Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Spurningin í fullri lengd var:
Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum? Hvað með aðrar heimildir frá miðöldum?

Á norðurljós er hvergi minnst með beinum hætti í Íslendingasögum, sem sumar hverjar fela þó í sér frásagnir af yfirnáttúrlegum eða óútskýrðum eldum. Meðal þeirra eru haugaeldar, en lýsingin á þeim getur óneitanlega minnt á norðurljós, og svo virðist sem menn eigi erfitt með að skilgreina haugaeldana ekki síður en norðurljósin, enda hvorutveggja talið af öðrum heimi. Sem dæmi um þetta mætti nefna frásögn í Þorskfirðinga sögu (sbr. Gull-Þóris sögu), þar sem segir frá sýn Gull-Þóris þegar hann kemur af hafi og mætir félaga sínum Úlfi: „ … sá Þórir, hvar eldr var, nær sem lýsti af tungli, ok brá yfir blám loga. Þórir spurði, hvat lýsu þat væri. Úlfr segir: „Ekki skulu þér þat forvitnast, því at þat er ekki af manna völdum.“ Þórir svarar: „Því mun ek þó eigi vita mega, þótt tröll ráði fyrir?“ Úlfr kvað þat vera haugaeld“.[1] Í þessu tilviki er sögusviðið Hálogaland, og svipaða frásögn er að finna í Grettis sögu, þar sem Grettir er staddur á Sunnmæri. Grettir segir að slíkir eldar sjáist einnig á Íslandi, þar sem þeir séu taldir brenna af fé.[2] Frá haugaeldi segir ennfremur í Egils sögu, og tekið fram hann sjáist oftlega við Mosfell.[3]

Ein af mörgum myndum sem danski málarinn Harald Moltke (1871-1960) málaði af norðurljósum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum snemma á 20. öld.

Ein traustasta heimild okkar um norðurljós frá miðöldum er Konungs skuggsjá, norskt rit sem var skrifað á bilinu 1250–60 og segir frá norðurljósum yfir Grænlandi. Konungs skuggsjá var að vísu þekkt rit á Íslandi, enda varðveitt[4] í íslenskum miðaldahandritum og líklegt er að Íslendingar hafi þekkt til þeirra ljósa sem þar er lýst.[5] Álíka frásögn er að finna í íslenskri sögu, Hemings þætti Áslákssonar, sem talinn er vera frá síðari hluta 13. aldar, en þar er talað um „eld“ yfir hafi sem var „blár sem logi“.[6]

Þótt aðrar miðaldaheimildir geti um elda og/eða loftsýnir sem minna á norðurljós er heimildagildi þeirra mun takmarkaðra, þótt vissulega sé eðlilegt að setja þær í samhengi við hugmyndir um norðurljós og lesa í einstaka texta út frá vitnisburði annarra. Þetta á bæði við um frásagnarbókmenntir og kvæði og skemmtilegt er að lesa í táknheim eddukvæða og jafnvel Gylfaginningar Snorra-Eddu með þetta í huga, eins og Finnur Magnússon gerði í eddukvæðaskýringum sínum frá 1821–23. Hér værum við þó komin út í túlkanir, þar sem nauðsynlegt er að setja fram hugmynda- og/eða táknkerfi og greina og svo heimildirnar út frá því. Hugmyndir af þessu tagi voru kynntar á fyrirlestri hjá Miðaldastofu Háskóla Íslands snemma árs 2018 og talið að eddukvæðin og Snorra-Edda feli í sér myndræna tengingu við norðurljósin, sem og ef til vill almennari hugmyndir um goðsögulega bústaði í himinhvolfinu.[7]

Tilvísanir:
  1. ^ Þorskfirðinga saga í Harðar saga 2009: 183.
  2. ^ Grettis saga Ásmundarsonar 1936: 57.
  3. ^ Egils saga Skalla-Grímssonar 1933: 298.
  4. ^ Finnur Magnússon 1821–23: II 77, 171–72, 175, 197.
  5. ^ Ólafur Halldórsson 1978: 127–128.
  6. ^ Hauksbók 1892–96: 335.
  7. ^ Aðalheiður Guðmundsdóttir 2018.

Heimildir:
  • Aðalheiður Guðmundsdóttir. 2018. „Rafurlogar og vafurlogar: Um norðurljós í íslenskum heimildum“. Miðaldastofa Háskóla Íslands, 18. janúar.
  • Egils saga Skalla-Grímssonar. 1933. Útg. Sigurður Nordal. Íslenzk fornrit II. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Finnur Magnússon [Finn Magnusen]. 1822. Den ældre Edda I–IV. Kjöbenhavn: Gyldendalske boghandling.
  • Grettis saga Ásmundarsonar. 1936. Útg. Guðni Jónsson. Íslenzk fornrit VII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Harðar saga. 2009. Útg. Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslenzk fornrit XIII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4o. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
  • Ólafur Halldórsson, útg. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.

