Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiHvaða lög gilda um notkun mynda (ljósmynda/listaverka) þegar 70 ár eru liðin frá láti listamanns?
Um notkun á hugverkum, það er ljósmyndum, bókmenntum, listaverkum og þess háttar, gilda lög um höfundarétt nr. 73/1972. Vert er að gera sér grein fyrir því að réttur höfundar er í reynd tvíþættur. Annars vegar hefur höfundurinn venjulegan eignarrétt á hugverkinu sem hlut, þar á meðal rétt til að selja hlutinn einhverjum öðrum eins og tíðkast í venjulegum viðskiptum. Hins vegar hefur höfundurinn einnig rétt sem stundum er kallaður sæmdarréttur og felst í því að hann getur látið til sín taka um það, hvernig verk hans er notað. Þessi réttur varðar hugverkið en ekki hlutinn og er óháður því hvort höfundur hefur látið hann af hendi. Þannig segir í lögunum:
3. gr. Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.
4. gr. Skylt er, eftir því sem við getur átt, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt.
Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. [...]
Í 43. gr. er tekið nánar á 70 ára verndartímabilinu sem hugverk njóta; það er, að innan 70 ára frá andláti höfundar njóta verk hans enn höfundarverndar og skal með verk hans fara sem hann sé enn á lífi.
Í 44. gr. a er nánar tekið á því sem gerist eftir þessi 70 ár. Ef verkið hefur ekki verið birt almenningi innan þessara 70 ára skal sá sem birtir það fyrst að þeim tíma liðnum öðlast hliðstæðan rétt til fjárhagsnytja af verkinu og höfundar hafa samkvæmt lögunum og helst sú vernd í 25 ár. Til að þetta geti komið til þarf að uppfylla viss skilyrði sem oftar en ekki er erfitt að fullnægja.
Verk listamanna, skálda og rithöfunda njóta höfundarverndar í 70 ár frá andláti þeirra. Hvíld (1918). Þórarinn B. Þorláksson.
Um höfundarrétt er hægt að fara með sem hverja aðra eign. Þessi eign er þó afbrigðileg að því leyti að hún telst sem séreign í hjúskap, það er, hún kemur ekki til skipta ef um skilnað er að ræða og innheimtumenn mega ekki taka höfundarrétt eignarhaldi til fullnustu kröfu. Þar sem höfundarréttur telst eign má láta höfundarrétt ganga í arf og öðlast þá erfinginn sama rétt og höfundur hafði af verki sínu.
Ef verkið er birt opinberlega og höfundur er ekki nafngreindur og þetta gerist innan 70 ára verndartímabilsins má segja að búið sé að núllstilla verndartímabilið; byrja skal upp á nýtt að telja þessi 70 ár. Höfundur verks heldur rétti yfir verki sínu óháð því hver birtir það og sá sem birtir verkið fær því ekki höfundarréttinn, hvort sem höfundur er nafngreindur eða ekki. Ávallt þarf að gæta þess að vitna í viðkomandi höfund og taka fram hver samdi verkið. Ef hliðstætt atvik á sér stað og höfundur er nafngreindur fer með gildistímann eins og áður er kveðið á um. Ákvæði 44. gr. a gilda því einungis ef:
Verkið hefur ekki verið látið ganga í arf.
Verkið hefur ekki verið birt á verndartímabilinu ónafngreint.
Af ofangreindu er ljóst að ýmsum skilyrðum þarf að fullnægja til að geta ráðstafað verkum listamanna eftir andlát þeirra.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd
Magnús Viðar Skúlason. „Hvaða lög gilda um notkun mynda (ljósmynda/listaverka) þegar 70 ár eru liðin frá láti listamanns?“ Vísindavefurinn, 1. nóvember 2005, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5368.
Magnús Viðar Skúlason. (2005, 1. nóvember). Hvaða lög gilda um notkun mynda (ljósmynda/listaverka) þegar 70 ár eru liðin frá láti listamanns? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5368
Magnús Viðar Skúlason. „Hvaða lög gilda um notkun mynda (ljósmynda/listaverka) þegar 70 ár eru liðin frá láti listamanns?“ Vísindavefurinn. 1. nóv. 2005. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5368>.