Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er mörgum vandkvæðum bundið að grafast fyrir um upphaf eins hverfuls og huglægs fyrirbæris og tungumáls, einkum og sér í lagi talaðs máls. Talmál kemur á undan ritmáli og er upphaf þess því, eðli málsins samkvæmt, hluti af forsögulegum tíma mannsins. Einnig tilheyrir talið, eða öllu heldur hljóðbylgjurnar, líðandi stund og er því jafn hverfult og vindurinn.
Heili neanderdalsmanna
Þar sem engar beinar heimildir er hægt að finna um sjálft tal neanderdalsmanna hafa rannsóknir fremur beinst að líffæri tungumálsins, heilanum. Samanburður á hauskúpum nútímamanna og neanderdalsmanna sýnir að heilar þessara tveggja manntegunda voru áþekkir að stærð sem gefur einhverja vísbendingu um greind neanderdalsmanna. Því miður eru samt tengslin milli heilastærðar og greindar allt of óljós til að hægt sé að álykta nokkuð um afmarkaðan þátt eins og málfærni. Lesa má nánar um tengsl heilastærðar og greindar í svari Jóns Más Halldórssonar, Hvert er vitrasta dýr í heimi, fyrir utan manninn? Einnig hafa nokkrar rannsóknir verið gerðar á förum eftir fellingar heilabarkarins sem myndast innan á höfuðkúpunni, en án teljandi árangurs. Heilinn sjálfur, sem með tækni nútímans hefði getað gefið góða mynd af starfsemi málstöðva neanderdalsmanna, er síðan gerður úr afar forgengilegu efni og skilar sér ekki með fornleifum til seinni tíma rannsókna.
Menjar um ríka félagshegðun
Þrátt fyrir forgengileika heilans og hverfulleika sjálfs tungumálsins getum við engu að síður gert okkur glögga hugmynd um málfærni neanderdalsmanna út frá annars konar vísbendingum. Ýmsar menjar eru til að mynda til vitnis um félagslyndi þeirra. Flókin félagsleg hegðun krefst einhvers konar samskiptakerfis og því gefur hún vísbendingar um að þessi forna manntegund hafi átt yfir tungumáli að ráða.
Fornleifauppgröftur víða um heim hefur leitt í ljós að neanderdalsmenn bjuggu um lík látinna manna. Haraldur Ólafsson fjallar nánar um þetta í svarinu Hvað var gert við hina látnu hjá neanderdalsmönnum? Í gröfunum hafa fundist vopn, klæði, blóm og aðrir fylgihlutir. Umbúnaður sem þessi bendir til einhvers konar trúar á það sem kalla mætti anda eða sál. Greftrunarsiðir eru í leiðinni skýr vísbending um að neanderdalsmaðurinn hafi getað tjáð sig um slíkar óáþreifanlegar hugmyndir, líklega með einhvers konar tungumáli.
Beinaleifar farlama einstaklinga benda til að neanderdalsmenn hafi gefið bæði öldruðum og fötluðum grið. Vera má að með hjálp tungumálsins hafi þetta fólk getað gegnt mikilvægu hlutverki í hópnum þrátt fyrir að það hafi ekki verið líkamlega fært um að taka þátt í veiðum. Þessir siðir neanderdalsmanna benda samt öllu fremur til að þeir hafi bundist öðru fólki tilfinningaböndum og sýnt samhygð.
Frumstæð talfæri
Þegar talfæri neanderdalsmannsins eru skoðuð má sjá að að hæfni hans til hljóðmyndunar var að öllum líkindum mjög takmörkuð. Ástæðan er talin sú að barkakýlið stóð mjög ofarlega í hálsinum, gegnt fyrsta til þriðja hryggjarlið, og opnaðist beint inn í nefholið. Loftið fór því inn um nefið og milliliðalaust niður í barkann og þaðan í lungun, á meðan matur og drykkur var leiddur fram hjá þessu kerfi og niður í vélindað. Þetta þýddi að neanderdalsmaðurinn var fær um að draga andann samtímis því að matast eða drekka, eins og nær öll önnur spendýr. Þetta getur nútímamaðurinn hins vegar ekki gert.
Hjá nútímamanninum átti sú byltingarkennda þróun sér stað að barkinn færðist neðar í hálsinn (á móti fjórða til sjöunda hryggjarlið) og skildi eftir umtalsvert rými á milli barka og nefhols. Þessi lækkun leiddi til aukinnar hættu á bæði köfnun og drukknun því nú gat matur og vökvi misfarist niður í ranga pípu. Breytingin kom manninum samt að góðum notum þar sem hún bauð upp á mun fjölbreytilegri hljóðmyndun en áður. Þetta undirstrikar í leiðinni hversu mikilvægt tungumálið var afkomu mannsins; huglægur ávinningur bætti upp líkamlegan skaða, og gott betur.
Samkvæmt samanburði við raddfæri annarra spendýra, einkum simpansa, og með hjálp líkans af hljóðhvolfi raddfæranna, hefur verið sýnt fram á að neanderdalsmenn hafi hvorki verið færir um að mynda sérhljóða á borð við a, í, o og ú né heldur koksamhljóða eins og g og k. Þeir áttu líka í erfiðleikum með að greina á milli nefhljóða og annarra hljóða. Geta neanderdalsmanna til að móta hljóð stóð því langt að baki hljóðkerfi hvaða nútímatungumáls sem er. Engu að síður er fráleitt að ímynda sér þá sem rymjandi villidýr. Færni þeirra til hljóðmyndunar var langt umfram getu þeirra prímata sem nú finnast á jörðinni. Í raun gátu neanderdalsmenn myndað svo til jafnmörg hljóð og ungabörn nútímamanna – áður en raddbönd þeirra taka stakkaskiptum á öðru aldursári.
Neanderdalsmenn gátu tjáð sig
Af ofangreindu er engum vafa undirorpið að neanderdalsmenn gátu tjáð sig á margslunginn hátt og stundað markviss samskipti, þrátt fyrir að hafa staðið nútímamanninum töluvert að baki í málfærni. Nú snúast deilur fræðimanna því einkum um nánari útfærslu á hugmyndinni um hinn talandi neanderdalsmann, til að mynda um hversu björt eða dimm rödd neanderdalsmannsins var, um lipurð tungunnar og hvenær tegundin hafi þróað með sér hæfileikann til máls.
Neanderdalsmenn hurfu af sjónarsviðinu fyrir um 30.000 árum. Telja má líklegt að ein ástæða þess hafi verið betri málfærni nútímamanna; hún hefur aukið skipulagshæfni hinna síðarnefndu og þar af leiðandi veitt þeim forskot í samkeppninni á milli þessara tveggja tegunda manna.
Frekara lesefni á VísindavefnumMaðurinn
Constable, G. (1979). Neanderdalsmaðurinn. Reykjavík: Fjölvi.
Laitman, J. T. (1990). Tracing the Origins of Human Speech. Í P. Whitten og D. E. K. Hunter (ritstj.), Anthropology: Contemporary perspectives. Allyn and Bacon.
Language (e.d.). Neanderthal. Channel 4 television.
Lemonick, M. D. og Dorfman, A. (2000). Up from the apes. Time Asia, 155(2).
Þorsteinn G. Berghreinsson. „Gátu neanderdalsmenn talað?“ Vísindavefurinn, 25. október 2005, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5353.