Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum?

Árni Helgason

Stjórnvaldsákvörðun

Formleg stjórnvaldsákvörðun er eins og orðin gefa til kynna, ákvörðun sem tekin er af þar til bæru stjórnvaldi í málum sem varða borgarana. Fjölmörg mál koma til kasta stjórnvalda hverju sinni og niðurstaða fæst í þessi mál með því að stjórnvöld taka ákvörðun. Dæmigerð afgreiðsla stjórnvalda sem myndi teljast til stjórnvaldsákvörðunar er til dæmis veiting eða synjun leyfa, ákvörðun um beitingu sekta og agaviðurlaga, ákvörðun um hvort veita skuli ákveðna þjónustu og skipun, setning og ráðning opinberra starfsmanna.

Í bókinni Stjórnsýslulög – skýringarrit er þetta hugtak skilgreint þannig að stjórnvaldsákvörðun sé þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.



Skipun hæstaréttardómara í embætti er dæmi um stjórnvaldsákvörðun.

Þegar stjórnvaldsákvörðun er tekin gilda um ákvörðunina og málsmeðferðina ákvæði stjórnsýslulaga, sem voru sett árið 1993. Lögin fela í sér að borgurunum eru tryggð ákveðin réttindi í samskiptum sínum við stjórnvöld og stjórnvöldum er að sama skapi settur ákveðinn rammi um hvernig standa skuli að stjórnvaldsákvörðun.

Málshraðaregla stjórnsýslulaga gerir það að verkum að taka skal ákvarðanir eins fljótt og unnt er, þannig að stjórnvöldum er óheimilt að draga það úr hömlu að afgreiða mál (9. gr.).

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga kveður á um að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun í þeim, þannig að á stjórnvöld er sett ákveðin skylda til að kalla eftir upplýsingum og gögnum áður en ákvörðun er tekin (10. gr.).

Jafnræðisregla stjórnsýslulaga kveður á um að afgreiða skuli sambærileg mál með sambærilegum hætti, að gæta skuli samræmis og óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggjast á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum (11. gr.).

Meðalhófsregla stjórnsýslulaga segir svo til um að þegar íþyngjandi ákvörðun er tekin skuli beita vægasta úrræði sem völ er á og er nægjanlegt til að ná því markmiði sem er að stefnt (12. gr.).

Þá er aðilum máls tryggður andmælaréttur þannig að stjórnvaldi skuli að jafnaði gefa aðilum máls kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin. Í þessu felst að aðilar máls geti komið á framfæri athugasemdum sínum eða sjónarmiðum varðandi það sem skiptir máli (13. gr.).

Ennfremur er kveðið á um upplýsingarétt aðila máls að skjölum og gögnum sem málið varða (15. gr.) auk þess sem aðilar máls eiga rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðunum stjórnvalds (21. gr.).

Stjórnvaldsfyrirmæli

Stjórnvaldsfyrirmæli eru annars eðlis en stjórnvaldsákvarðanir. Þau eru reglur sem stjórnvöld setja og taka til ótilgreinds fjölda. Í raun hafa stjórnvaldsfyrirmæli sama gildi og lög og aðrar réttarreglur en munurinn er sá að þau eru sett af stjórnvöldum en ekki Alþingi. Stjórnvöld eru þó augljóslega ekki kjörin af þjóðinni og fara ekki með löggjafarvald samkvæmt stjórnarskránni og því kann að vakna spurning um hvaða heimild stjórnvöld hafi til að setja reglur eða fyrirmæli sem eru bindandi fyrir borgarana.

Heimild stjórnvalda til slíkrar reglusetningar byggir á framsali löggjafarvalds af hálfu Alþingis til ákveðinna stofnana og stjórnvalda. Þannig er víða kveðið á um í lögum að setja skuli nánari reglur um ákveðin atriði og tilteknu stjórnvaldi falið að gera það. Algengustu stjórnvaldsfyrirmælin eru reglugerðir sem ráðherra setur yfirleitt en stjórnvaldsfyrirmæli geta einnig verið tilskipanir, reglur, gjaldskrár, erindisbréf eða ráðuneytisbréf.

Reglugerðir verða að byggja á skýrri heimild í lögum og mega ekki fara út fyrir þann ramma sem lögin setja. Fari ákvæði reglugerðar út fyrir þennan ramma getur farið svo að ekki sé á þeim ákvæðum byggjandi og dómstóll myndi komast að þeirri niðurstöðu að reglugerðin væri ómarktæk. Á þetta hefur til dæmis reynt þegar íþyngjandi ákvæði eru sett í reglugerð án þess að næg lagaheimild sé fyrir hendi. Dómstólar leggja sérstaka áherslu á að skýr lagaheimild sé fyrir hendi þegar reglugerðir hafa að geyma íþyngjandi ákvæði, svo sem gjaldtöku, refsiheimild eða skerðingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.