Mynd:

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

23.3.2018

Spyrjandi

Guðný Svavarsdóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2018. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=53173.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2018, 23. mars). Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=53173

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2018. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=53173>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum?
Spurningin í fullri lengd var:

Er einhvers staðar fjallað um norðurljós í Íslendingasögunum? Hvað með aðrar heimildir frá miðöldum?

Á norðurljós er hvergi minnst með beinum hætti í Íslendingasögum, sem sumar hverjar fela þó í sér frásagnir af yfirnáttúrlegum eða óútskýrðum eldum. Meðal þeirra eru haugaeldar, en lýsingin á þeim getur óneitanlega minnt á norðurljós, og svo virðist sem menn eigi erfitt með að skilgreina haugaeldana ekki síður en norðurljósin, enda hvorutveggja talið af öðrum heimi. Sem dæmi um þetta mætti nefna frásögn í Þorskfirðinga sögu (sbr. Gull-Þóris sögu), þar sem segir frá sýn Gull-Þóris þegar hann kemur af hafi og mætir félaga sínum Úlfi: „ … sá Þórir, hvar eldr var, nær sem lýsti af tungli, ok brá yfir blám loga. Þórir spurði, hvat lýsu þat væri. Úlfr segir: „Ekki skulu þér þat forvitnast, því at þat er ekki af manna völdum.“ Þórir svarar: „Því mun ek þó eigi vita mega, þótt tröll ráði fyrir?“ Úlfr kvað þat vera haugaeld“.[1] Í þessu tilviki er sögusviðið Hálogaland, og svipaða frásögn er að finna í Grettis sögu, þar sem Grettir er staddur á Sunnmæri. Grettir segir að slíkir eldar sjáist einnig á Íslandi, þar sem þeir séu taldir brenna af fé.[2] Frá haugaeldi segir ennfremur í Egils sögu, og tekið fram hann sjáist oftlega við Mosfell.[3]

Ein af mörgum myndum sem danski málarinn Harald Moltke (1871-1960) málaði af norðurljósum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum snemma á 20. öld.

Ein traustasta heimild okkar um norðurljós frá miðöldum er Konungs skuggsjá, norskt rit sem var skrifað á bilinu 1250–60 og segir frá norðurljósum yfir Grænlandi. Konungs skuggsjá var að vísu þekkt rit á Íslandi, enda varðveitt[4] í íslenskum miðaldahandritum og líklegt er að Íslendingar hafi þekkt til þeirra ljósa sem þar er lýst.[5] Álíka frásögn er að finna í íslenskri sögu, Hemings þætti Áslákssonar, sem talinn er vera frá síðari hluta 13. aldar, en þar er talað um „eld“ yfir hafi sem var „blár sem logi“.[6]

Þótt aðrar miðaldaheimildir geti um elda og/eða loftsýnir sem minna á norðurljós er heimildagildi þeirra mun takmarkaðra, þótt vissulega sé eðlilegt að setja þær í samhengi við hugmyndir um norðurljós og lesa í einstaka texta út frá vitnisburði annarra. Þetta á bæði við um frásagnarbókmenntir og kvæði og skemmtilegt er að lesa í táknheim eddukvæða og jafnvel Gylfaginningar Snorra-Eddu með þetta í huga, eins og Finnur Magnússon gerði í eddukvæðaskýringum sínum frá 1821–23. Hér værum við þó komin út í túlkanir, þar sem nauðsynlegt er að setja fram hugmynda- og/eða táknkerfi og greina og svo heimildirnar út frá því. Hugmyndir af þessu tagi voru kynntar á fyrirlestri hjá Miðaldastofu Háskóla Íslands snemma árs 2018 og talið að eddukvæðin og Snorra-Edda feli í sér myndræna tengingu við norðurljósin, sem og ef til vill almennari hugmyndir um goðsögulega bústaði í himinhvolfinu.[7]

Tilvísanir:
  1. ^ Þorskfirðinga saga í Harðar saga 2009: 183.
  2. ^ Grettis saga Ásmundarsonar 1936: 57.
  3. ^ Egils saga Skalla-Grímssonar 1933: 298.
  4. ^ Finnur Magnússon 1821–23: II 77, 171–72, 175, 197.
  5. ^ Ólafur Halldórsson 1978: 127–128.
  6. ^ Hauksbók 1892–96: 335.
  7. ^ Aðalheiður Guðmundsdóttir 2018.

Heimildir:
  • Aðalheiður Guðmundsdóttir. 2018. „Rafurlogar og vafurlogar: Um norðurljós í íslenskum heimildum“. Miðaldastofa Háskóla Íslands, 18. janúar.
  • Egils saga Skalla-Grímssonar. 1933. Útg. Sigurður Nordal. Íslenzk fornrit II. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Finnur Magnússon [Finn Magnusen]. 1822. Den ældre Edda I–IV. Kjöbenhavn: Gyldendalske boghandling.
  • Grettis saga Ásmundarsonar. 1936. Útg. Guðni Jónsson. Íslenzk fornrit VII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Harðar saga. 2009. Útg. Þórhallur Vilmundarson og Bjarni Vilhjálmsson. Íslenzk fornrit XIII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4o. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
  • Ólafur Halldórsson, útg. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.

Mynd:

...