbjarnar og brúnbjarnar að verða að nýrri tegund?
Tegundamyndun er hægfara ferli sem tekur þúsundir kynslóða og því er nær ómögulegt að segja til um hvenær ein tegund hverfur og önnur tekur við.

Blendingar brúnbjarna (skógarbjarna, Ursus arctos) og hvítabjarna (Ursus maritimus) eru þekktir úr dýragörðum. Hins vegar eru þeir afar sjaldgæfir í náttúrunni og því þóttu það tíðindi þegar veiðimenn á Banks-eyju (e. Banks Island) felldu dýr sem var hvítt eins og hvítabjörn en hafði brúna bletti. Þetta gerðist árið 2006. Dýrið hafði einnig óvenju langar klær og höfuðlag þess og bak minnti augljóslega á brúnbirni.



Blendingur brúnbjarnar og hvítabjarnar sem felldur var í Kanada árið 2006.

Erfðapróf hafa sýnt að faðir þessa blendings var brúnbjörn en móðir hans hvítabjörn. Þetta var stórfrétt meðal dýrafræðinga þar sem æxlunaratferli brúnbjarna og hvítabjarna er ekki alveg það sama auk þess sem æxlunartíminn er frábrugðinn. Útbreiðslusvæði tegundanna skarast lítt en þó flækjast hvítabirnir mjög sunnarlega inn á meginlandið og brúnbirnir fara stundum nokkuð norðarlega. Meðal annars eru heimildir fyrir því að brúnbirnir hafi flækst allt norður til Melville-eyju sem er staðsett á 73°30’ norðlægrar breiddar og liggur fyrir vestan Ellesmere-eyju.

Þetta er samt sem áður ekki í fyrsta skipti sem slíkan blending rekur á fjörur vísindamanna. Árið 1864 lýsti líffræðingurinn Clinton Hart Merriam loðnu hvítleitu bjarndýri með brúnum skellum við Rendezvous-vatn í norðvesturhluta óbyggða Kanada. Öld síðar minnist Clara Helgason bjarndýrs sem veiðimenn veiddu á Kodíak-eyju. Dýrið var stórt og hvítt en hafði fjölmörg einkenni brúnbjarnar.

Rannsóknir á skyldleika brúnbjarna og hvítabjarna benda til að sumar deilitegundir brúnbjarna séu skyldari hvítabjörnum en öðrum deilitegundum brúnbjarna. Slíkt þarf ekki að koma á óvart þar sem afar sterk rök eru fyrir því að hvítabirnir séu komnir af brúnbjörnum auk þess sem söguleg heimsútbreiðsla brúnbjarna er um alla Norður-Ameríku, Evrasíu, suður til botns Miðjarðarhafs og austur úr, utan þéttra regnskóga.

Þrátt fyrir að blendingur hvítabjarnar og brúnbjarnar hafi fundist í náttúrinni er varla hægt að segja að ný tegund sé komin fram. Hvort svona blendingar eru fyrsta skrefin í myndun nýrrar bjarndýrategundar skal ósagt látið þar sem lítið er vitað um hæfni þeirra í samanburði við hvítabirni eða brúnbirni eða hvort þeir geti eignast afkvæmi og þannig viðhaldið sér.



Margt bendir til þess að hvítabirnir séu komnir af brúnbjörnum.

Líffræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hversu langan tíma það tekur nýjar tegundir að myndast. Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu gömul tegund hvítabjörninn er í reynd. Með hliðsjón af rannsóknum á steingervingum hefur verð sett fram sú kenning að fyrir um 100 til 250 þúsund árum hafi hópur brúnbjarna einangrast frá meginstofninum vegna jökuls. Einhverjir lifðu af og aðlöguðust með tímanum breyttum umhverfisaðstæðum og þróuðust smátt og smátt í þá tegund sem við þekkjum í dag sem hvítabirni.

Steingervingasagan bendir til þess að seint á ísöld (ísöld hófst fyrir 2,6 milljónum ára og lauk fyrir um 10.000 árum) hafi verið komið fram dýr sem hafði öll helstu einkenni hvítabjarnar og hefur það fengið fræðiheitið Ursus maritimus tyrannus. Strangt til tekið var tegundin hvítabjörn þó ekki komin fram heldur var björn þessi í reynd deilitegund brúnbjarnar, hann var mun stórvaxnari en núlifandi hvítabirnir, með líkamsburði og tanngarð brúnbjarnar.

Svo virðist sem næstu 20 þúsund árin hafi líkamsstærðin dregist saman og hauskúpan lengst. Fyrir 10 þúsund árum höfðu hvítabirnir enn jaxla í skoltinum eins og brúnbirnir. Hvenær hvítabirnir voru nákvæmlega komnir fram sem sérstök tegund er ekki hægt að segja með vissu, enda tekur það margar kynslóðir fyrir nýja tegund að verða til. Hins vegar er nokkuð öruggt að tegundin hvítabjörn var komin fram undir lok síðasta jökulskeiðs.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Doupe, J.P., England, J.H., Furze, M. og Paetkau, D. 2007. Most northerly observation of a grizzly bear (Ursus arctos) in Canada: photographic and DNA evidence from Melville Island, Northwest Territories. Arctic 60(3): 271–276.
  • Kurten, B. 1964. The evolution of the polar bear, Ursus maritimus (Phipps). Acta Zoologica Fennica 108:1-26.
  • Marris, E. 2007. Linnaeus at 300: The species and the specious. Nature, 446: 250-253.
  • Roach, J. Grizzly-polar bear hybrid found - but what does it mean? 2006, National Geographic News, 16. maí 2006.
  • Solarnavigator.net

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hversu langan tíma tæki það fyrir nýjustu bjarnartegundina (þ.e. blendingur af ísbirni og forföður hans frá Ameríku) að koma alfarið í staðinn fyrir ísbirni og ameríska forföður hans?
...