Að baki þeirri tilhögun að Alþingi framselji lagasetningarvald á afmörkuðu sviði til stjórnvalda búa ákveðin hagkvæmnis-, skilvirkni- og sérhæfingarrök. Hjá stjórnvöldum er yfirleitt meiri sérþekking fyrir hendi en hjá þinginu og á það sérstaklega við um fagstofnanir á ákveðnu sviði. Því getur farið vel á því að stjórnvöld útfæri tæknileg atriði í reglugerð. Að sama skapi getur viðkomandi stjórnvald breytt og uppfært reglugerðir eins og þarf en það væri þyngra í vöfum í meðförum Alþingis þar sem hvert frumvarp fer í gegnum þrjár umræður. Þannig getur til dæmis verið skynsamlegt að hafa töflur, tölur, upphæðir eða tilteknar verklagsreglur í reglugerð í stað þess að setja slíkt inn í lagabálk.

Reglur stjórnsýslulaganna sem gilda um stjórnvaldsákvarðanir og málsmeðferð þeirra gilda aftur á móti ekki um setningu stjórnvaldsfyrirmæla enda taka slík fyrirmæli til ótiltekins fjölda og því gengi það ekki upp að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga þegar slíkar reglur eru settar.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:
  • Páll Hreinsson. Stjórnsýslulög, skýringarrit. Forsætisráðuneytið. Reykjavík. 1994. Bls. 44-46.
  • Sigurður Líndal. Um lög og lögfræði. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík, 2002. Bls. 113-123.
  • Mynd: Hæstiréttur Íslands. Sótt 14. 7. 2009

Í heild sinni hljóðaðið spurningin svona:
Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum? Þegar fylgja skal eftir stjórnvaldsfyrirmælum gilda þá reglur stjórnsýslulaga?

Höfundur

lögfræðingur

Útgáfudagur

16.7.2009

Spyrjandi

Elísabet Pálmadóttir

Tilvísun

Árni Helgason. „Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum?“ Vísindavefurinn, 16. júlí 2009, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52803.

Árni Helgason. (2009, 16. júlí). Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52803

Árni Helgason. „Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum?“ Vísindavefurinn. 16. júl. 2009. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52803>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum?
Stjórnvaldsákvörðun

Formleg stjórnvaldsákvörðun er eins og orðin gefa til kynna, ákvörðun sem tekin er af þar til bæru stjórnvaldi í málum sem varða borgarana. Fjölmörg mál koma til kasta stjórnvalda hverju sinni og niðurstaða fæst í þessi mál með því að stjórnvöld taka ákvörðun. Dæmigerð afgreiðsla stjórnvalda sem myndi teljast til stjórnvaldsákvörðunar er til dæmis veiting eða synjun leyfa, ákvörðun um beitingu sekta og agaviðurlaga, ákvörðun um hvort veita skuli ákveðna þjónustu og skipun, setning og ráðning opinberra starfsmanna.

Í bókinni Stjórnsýslulög – skýringarrit er þetta hugtak skilgreint þannig að stjórnvaldsákvörðun sé þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds.



Skipun hæstaréttardómara í embætti er dæmi um stjórnvaldsákvörðun.

Þegar stjórnvaldsákvörðun er tekin gilda um ákvörðunina og málsmeðferðina ákvæði stjórnsýslulaga, sem voru sett árið 1993. Lögin fela í sér að borgurunum eru tryggð ákveðin réttindi í samskiptum sínum við stjórnvöld og stjórnvöldum er að sama skapi settur ákveðinn rammi um hvernig standa skuli að stjórnvaldsákvörðun.

Málshraðaregla stjórnsýslulaga gerir það að verkum að taka skal ákvarðanir eins fljótt og unnt er, þannig að stjórnvöldum er óheimilt að draga það úr hömlu að afgreiða mál (9. gr.).

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga kveður á um að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin er ákvörðun í þeim, þannig að á stjórnvöld er sett ákveðin skylda til að kalla eftir upplýsingum og gögnum áður en ákvörðun er tekin (10. gr.).

Jafnræðisregla stjórnsýslulaga kveður á um að afgreiða skuli sambærileg mál með sambærilegum hætti, að gæta skuli samræmis og óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggjast á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum (11. gr.).

Meðalhófsregla stjórnsýslulaga segir svo til um að þegar íþyngjandi ákvörðun er tekin skuli beita vægasta úrræði sem völ er á og er nægjanlegt til að ná því markmiði sem er að stefnt (12. gr.).

