Með skynvitund er átt við huglæga upplifun hvers og eins. Það hefur reynst mönnum erfitt að tengja meðvitund í þessum skilningi við starfsemi heilans. Hvernig geta finningar (e. qualia), það er upplifun fólks á fyrirbærum á borð við rauðan lit eða sársauka, átt sér einhvern stað yfirleitt? Það er óleyst gáta og jafnvel óleysanleg hvernig hægt er að tengja hughrif sem þessi við starfsemi líffræðilegs kerfis eins og heilans (sjá til dæmis Chalmers, 1996).
Aðgangsvitund vísar aftur á móti til hugarstarfs eins og stjórnun athygli, samþættingu upplýsinga úr umhverfinu og að nýta upplýsingarnar til að stjórna hegðun. Það er mun auðveldara að tengja meðvitund í þessum skilningi við heilastarfsemi.
Sumar rannsóknir bentu til dæmis til að meðvituð sjónskynjun tengdist starfsemi frumsjónbarkar (V1). Fólk með skemmdan sjónbörk getur fengið svokallaða blindusjón (e. blindsight) sem gerir það að verkum að það er ekki meðvitað um að það sjái en getur samt brugðist við sjónáreitum og hefur því sjón í einhverjum skilningi orðsins. Seinni rannsóknir hafa hins vegar fellt þessa tilgátu og telja nú flestir að engin bein tengsl séu á milli virkni í frumsjónberki og meðvitundar. Önnur tilgáta er að meðvitund um sjónræn áreiti tengist starfsemi í baklægum hluta gagnaugablaðs (e. inferior temporal lobe).
Stúkan sem er heilastöð efst í heilastofni undir heilaberkinum hefur einnig verið tengd meðvitund. Skemmd í ákveðnum heilakjörnum í stúkunni veldur meðvitundarleysi og jafnvel svefndái. Mikið af taugum liggur frá stúkunni til heilabarkar. Sumir fræðimenn telja því að líffræðilega undirstöðu meðvitundar sé að finna í taugabrautum í stúku og heilaberki og mögulega einnig heilabotnskjörnum (e. basal ganglia). Þetta er samt einungis tilgáta og aðrar slíkar hafa verið settar fram. Til að mynda telja sumir að meðvitund sé svo flókið ferli að ómögulegt sé að staðsetja það í tiltekinni heilastöð heldur verði meðvitund til fyrir tilstilli virkni margra samtengdra taugakerfa í heilaberki.

Hér sést stúka ásamt þremur heilabotnskjörnum: Rófukjarna, gráhýði og bleikjuhnetti.
- Er hægt að sanna það vísindalega að maðurinn hafi vitund og að hann hugsi? eftir Atla Harðarson.
- Er hægt að skilja sinn eigin heila? eftir Ólaf Pál Jónsson.
- Er sálin til? eftir Hauk Má Helgason.
- Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni? eftir Atla Harðarson.
- Hvað segir eðlisfræðin um vitundina út frá skammtafræðinni? eftir Kristján Leósson.
- Hvernig sannar vitund að til er annað en hún? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Sjáum við litina eins? Sé ég rauðan eins og þú sérð rauðan? Sérð þú kannski rauðan eins og ég sé grænan? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Bogen, J. E. (1995). On the neurophysiology og consciousness: 1. An overview. Consciousness and Cognition, 4, 52-62.
- Consciousness and intentionality. Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- Crick, F. and Koch, C (1992). The problem of consciousness. Scientific American, 267(3), 153-159.
- Crick, F. and Koch, C (1995). Are we aware of neural activity in primary visual cortex? Nature, 375, 121-123.
- Chalmers, D. (1996). The Conscious Mind: In Search of a Fundamental Theory. Oxford: Oxford University Press.
- Libet, B. (1995). Neurophysiology of Consciousness: Selected Papers and New Essays. Boston: Birkhauser.
- Milner, D. And Goodale, M. (1995). The Visual Brain in Action. Oxford: Oxford University Press.
- Weiskrantz, L. (1997). Consciousness Lost and Found. Oxford: Oxford University Press.
- Sarkar, B. Consciousness: Our third eye. Life Positive.
- Cerebral palsy law blog. Burke & Eisner.