Þá er aðilum máls tryggður andmælaréttur þannig að stjórnvaldi skuli að jafnaði gefa aðilum máls kost á að tjá sig um efni þess áður en ákvörðun er tekin. Í þessu felst að aðilar máls geti komið á framfæri athugasemdum sínum eða sjónarmiðum varðandi það sem skiptir máli (13. gr.).

Ennfremur er kveðið á um upplýsingarétt aðila máls að skjölum og gögnum sem málið varða (15. gr.) auk þess sem aðilar máls eiga rétt á að fá rökstuðning fyrir ákvörðunum stjórnvalds (21. gr.).

Stjórnvaldsfyrirmæli

Stjórnvaldsfyrirmæli eru annars eðlis en stjórnvaldsákvarðanir. Þau eru reglur sem stjórnvöld setja og taka til ótilgreinds fjölda. Í raun hafa stjórnvaldsfyrirmæli sama gildi og lög og aðrar réttarreglur en munurinn er sá að þau eru sett af stjórnvöldum en ekki Alþingi. Stjórnvöld eru þó augljóslega ekki kjörin af þjóðinni og fara ekki með löggjafarvald samkvæmt stjórnarskránni og því kann að vakna spurning um hvaða heimild stjórnvöld hafi til að setja reglur eða fyrirmæli sem eru bindandi fyrir borgarana.

Heimild stjórnvalda til slíkrar reglusetningar byggir á framsali löggjafarvalds af hálfu Alþingis til ákveðinna stofnana og stjórnvalda. Þannig er víða kveðið á um í lögum að setja skuli nánari reglur um ákveðin atriði og tilteknu stjórnvaldi falið að gera það. Algengustu stjórnvaldsfyrirmælin eru reglugerðir sem ráðherra setur yfirleitt en stjórnvaldsfyrirmæli geta einnig verið tilskipanir, reglur, gjaldskrár, erindisbréf eða ráðuneytisbréf.

Reglugerðir verða að byggja á skýrri heimild í lögum og mega ekki fara út fyrir þann ramma sem lögin setja. Fari ákvæði reglugerðar út fyrir þennan ramma getur farið svo að ekki sé á þeim ákvæðum byggjandi og dómstóll myndi komast að þeirri niðurstöðu að reglugerðin væri ómarktæk. Á þetta hefur til dæmis reynt þegar íþyngjandi ákvæði eru sett í reglugerð án þess að næg lagaheimild sé fyrir hendi. Dómstólar leggja sérstaka áherslu á að skýr lagaheimild sé fyrir hendi þegar reglugerðir hafa að geyma íþyngjandi ákvæði, svo sem gjaldtöku, refsiheimild eða skerðingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.

Að baki þeirri tilhögun að Alþingi framselji lagasetningarvald á afmörkuðu sviði til stjórnvalda búa ákveðin hagkvæmnis-, skilvirkni- og sérhæfingarrök. Hjá stjórnvöldum er yfirleitt meiri sérþekking fyrir hendi en hjá þinginu og á það sérstaklega við um fagstofnanir á ákveðnu sviði. Því getur farið vel á því að stjórnvöld útfæri tæknileg atriði í reglugerð. Að sama skapi getur viðkomandi stjórnvald breytt og uppfært reglugerðir eins og þarf en það væri þyngra í vöfum í meðförum Alþingis þar sem hvert frumvarp fer í gegnum þrjár umræður. Þannig getur til dæmis verið skynsamlegt að hafa töflur, tölur, upphæðir eða tilteknar verklagsreglur í reglugerð í stað þess að setja slíkt inn í lagabálk.

Reglur stjórnsýslulaganna sem gilda um stjórnvaldsákvarðanir og málsmeðferð þeirra gilda aftur á móti ekki um setningu stjórnvaldsfyrirmæla enda taka slík fyrirmæli til ótiltekins fjölda og því gengi það ekki upp að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga þegar slíkar reglur eru settar.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:
  • Páll Hreinsson. Stjórnsýslulög, skýringarrit. Forsætisráðuneytið. Reykjavík. 1994. Bls. 44-46.
  • Sigurður Líndal. Um lög og lögfræði. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík, 2002. Bls. 113-123.
  • Mynd: Hæstiréttur Íslands. Sótt 14. 7. 2009

Í heild sinni hljóðaðið spurningin svona:
Hver er munurinn á stjórnvaldsákvörðun og stjórnvaldsfyrirmælum? Þegar fylgja skal eftir stjórnvaldsfyrirmælum gilda þá reglur stjórnsýslulaga?
...